Eftir Björn Björnsson "ÞETTA var ekkert nema ánægjan," sagði Kristinn Friðriksson, þjálfari Tindastóls, eftir að hann og lærisveinar hans fögnuðu sigri á Fjölni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Iceland Express-deildinni, á Sauðárkróki í...
Eftir Björn Björnsson

"ÞETTA var ekkert nema ánægjan," sagði Kristinn Friðriksson, þjálfari Tindastóls, eftir að hann og lærisveinar hans fögnuðu sigri á Fjölni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Iceland Express-deildinni, á Sauðárkróki í gærkvöldi, 96:84.

"Ég get ekki verið annað en ánægður og fagna nýju ári, brosandi hringinn. Við vorum frekar slakir í fyrri hálfleik, en svo bættum við vörnina og stigum upp í sókninni með Lamar Karim í fararbroddi en hann spilaði alveg fantavel. Ísak Einars átti einn sinn besta leik og Milojica Zekovic sömuleiðis. Annars spiluðu allir vel, við gerðum það sem gera þurfti og gerðum það sannfærandi á lokasprettinum. Við fengum nýjan mann í gær, Vladimir Vujcic, og hann kemur til með að styrkja liðið verulega. Þetta var fínn sigur fyrir áramótin," sagði Kristinn Friðriksson.

Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis, sagðist auðvitað aldrei sáttur við tap. "En við misstum einbeitinguna í fjórða leikhlutanum og því fór sem fór, við erum með ungt lið, þetta eru 18 og 19 ára strákar og þeir eiga framtíðina fyrir sér og það eru margir leikir eftir. Ég leggst ekkert í neitt þunglyndi þó leikur tapist," sagði Bárður.

Leikurinn byrjaði með mikilli baráttu og heimamenn náðu góðri forystu en gestirnir voru fljótir að ná þeim niður á jörðina og allt til leikhlés voru þeir feti framar, lengstum skildu 3 til 5 stig liðin að og mestur varð munurinn 10 stig, gestunum í vil. Á síðustu sekúndum hálfleiks tókst heimamönnum að jafna 47:47 í hálfleik.

Í síðari hálfleik komu Tindastólsmenn grimmari til leiks og náðu frumkvæðinu en gestirnir voru aldrei langt undan og skiptust liðin á að leiða með örfáum stigum, þar til í síðasta leikhluta þegar heimamenn náðu strax að rífa sig frá gestunum og eftir það var sigurinn næsta öruggur.

Besti maður vallarins var Lamar Karim, en Milojica Zekovic og Ísak Einarsson voru mjög góðir, þá börðust Gunnlaugur Elsuson og Helgi Viggósson mjög vel, Svavar átti góða kafla en á mun meira inni. Nýi leikmaðurinn Vladimir Vujcic var sterkur í vörninni og í síðasta leikhlutanum hélt hann Kareem Johnson hjá Fjölni gjörsamlega í skefjum en hann og Hörður Axel Vilhjálmsson voru langbestu menn Fjölnis en einnig áttu Níels Páll Dungal og Árni Ragnarsson ágætan leik.