Hvert fíkniefnamálið hefur rekið annað á árinu sem nú er að líða og hafa mörg þeirra verið verulega umfangsmikil.

Hvert fíkniefnamálið hefur rekið annað á árinu sem nú er að líða og hafa mörg þeirra verið verulega umfangsmikil. Eins og fram kemur í fréttaskýringu Rúnars Pálmasonar í Morgunblaðinu í gær hafa lögregla og tollgæsla lagt hald á jafnmikið af amfetamíni og kókaíni og samanlagt náðist á árunum sex þar á undan.

Ógerningur er að segja til um hversu stórt hlutfall þess magns af eiturlyfjum sem smyglað er til landsins er gert upptækt. SÁÁ telur að neysla örvandi fíkniefna vaxi stöðugt og segja samtökin að miðað við fjölda amfetamínfíkla gæti innflutningur numið 640 kílóum á ári, sem myndi þýða viðskipti upp á 2,7 milljarða króna.

Sá árangur sem yfirvöld hafa náð í að stöðva fíkniefnasmygl er lofsverður. Rót vandans liggur hins vegar í eftirspurninni. Líf einstaklings á valdi eiturlyfja er ömurlegt og allt of margir hafa orðið eiturlyfjafíkninni að bráð í íslensku þjóðfélagi. Baráttan gegn eiturlyfjum er spurning um mannslíf.

Taka þarf með fullum þunga á þeim sem smygla eiturlyfjum inn í landið og hagnast á eymd annarra. Það má hins vegar ekki gleyma því að eiturlyfjasjúklingarnir eru fórnarlömb og það er lykilatriði að kapp verði lagt á að opna þeim dyrnar út úr heimi eiturlyfjanna en ekki bæta harðri refsingu ofan á þá erfiðleika sem fyrir eru.