Könnustóll "Fyrr á öldum voru til svokallaðir könnustólar, lítil borð til þess að setja könnur á, og má m.a. sjá mynd af slíku húsgagni í Íslensku teiknibókinni frá 15. öld."
Könnustóll "Fyrr á öldum voru til svokallaðir könnustólar, lítil borð til þess að setja könnur á, og má m.a. sjá mynd af slíku húsgagni í Íslensku teiknibókinni frá 15. öld."
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvort á að syngja "Uppi á stól stendur mín kanna" eða "Uppi á hól stend ég og kanna"? Greinarhöfundur er ekki í nokkrum vafa um að hið fyrra sé réttara.

Hvort á að syngja "Uppi á stól stendur mín kanna" eða "Uppi á hól stend ég og kanna"? Greinarhöfundur er ekki í nokkrum vafa um að hið fyrra sé réttara. Kannan var til og stóllinn, eins og bent var á í frétt í Morgunblaðinu fyrir jól, en vísbendingar er líka að finna í norskri bók og færeyskri.

Eftir Unu Margréti Jónsdóttur

unamj@ruv.is

Jólasveinar ganga um gólf

með gylltan staf í hendi,

móðir þeirra sópar gólf

og flengir þá með vendi.

Þessi texti er þjóðvísa og margir halda að lagið við hann sé íslenskt þjóðlag, en svo er ekki, heldur er það eftir Friðrik Bjarnason tónskáld sem fæddist árið 1880. Friðrik samdi fleiri vinsæl lög, svo sem "Hafið bláa hafið" og "Fyrr var oft í Koti kátt". Undanfarin ár hefur verið mikið deilt um það hvernig þessi texti eigi að vera. Ólína Þorvarðardóttir kveðst hafa lært textann þannig af móður sinni sem var fædd 1926 og alin upp á Vestfjörðum:

Jólasveinar ganga um gátt

með gildan staf í hendi.

Móðir þeirra hrín við hátt

og hýðir þá með vendi.

Telja margir að þetta sé upprunaleg gerð vísunnar og benda á það að þannig sé vísan rétt stuðluð, en ekki í hinni gerðinni. Satt er það, en þó verður að geta þess að gerðin "Jólasveinar ganga um gólf með gylltan staf í hendi" er mjög gömul. Hún kemur fyrir í bók Ólafs Davíðssonar Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur árið 1898 og hefur vafalaust verið gömul þá. Og í Árnasafni má finna mörg dæmi um hljóðritanir með gömlu fólki sem hefur lært vísuna þannig. Haft hefur verið á orði að íslenskir jólasveinar geti ekki átt gylltan staf, en í ævintýrum er allt hægt.

Meiri styr hefur þó staðið um seinni hluta söngsins, "Uppi á stól/ stendur mín kanna/ níu nóttum fyrir jól/ kem ég til manna". Reyndar er sannleikurinn sá að hlutarnir "Jólasveinar ganga um gólf" og "Uppi á stól stendur mín kanna" eru tvær vísur og hugsanlega hafa þær ekki verið settar saman fyrr en með lagi Friðriks Bjarnasonar sem birtist á prenti 1949. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar 1864 kemur fyrir vísan "Uppi á stól" og Jón segir að sumir tiltaki þetta erindi sem sönnun fyrir því að jólasveinarnir séu níu. Þess vegna hefur Friðrik ákveðið að skeyta vísunum saman og gera úr þeim einn jólasveinasöng.

Á síðustu árum hefur verið fundið upp á því að breyta þessum hluta textans í "Uppi á hól stend ég og kanna" og hafa verið færð þau rök fyrir því að enginn skilji hvað þessi kanna sé að gera uppi á stól eða hvað hún komi jólasveinunum við. En þjóðvísur eiga ekki endilega að vera rökréttar. Það er einmitt það skemmtilega við þær að þær lúta kröfum listarinnar en ekki skynseminnar. Hver er það til dæmis sem villir og stillir í kvæðinu um Ólaf Liljurós þar sem sungið er "villir hann, stillir hann"?

Með því að breyta erindinu um könnuna og stólinn erum við að rjúfa tengsl við gömul þjóðkvæði, hugsanlega aldagömul danskvæði, og það væri mikill skaði því að við eigum ekki svo marga leikjasöngva sem hægt er að rekja til gamalla danskvæða. Ljóst er að erindið um könnuna og stólinn er a.m.k. 140 ára gamalt þar sem það er birt í þjóðsögum Jóns Árnasonar árið 1864. Og að líkindum hefur það verið gamalt þá. Hvergi hef ég séð hendinguna "Uppi á hól stend ég og kanna" í gömlum bókum og ekkert bendir til þess að vísan hafi upprunalega verið þannig, þvert á móti höfum við áreiðanlegar sannanir fyrir því að textinn fjallaði um könnu. Textinn er nefnilega líka til í norskri bók frá 1899 og er þar svohljóðandi:

Upp i lid og ner i strand

stend ei liti kanna.

Nie netter fyre jol

dansar jomfru Anna.

Hér er það ljóst að átt er við könnu og ekkert annað því Norðmenn eiga ekkert orð sem samsvarar íslensku sögninni "að kanna". Ekki nóg með það, þessi texti er líka til í færeyskri bók frá miðri 19. öld og þar er líka talað um könnu. Á færeysku geislaplötunni Nina nina nái má finna lag við færeysku gerðina af kvæðinu og textinn er svona:

Uppi i einari eikilund

har hongur ein kanna.

Fýra nætur fyri jól

dansaðu har jómfrúirnar allar.

Har dansar litla Anna

sum ein onnur terna.

Hendingin um Önnu sem dansar níu nóttum fyrir jól er einnig til í íslenskri gerð af vísunni sem birtist í bók Ólafs Davíðssonar og Jóns Árnasonar Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur :

Níu nóttum fyrir jól,

þá kem ég til manna

og þá dansar hún Anna.

Þessi hending bendir til þess að þjóðvísan geti verið brot úr gömlum vikivaka. Annað bendir einnig til þess að hún sé gömul. Hægt er að finna fullkomlega rökrétta skýringu á því að kannan stendur uppi á stól. Fyrr á öldum voru til svokallaðir könnustólar, lítil borð til þess að setja könnur á, og má m.a. sjá mynd af slíku húsgagni í Íslensku teiknibókinni frá 15. öld. Líklegt er að það sé einmitt svoleiðis könnustóll sem átt er við í textanum. En þá hlýtur textinn líka að vera mjög gamall.

Eftir að könnustólar hættu að tíðkast urðu til ýmsar alþýðuskýringar á því hvað kannan og stóllinn táknaði í textanum. Út frá því spunnust þjóðsögur, og Eva Hjálmarsdóttir segir eina slíka í bókinni Paradís bernsku minnar . Eva var fædd 1905 og lærði söguna af ömmu sinni.

"Konu nokkra dreymdi, að huldukona kæmi til sín með stóra mjólkurkönnu. Hún bað konuna að gefa sér mjólk í hana handa börnum sínum, því að kýrin sín væri óborin. Hún kvað:

"Níu nóttum fyrir jól

kem ég til manna.

Uppi á háum stól, stól

stendur mín kanna."

Um morguninn, þegar konan kom fram í búrið sitt, stóð þar á stól stærðar mjólkurkanna, sem hún kannaðist við úr draumnum. Fór hún þá til og mjólkaði í snatri, og fyllti könnuna, sem óðar hvarf, þegar konan sneri sér við. Gekk þetta svo til þangað til á jóladagsmorgun. Var þá kannan horfin, en á stólnum lá forkunnarfagur silkiklútur, það voru laun huldukonunnar fyrir greiðviknina."

Í Árnasafni má finna hljóðritun, gerða af Helgu Jóhannsdóttur, þar sem kona fædd 1910 og alin upp á Snæfellsnesi syngur söng sem hefur erindið um könnuna og stólinn sem viðkvæði. Það er athyglisvert að þessi söngur fjallar ekkert um jól eða jólasveina. Fyrsta erindið er svona:

Sat ég á gylltum stól,

sá ég undrin mörg.

Hvítir svanir syntu

á silfurbjartri tjörn.

Uppi á stól, uppi á stól

stendur mín kanna.

Níu nóttum fyrir jól,

þá kem ég til manna.

Í könnunni í þessu ljóði er töfradrykkur sem gefur kóngssyni hugrekki til að frelsa kóngsdóttur úr tröllahöndum. Konan sem syngur þetta lærði sönginn af gamalli konu úr Helgafellssveit.

Ef við breytum hendingunni "Uppi á stól stendur mín kanna" í "Uppi á hól stend ég og kanna" missum við líka tengslin við þjóðkvæði eins og þetta og þjóðsögur eins og þá sem Eva Hjálmarsdóttir sagði. Ég vona því að gamla vísan "Uppi á stól stendur mín kanna" fái að halda sér og verði sungin af börnum framtíðarinnar. Það er ánægjulegt þegar börnin fá að halda tengslum við fortíðina.

Höfundur er útvarpsmaður.