[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á haustdögum kom út sex hundruð síðna sýnisbók um þýðingar og þýðingafræði undir titlinum Translation – Theory and Practice. A Historical Reader í ritstjórn Daniels Weissbort og Ástráðs Eysteinssonar.
Á haustdögum kom út sex hundruð síðna sýnisbók um þýðingar og þýðingafræði undir titlinum Translation – Theory and Practice. A Historical Reader í ritstjórn Daniels Weissbort og Ástráðs Eysteinssonar. Verkið vekur meðal annars athygli á nauðsyn þess að leysa hugsunarhátt okkar um bókmenntir úr spennitreyju þjóðarhugtaksins.

Eftir Jón Karl Helgason

jkh@hi.is

Ef einhver tæki sér fyrir hendur að þýða Pindar orð fyrir orð myndu menn telja að einn brjálæðingur hefði þýtt annan," skrifar enska skáldið og þýðandinn Abraham Cowley (1618–1667) í formála fyrir þýðingum sínum á ljóðum forngríska skáldsins. Cowley mælist þar til þess að þýðendur taki sér rífleg skáldaleyfi og skapi frjálslegar "eftirlíkingar" frumtextans sem gefi lesendum fremur til kynna með hvaða hætti skáldið hafi komið orðum að hugsunum sínum en nákvæmlega hvað það sagði.

Formáli Cowleys er meðal fjölmargra, fjölbreyttra texta um þýðingar sem birtir eru í ríflega sex hundruð síðna sýnisbók sem út kom hjá hinu virta breska háskólaforlagi Oxford University Press á haustdögum 2006 undir titlinum Translation – Theory and Practice. A Historical Reader. Ritstjórar eru Daniel Weissbort fyrrum prófessor í samanburðarbókmenntum við University of Iowa og Ástráður Eysteinsson prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, en að verkinu kom auk þeirra tæp tylft fræðimanna og þýðenda úr ýmsum áttum. Lögð er áhersla á hina enskumælandi hefð frá miðöldum fram til okkar daga, allt frá formálsorðum Alfreðs (Elfráðs) konungs (849–899) að fornenskum þýðingum á latneskum verkum eftir Gregoríus mikla og Boetíus til umræðu írska skáldsins Seamus Heaney um verðlaunaþýðingar sínar á Bjólfskviðu frá 1999. Jafnframt má þó finna þarna lykiltexta sem voru ekki skrifaðir upphaflega á ensku en hafa, fyrir tilstilli þýðinga, haft mótandi áhrif á hugmyndir manna um þýðingar í hinum enskumælandi menningarheimi. Má þar nefna Rómverjann Cíceró, Þjóðverjana Lúter, Goethe og Schleiermacher og argentínska skáldið Jorge Luis Borges.

Hugtakið "sýnisbók" gefur reyndar ekki rétta mynd af þessu verki því sérhverjum texta er fylgt úr hlaði með umfjöllun um viðkomandi höfund. Þá er sérstakur inngangur fyrir hverjum af hinum fimm hlutum bókarinnar, auk þess sem vissir kaflar eru helgaðir afmörkuðum viðfangsefnum fremur en einstökum höfundum. Þannig fjallar einn um þýðingastarf breskra kvenna á sextándu, sautjándu og átjándu öld, annar um þýðingaumræðu í Bretlandi á Viktoríutímanum, sem einkum snerist um Hómersþýðingar, og sá þriðji um fjörug skoðanaskipti skálda á tuttugustu öld um þýðingar á bundnu máli. Fyrir vikið varpar verkið athyglisverðu ljósi á stöðu og hlutverk þýðinga í bókmenntasögunni, einkum þó frá miðöldum fram til aldamótanna 1900, en því tímabili eru gerð skil í fyrri helmingi verksins. Síðari helmingurinn er helgaður tuttugustu öldinni og er þar vaxandi áhersla lögð á skrif fræðimanna um þýðingar, enda er það fyrst á þessu tímabili sem þýðingafræði fer að mótast sem sjálfstæð fræðigrein.

Eitt skemmtilegasta einkenni verksins, og það sem greinir það skýrt frá öðrum bókum af líku tagi, er þó sá sess sem eiginlegar þýðingar skipa við hlið hinnar fræðilegu umræðu. Í mörgum tilvikum birta ritstjórarnir ekki aðeins brot úr skrifum einstakra þýðenda heldur einnig dæmi um þýðingar þeirra. Útdrætti úr formála Alexanders Pope (1688–1744) að þýðingu hans á Illíonskviðu fylgja til dæmis sýnishorn úr þeirri þýðingu sem og þýðingu Popes á Ódysseifskviðu. Sami háttur er hafður á í sumum þeirra tilvika þegar birtar eru greinar eða bókarkaflar eftir síðari tíma fræðimenn, enda vekja ritstjórarnir athygli á að flestir þeirra sem skrifað hafi um þýðingar á liðnum áratugum byggi fræði sín á hagnýtri reynslu. Í raun eru þýðingadæmin í verkinu athyglisvert málsögulegt og bókmenntasögulegt þversnið enskrar tungu þar sem oft er um að ræða sömu brotin úr tilteknum sígildum verkum sem þýdd hafa verið aftur og aftur, svo sem Biblíunni, Ódysseifskviðu, leikritinu Agamemnon eftir Æskilos og Bjólfskviðu. Í sumum tilvikum eru líka birtir viðkomandi frumtextar og/eða orðréttar enskar þýðingar þeirra.

Eins og ljóst ætti að vera af þessari lýsingu er Translation – Theory and Practice ekki ein þeirra bóka sem lesandinn les endilega í einni beit, frá upphafi til enda. Hér er fremur um að ræða eitt þeirra fágætu verka sem maður grípur ofan úr hillu aftur og aftur og getur notið samvista við mánuðum og jafnvel árum saman. Á málstofu um þýðingar á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands í nóvembermánuði lýstu ritstjórarnir henni sem eins konar vinnustofu sem ætti að veita lesandanum tækifæri til að fræðast um og glíma við margvísleg álitamál. Þetta má til sanns vegar færa; hinn víði sögulegi rammi verksins og fjölbreytileiki textanna býður upp á ærin tækifæri til samanburðar.

Þýðing, endurritun, ritstuldur

Eitt af því sem vekur athygli við lestur verksins er hve mörg þeirra efna sem verið hafa í brennidepli í umræðum um þýðingar undanfarna áratugi eru í raun sígild. Æði snemma voru uppi deilur meðal þýðenda um hvort æskilegra væri að þýða orð fyrir orð eða setningu fyrir setningu, vangaveltur um muninn á menningarheimum frumtextans og þýðingarinnar og kenningar um mikilvægi þýðinga fyrir þróun þjóðtungna og þjóðmenningar. Meðal margra athyglisverðra eldri texta sem birtir eru í bókinni er ritgerð franska prentarans, fræðimannsins og þýðandans Estiennes Dolet (1509–1546), "Hvernig þýða á vel frá einu tungumáli til annars" (sem birt er í enskri þýðingu James Holmes) en þar eru þýðendum lagðar fimm gullvægar lífsreglur. Dolet varar meðal annars þá sem þýða úr latínu við að fyrna mál sitt óþarflega, til dæmis með því leita uppi orð sem er af sama stofni og latneska orðið í frumtextanum. Hann telur æskilegast að þýðingar séu auðskiljanlegar og hnökralausar. Enska skáldið og þýðandinn William Morris (1834–1896) var á öndverðum meiði við Dolet um þetta efni en eins og merkja má á því broti úr þýðingu hans og Eiríks Magnússonar úr Grettis sögu, sem birt er í verkinu, voru fyrningar í máli áberandi einkenni á umdeildum Íslendingasagnaþýðingum þeirra félaga.

Í ljósi nýlegra deilna hér á landi um meðferð ritheimilda við ævisöguskrif er í verkinu afar forvitnileg umræða um hin óljósu skil sem geta verið á milli þýðingar, endurritunar og ritstuldar. Á miðöldum og fyrri hluta nýaldar þótti sjálfsagt og jafnvel æskilegt að evrópskir höfundar tækju sér gríska og rómverska höfunda til fyrirmyndar – raunar fólst listsköpun á mörgum sviðum í "eftirlíkingu" eldri verka fremur en í "frumlegri" nýsköpun. Líkt og bent er á í formálsorðum kaflans sem fjallar um þýðingar í Bretlandi á sextándu öld og fyrstu áratugum þeirrar sautjándu litu menn á þeim tíma ekki endilega svo á að ritstuldur væri glæpsamlegt athæfi. Fyrir kom að þýðendur eignuðu sér bókstaflega þá texta sem þeir höfðu þýtt. Einhver þekktustu dæmin sem bera vott um þessi viðhorf eru úr þeim leikritum Shakespeares sem gerast í Rómaveldi til forna og byggjast á enskri þýðingu Sir Thomas North (1535–1602/3) á franskri þýðingu Amyots biskups á Ævisögum gríska rithöfundarins Plútarchosar. Í þeim kafla sem fjallar um þýðingar Norths er birt athyglisvert brot úr leikritinu Kóríólanusi eftir Shakespeare, ásamt viðkomandi kafla úr verki Plútarchosar. Shakespere tekur hér texta Norths/Amyots/ Plútarchosar svo að segja orðréttan upp og er raunar athyglisvert hve hnökralaust þýðing Norths fellur að bragarhætti leikritsins.

Af nýlegra efni eru birtar í bókinni sígildar greinar um þýðingar frá tuttugustu öld, meðal annars eftir Walter Benjamin, Roman Jakobson, Jiøí Levý, James Holmes og Itamar Even-Zohar, sem og valin skrif fræðimanna sem sent hafa frá sér áhrifarík fræðirit á ensku á þessu fræðasviði á undanförnum áratugum, svo sem Eugene A. Nida, George Steiner, Mary Snell-Hornby, Douglas Robinson, Lawrence Venuti, André Lefevere og Susan Bassnett. Hreinræktuð skáld og þýðendur eiga líka hér sína fulltrúa, þar á meðal Ezra Pound, Robert Lowell og Ted Hughes. Í þessum seinni hluta bókarinnar má ennfremur finna texta sem nálgast þýðingarvandann með skáldlegum hætti, til að mynda hina margræðu smásögu Borgesar, "Pierre Menard, höfundur Don Kíkóta". Þá er sérstakt ánægjuefni að finna hér stórskemmtilega og fræðandi grein bandaríska mannfræðingsins Lauru Bohannan sem lýsir tilraunum hennar til að endursegja vestur-afrískum frumbyggjum söguþráðinn í Hamlet eftir Shakespeare. Hún rekur sig fljótt á að margt af því sem við Vesturlandabúar teljum hæpið við hegðun persónanna (svo sem það að föðurbróðir Hamlets gengur að eiga móður hans skömmu eftir að hún verður ekkja) þykir afrískum áheyrendum hennar fullkomlega eðlilegt en annað (til dæmis að "höfðinginn" Hamlet eigi ekki eina einustu eiginkonu) kemur þeim afar spánskt fyrir sjónir. Hér er eftirminnilegu ljósi varpað á þau vandamál sem blasa við öllum þeim þýðendum er reyna að byggja brú á milli tveggja menningarheima sem eru fjarlægir hvor öðrum, í tíma og/eða rúmi.

"Íslensk" þýðingasaga í þúsund ár

Meðal annars efnis sem rætt var á áðurnefndu Hugvísindaþingi voru fjórða og fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu sem bókaútgáfan Edda gaf út nú í haust, en þau eru helguð tuttugustu öldinni. Sérstök málstofa var um þetta verk og að nokkru leyti ítrekuð þar ýmis gagnrýni sem komið hafði fram í ritdómum vikurnar á undan. Ein veigamesta gagnrýnin beindist að því hve þýðendur bera skarðan hlut frá borði í þessum lokabindum bókmenntasögunnar og var bent á að hér væri um vissa stefnubreytingu að ræða frá fyrri bindum þremur. Af þessari umræðu mátti draga þá ályktun að tímabært væri að á íslensku kæmi út myndarlegt bókmenntasögulegt rit þar sem þýðingar væru í forgrunni, bók sem gæti staðið undir titlinum "Íslensk" þýðingasaga í þúsund ár.

Auk margs annars kveikir Translation – Theory and Practice fjölmargar frjóar hugmyndir um efni sem gaman væri að sjá fjallað um í slíku riti. Til að mynda væri fróðlegt að þar kæmi fram með hvaða hætti þýðendur á norræna tungu og síðar íslensku hafi gert grein fyrir störfum sínu og hugmyndum, til dæmis í formálum að eigin þýðingum eða á öðrum vettvangi, svo sem í persónulegum heimildum. Hér má til dæmis benda á áhugaverð skrif Stefáns Bjarman um raunir sínar við að þýða skáldsöguna For Whom the Bell Tolls eftir Ernest Hemingway. Ragnar Jónsson í Smára fékk Emil Thoroddsen upphaflega til þessa verks en leist ekki betur á þýðingu Emils en svo en hann réð Stefán til verksins árið 1944. Þegar Stefán var búinn með þrjá fjórðu hluta skáldsögunnar sendi hann þýðinguna til Erlends í Unuhúsi til yfirlestrar. Skömmu síðar lést Erlendur og þegar að var gáð fannst hvorki tangur né tetur af þýðingunni í Unuhúsi. Stefán tók þá til við að frumþýða bókina að nýju. Stóð á endum að hann lauk við fyrstu þrjá fjórðungana skömmu áður en gamla þýðingin kom aftur í leitirnar í eldtraustum skáp Tollskrifstofunnar þar sem Erlendur hafði unnið. Enn átti Stefán þó eftir að þýða síðasta fjórðunginn og lauk því ekki fyrr en árið 1951. Lýsingar Stefáns á þessari þrautagöngu voru birtar í tímaritinu Andvara árið 1988 en á handritadeild Landsbókasafnsins má einnig finna bréf Stefáns til Ragnars frá árunum 1945 til 1951 þar sem hann lýsti meðal annars viðhorfum sínum til þýðinga og deildi við forleggjarann um titil verksins. Ragnar vildi nefna skáldsöguna Klukkan kallar (hugsanlega til samræmis við íslenska þýðingu á nafni kvikmyndarinnar sem gerð hafði verið eftir bókinni), Stefán taldi hins vegar að Hverjum klukkan glymur væri betri og réttari titill og benti á að Halldór Laxness hefði kallað bókina því nafni í inngangi að þýðingu sinni á annarri skáldsögu Hemingways, Vopnin kvödd. Ragnar hafði sitt fram í fyrstu útgáfu en í síðari útgáfum hefur ósk Stefáns verið tekin til greina.

Í ljósi smásögu Borgesar væri ennfremur áhugavert að skoða íslensk skáldverk þar sem þýðingavandinn er til umræðu. Þekkt eru skoðanaskipti þeirra Hildar og sögumanns um eigin ljóðaþýðingar í smásögunni "Grasaferð" eftir Jónas Hallgrímsson en af nýútkomnum skáldsögum þar sem þýðingar koma við sögu má nefna Sendiherrann eftir Braga Ólafsson og Undir himninum eftir Eirík Guðmundsson. Í fyrrnefnda verkinu fást ljóðskáld af ólíku þjóðerni meðal annars við að þýða ljóð hver annars í tengslum við sögulega ljóðahátíð sem haldin er í Litháen. Sögumaður síðarnefnda verksins glímir í upphafi frásagnar við að þýða skáldsögu úr spænsku og virðist þar hafa orðið fyrir áhrifum af þeirri skoðun Abrahams Cowley að þýðendur eigi að taka sér ríflegt skáldaleyfi. "Þegar ég hafði setið í um það bil mánuð yfir bókinni tók ég völdin í mínar hendur og fór að staðfæra verkið og betrumbæta, ég breytti því sem mér sýndist, blandaði minni eigin sögu saman við frásagnir af söguhetjunni, flutti sögusviðið jafnvel borga á milli ef það hentaði mér. Með þessum hætti ætlaði ég að skapa splunkunýtt verk, sögu sem ég myndi kvitta fyrir í eigin nafni." Hér eru á ferðinni viðhorf sem nutu væntanlega meiri viðurkenningar á sextándu öld en þeirri tuttugustu og fyrstu – eftir því sem líður á frásögnina vakna smám saman þær grunsemdir hjá lesandanum að aðferð "eftirlíkingarinnar", ekki síður en sú aðferð að þýða frá orði til orðs, kunni að bera vott um brjálsemi.

Síðast en ekki síst sýnir Translation – Theory and Practice bæði fram á gildi þess að flétta fjölbreyttum þýðingardæmum saman við fræðilega og sögulega umfjöllun um þýðingar og nauðsyn þess að leysa hugsunarhátt okkar um bókmenntir úr spennitreyju þjóðarhugtaksins. Líkt og hið aðdáunarverða "enska" verk þeirra Daniels Weissbort og Ástráðs Eysteinssonar stefnir saman höfundum og þýðendum af ólíku þjóðerni er viðbúið að "Íslensk" þýðingarsaga í þúsund ár geti orðið spennandi deigla ólíkra tungumála, bókmenntagreina og menningarheima.

Höfundur er bókmenntafræðingur.