Birkir Jón Jónsson
Birkir Jón Jónsson
Birkir Jón Jónsson fjallar um Framsóknarflokkinn: "Á 90 ára afmæli Framsóknarflokksins hefur erindi flokksins við þjóðina sjaldan verið jafn brýnt og nú..."

SÍÐASTLIÐIN 90 ár hefur Framsóknarflokkurinn verið það umbótaafl sem hvað mest áhrif hefur haft á íslenskt samfélag. Rétt er að minnast þeirrar uppbyggingar sem fyrrum formaður flokksins, Jónas frá Hriflu, beitti sér fyrir við uppbyggingu menntunar um allt land með byggingu héraðsskólanna. Þar með gáfust æsku landsins fleiri tækifæri til menntunar sem óumdeilt er að hefur skipt sköpum varðandi þróun íslensks þjóðfélag á síðustu áratugum. Á þessum tímamótum, við 90 ára afmæli flokksins, er erindi framsóknarmanna brýnt þegar horft er til menntamála. Enn er verk að vinna og nú þarf að gera átak í því að efla menntun um allt land og auðvelda fólki að sækja sér menntun í sinni heimabyggð. Með nútímatækni hafa möguleikar á því sviði stóraukist og framsóknarmenn vilja beita sér fyrir úrbótum á því sviði því ekkert kemur í stað öflugrar menntunar.

Traust og djörfung

Um leið og Framsóknarflokkurinn hefur haft mikil áhrif á þróun íslensks samfélags í 90 ár, þá hefur hann þróast með íslensku þjóðinni og tekið breytingum. Flokkurinn hefur þorað að taka áhættu enda hafa forystumenn hans gjarnan verið djarfir hugsuðir og róttækir nýsköpunarsinnar. Flokkurinn hefur treyst ungu fólki fyrir mikilli ábyrgð og til góðra verka og hafa fjölmargir ungir heiðursmenn og -konur borið kyndla framsóknarmanna hátt á lofti í gegnum tíðina á grundvelli félagshyggju og samvinnu. Flokkurinn á nú þrjá yngstu þingmenn þjóðarinnar sem öllum hefur verið treyst til þess að axla mikla ábyrgð og leiða mikilvæga málaflokka til lykta.

Í konum býr mikilvæg auðlind

Jafnréttismál hafa verið framsóknarmönnum hugleikin og enginn flokkur hefur stigið jafn stór skref í átt til jafnrar stöðu kynjanna og Framsóknarflokkurinn. Fyrir síðustu alþingiskosningar leiddu konur þrjá af sex listum flokksins. Í dag sitja þrjár konur á ráðherrastóli fyrir hönd flokksins. Framsóknarkonur fögnuðu í nóvember sl. 25 ára afmæli Landssambands framsóknarkvenna enda hafa framsóknarkonur látið að sér kveða í starfi flokksins um langt skeið. Konur hafa þannig haft greiðan aðgang að pólitísku starfi flokksins og verið fullgildir þátttakendur á þeim vettvangi. Konum hefur verið treyst til mikillar ábyrgðar og hafa þær svo sannarlega staðið undir væntingum. Enginn heilbrigðisráðherra hefur setið lengur á stóli en framsóknarkonan Ingibjörg Pálmadóttir og eins og alþjóð veit gegnir Siv Friðleifsdóttir því embætti í dag. Fáar konur í landinu hafa gegnt jafn viðamiklum og ábyrgðarmiklum verkefnum í jafn langan tíma og Valgerður Sverrisdóttir, núverandi utanríkisráðherra. Dagný Jónsdóttir hefur verulega látið til sín taka í þinginu, verið formaður félagsmálanefndar auk þess að sitja í stjórn þingflokksins. Ekki má þar undanskilja Sæunni Stefánsdóttur sem kom af miklum krafti inn í þingstörfin í haust, svo eftir var tekið í öðrum flokkum. Sæunn og Dagný eru með yngstu þingmönnum þjóðarinnar.

Framsóknarmenn vilja stórsókn í menntamálum um land allt, þeir skilja þörf fyrir nýliðun án þess að þekkingu og reynslu sé kastað fyrir róða og þeir skilja mikilvægi þess að konur njóti sín í hinni pólitísku stefnumótun og stjórnun ekki síður en karlar. Á 90 ára afmæli Framsóknarflokksins hefur erindi flokksins við þjóðina sjaldan verið jafn brýnt og nú og óska ég eftir liðsinni þínu við að halda áfram á braut framfara og velmegunar enda leggur flokkurinn áherslu á að skila hverri kynslóð betra þjóðfélagi en hún tók við, betra lífi, fleiri tækifærum og ríkari menningu.

Höfundur er þingmaður.