FÉLAG íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) mun greiða flugumferðarstjórum sem ekki hafa ráðið sig til Flugstoða, og ekki eiga rétt á biðlaunum, laun næstu þrjá mánuði, gerist þörf á því.

FÉLAG íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) mun greiða flugumferðarstjórum sem ekki hafa ráðið sig til Flugstoða, og ekki eiga rétt á biðlaunum, laun næstu þrjá mánuði, gerist þörf á því. Þetta var samþykkt á félagsfundi í gærkvöldi, en áður hafði verið ákveðið að greiða laun fyrir einn mánuð.

Loftur Jóhannsson, formaður FÍF, segir að til séu sjóðir sem dugi til að greiða hluta launanna, en til að fjármagna greiðslurnar þurfi trúlega að taka lán eða selja eignir, en félagið á m.a. skrifstofu í Borgartúni og tvo sumarbústaði. Lítil þörf sé á því að félagið eigi eignir ef félagsmenn séu að hætta störfum.

Loftur segir að á fundinum í gærkvöldi hafi komið í ljós að yfirmenn Flugmálastjórnar Íslands hafi sett mikinn þrýsting á nokkra flugumferðarstjóra, í það minnsta tvo eða þrjá, sem ekki hafi ráðið sig til Flugstoða um að koma til starfa, eða vera ella tilbúnir að koma til aðstoðar ef brýn þörf verði á eftir áramót.

"Það er greinilegt að þeir hafa sjálfir ekki mikið traust á áætluninni sinni," segir Loftur og vísar þar til viðbúnaðaráætlunar sem Flugmálastjórn kynnti flugrekendum í gær.

Skert þjónusta | 2