Borinn þungum sökum Moshe Katsav og kona hans Gila (t.h.) með kvenhermanni í Jerúsalem.
Borinn þungum sökum Moshe Katsav og kona hans Gila (t.h.) með kvenhermanni í Jerúsalem. — AP
Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is FAST var lagt að Moshe Katsav, forseta Ísraels, að segja af sér í gær eftir að ríkissaksóknarinn Menachem Mazuz ákvað að ákæra hann fyrir nauðgun, kynferðislega áreitni, trúnaðarbrot og mútuþægni.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

FAST var lagt að Moshe Katsav, forseta Ísraels, að segja af sér í gær eftir að ríkissaksóknarinn Menachem Mazuz ákvað að ákæra hann fyrir nauðgun, kynferðislega áreitni, trúnaðarbrot og mútuþægni.

Ríkissaksóknarinn skýrði forsetanum frá því að hann hygðist ákæra hann fyrir að nauðga fyrrverandi starfskonu ferðamálaráðuneytis Ísraels seint á síðasta áratug þegar hann var þar ráðherra og fyrir að áreita kynferðislega þrjár konur sem unnu í embættisbústað forsetans.

Katsav fær tækifæri til að svara þessum ásökunum á fundi með Mazuz í dag og ríkissaksóknarinn tekur síðan lokaákvörðun um ákæru.

Lögfræðingur Katsavs sagði síðdegis í gær að forsetinn héldi fram sakleysi sínu. "Forsetinn er sannfærður um að hann sé fórnarlamb rangra ásakana og tilrauna til að bola honum úr embætti og ætlar að berjast til að sanna sakleysi sitt."

Katsav er 61 árs, fæddist í Íran og var blaðamaður þar til hann bauð sig fram fyrir Likud-flokkinn árið 1977. Hann var kjörinn forseti árið 2000 og varð fyrsti félaginn í hægriflokki til að gegna embættinu. Völd forsetans eru takmörkuð en embættið nýtur mikillar virðingar.

Þingmenn í Ísrael, þeirra á meðal nokkrir hægrimenn, hvöttu Katsav til að segja af sér. Meretz-flokkurinn kvaðst ætla að leggja fram tillögu um að Katsav yrði sviptur forsetaembættinu ef hann segði ekki af sér.

Katsav sagði í desember að hann myndi láta af embætti um stundarsakir ef ákæra yrði gefin út á hendur honum.

Þingið getur svipt hann embættinu

Forsetinn nýtur friðhelgi frá ákæru meðan hann gegnir embættinu og ekki er hægt að sækja hann til saka nema hann segi af sér, verði sviptur embættinu eða eftir að kjörtímabili hans lýkur.

Þingið getur svipt forsetann embættinu en til þess þurfa þrír fjórðu þingmanna að samþykkja ályktun þess efnis.

Verði Katsav saksóttur verður hann fyrsti sitjandi forseti Ísraels til að verða ákærður fyrir glæp. Forveri Katsavs í embættinu, Ezer Weizman, sagði af sér árið 2000, skömmu áður en kjörtímabili hans lauk, eftir að ríkissaksóknarinn komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði brotið lög með því að þiggja gjafir að andvirði rúmra 30 milljóna króna frá franska auðkýfingnum Edouard Saroussi á níunda áratug aldarinnar sem leið.

Ríkissaksóknari Ísraels tilkynnti fyrir tæpri viku að hann hefði hafið rannsókn á ásökunum um að Ehud Olmert forsætisráðherra hefði misnotað áhrif sín þegar næststærsti banki landsins var einkavæddur fyrir tveimur árum.