Sögumenn "Ég hef lengi haft af því veður að KK ætti sér mjög sérkennilegan bakgrunn og uppvaxtarsögu," segir Einar.
Sögumenn "Ég hef lengi haft af því veður að KK ætti sér mjög sérkennilegan bakgrunn og uppvaxtarsögu," segir Einar.
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is NÝTT íslenskt verk, Svona eru menn eftir þá Einar Kárason og Kristján Kristjánsson, verður frumsýnt í Landnámssetrinu í Borgarnesi í kvöld.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

NÝTT íslenskt verk, Svona eru menn eftir þá Einar Kárason og Kristján Kristjánsson, verður frumsýnt í Landnámssetrinu í Borgarnesi í kvöld. Ekki er um eiginlegt leikverk að ræða heldur frásögn Einars af uppvaxtarárum Kristjáns, sem Einar segir að hafi verið skrautleg í meira lagi. "Ég hef lengi haft af því veður að KK ætti sér mjög sérkennilegan bakgrunn og uppvaxtarsögu. Hann fæddist sem amerískur ríkisborgari og ólst upp sem kani. Pabbi hans var ákaflega litríkur maður og lenti í hinum furðulegustu mannraunum og ævintýrum. Hann endaði til dæmis á því að týnast í Víetnam, en kom reyndar í leitirnar aftur," segir Einar. "Þetta varð til þess að ég skrifaði bók um KK fyrir fjórum árum síðan sem hét Þangað sem vindurinn blæs . Það var ævisaga en þetta er svona uppvaxtarsaga sem við erum með núna, þetta er sagan um bakgrunn hans og þeir nafnarnir, hann og pabbi hans, eru aðalpersónurnar í þessu."

Tónlist og tímaflakk

Í verkinu er saga KK rakin til 21 árs aldurs, en að sögn Einars er miðað við þann aldur í ljósi þess að samkvæmt amerískri siðvenju eru menn þá taldir fullorðnir. Þá segir Einar að hann muni ekki fylgja beinni tímalínu í einu og öllu heldur muni hann fara fram og til baka í tíma. "Svo er náttúrlega í þessu það sem ekki var í bókinni og það er tónlistin. Ég segi söguna, stend á gólfinu og segi hana, en KK spilar tónlist á milli," segir Einar og bætir því við að bæði sé um ný og gömul lög úr smiðju KK að ræða, þar á meðal nýtt titillag, Svona eru menn. Aðspurður segir Einar verkið að miklu leyti byggt á bókinni sem kom út fyrir fjórum árum. "Þar lærði ég þessa sögu, fékk hana upp úr KK, bróður hans og fleira fólki og fyrir vikið kann ég hana ágætlega og þess vegna hentar mér ágætlega að segja hana," segir hann.

"Ég get alveg lofað því að sagan er mjög spennandi en svo verða aðrir að dæma um hvernig ég kem henni frá mér, hvort ég hef réttu tæknina til að segja hana. En ég geri mitt besta."

Enginn leikari

Aðspurður um ástæðu þess að verkið er sett upp í Landnámssetrinu í Borgarnesi segir Einar það hafa legið beinast við. "Þetta er feikilega góður staður fyrir svona, Söguloftið svokallaða. Svo stofnaði Kjartan Ragnarsson Landnámssetrið og rekur það, og hann er nú gamall samstarfsmaður okkar beggja. Hann gerði leikrit upp úr Djöflaeyjunni og við höfum verið viðriðnir þrjú leikrit saman. Hann vann líka með KK þegar hann setti upp Þrúgur reiðinnar í Borgarleikhúsinu, þá fékk hann KK sem var nýfluttur heim til Íslands eftir að hafa búið erlendis tvo þriðju hluta ævinnar," segir Einar og bætir því við að kalla megi Kjartan leikstjóra verksins, þótt ekki sé um eiginlegt leikrit að ræða þar sem Einar sýni litla leikræna tilburði. "Ég ætla nú ekki að fara að hrósa mér fyrir það. En það fylgir svo sem oft þegar maður segir sögur að það er einhver líkamstjáning. Annars er ég voðalega lítið meðvitaður, ég er bara að hugsa um söguna og ekki að horfa á sjálfan mig utan frá.

Aldrei eins

Einar segir nokkurn veginn sömu söguna á hverri sýningu, en hann segir þó að engin sýning verði eins. "Við erum búnir að renna í gegnum þetta nokkrum sinnum og höfum haft gaman af því að fólk var að heyra sögur sem það hafði ekki heyrt áður. Það tilheyrir, þetta fer bara eftir stemningu. Í stórum dráttum er sagan sú sama allan tímann en svo raðast það eftir stemningu hvaða litlu myndir er verið að draga upp, hvaða smásögur koma í hugann hverju sinni," segir hann. "Ég hef reynt að beita sjálfan mig aga varðandi það að vera ekki að búa til einhverja þulu, heldur vera með einhvern söguramma sem ég get leikið mér með. Þá getum við líka leyft okkur útúrdúra og einhverjar litlar hugmyndir sem koma upp hverju sinni."

Í Landnámssetrinu hefur verið lögð áhersla á að gera Íslendingasögunum góð skil, en þar var til að mynda leikritið Mr. Skallagrímsson sett upp við miklar vinsældir. Einar vill þó ekki kalla sögu KK eiginlega Íslendingasögu. "Ég treysti mér nú ekki til þess að gefa því þá einkunn. Þessi saga er þó mikil örlagasaga fjölskyldu, eins og algengt var í okkar fornu sögum. En ég er feiminn við að vera að tala um sjálfan mig í sömu andrá og Íslendingasögurnar , það er nú bara guðlast."

Eins og áður segir verður verkið frumsýnt í kvöld, en annað kvöld verður sérstök hátíðarsýning. Verkið tekur um tvær klukkustundir í flutningi með hléi.