Ópið
Ópið
Að SÖGN sérfræðinga gæti verið að eitt af heimsins frægustu málverkum, Ópið eftir Edvard Munch, hefði orðið fyrir óafturkræfum skaða. Norska lögreglan komst yfir málverkið og annað frægt verk eftir Munch, Madonnu, í ágúst sl.

Að SÖGN sérfræðinga gæti verið að eitt af heimsins frægustu málverkum, Ópið eftir Edvard Munch, hefði orðið fyrir óafturkræfum skaða. Norska lögreglan komst yfir málverkið og annað frægt verk eftir Munch, Madonnu, í ágúst sl., tveimur árum eftir að vopnaðir þjófar höfðu verkin á brott með sér af Munch-safninu í Ósló. Sérfræðingar munu skila norsku lögreglunni 200 blaðsíðna skýrslu um ástand verkanna í dag. Í skýrslunni eru m.a. settar fram áhyggjur sérfræðinganna af ástandi verksins, en hluti þess hefur orðið fyrir rakaskemmdum.

Talsmaður Munch-safnsins í Ósló, Jorunn Christoffersen, sagði við fjölmiðla á þriðjudaginn að safnið hygðist ekki tjá sig frekar um ástand hinna endurheimtu verka fyrr en eftir að skýrslan lægi fyrir. Hún vísaði þó í útdrátt úr skýrslunni sem birtist á vef safnsins en þar kemur fram að enn sé unnið að því að greina hvers konar vökvi olli rakaskemmdunum.