Sigríður Snæbjörnsdóttir
Sigríður Snæbjörnsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Snæbjörnsdóttir og Sigurður Guðmundsson fjalla um eignarétt og málefni sumarhúsaeigenda: "Ítrekað hefur komið fram hve eignaréttur leiguliðanna á húsum sínum er í raun fótum troðinn."

HUGTAKIÐ eignaréttur er vafalítið margrætt hugtak í lögfræði, en fyrir leikmenn er kjarni þess þó mjög einfaldur. Geti menn sannað að þeir eigi eitthvað og hafi aflað þess á lögmætan hátt geta menn yfirleitt nýtt eign sína eftir eigin höfði svo fremi sem þeir ganga ekki á rétt annarra.

Réttur sumarhúsaeigenda fótum troðinn

Annað virðist samt uppi á teningum varðandi fólk sem á sumarhús á leigulóðum víða um land. Allnokkuð hefur verið fjallað um málefni leiguliðanna undanfarna mánuði í fréttum og blöðum, og síðast hér í Morgunblaðinu á dögunum. Ítrekað hefur komið fram hve eignaréttur leiguliðanna á húsum sínum er í raun fótum troðinn. Þeir eiga húsin en leigja landið sem þau standa á, rétt eins og langflestir húseigendur gera í borgum og bæjum landsins. Engum bæjarfulltrúa með fullu viti sem ætlar sér að vinna næstu kosningar dytti í hug að heimta að húseigendur í bæjarfélaginu keyptu landspilduna undir húsinu á uppsprengdu verði. Verðlagning væri einhliða og ákveðin af bæjarfulltrúum og blessaður húseigandinn, dyggur þegn bæjarfélagsins, hefði engan kost á því að fá óháð mat á verðkröfum. Gangi hann ekki að kaupunum, skal hann hypja sig burt af lóðinni með allt sitt hyski og hafurtask, þar á meðal húskofann. Síðan verður hann að freista þess að hola kofanum niður einhvers staðar annars staðar, bótalaust. Ekki ættum við von á því að okkar ágæta bæjarfélag, Kópavogur, léti svona við þegna sína, enda greint og gott fólk í Kópavogi. Þetta er hins vegar reyndin fyrir marga eigendur sumarhúsa á leigulóðum víða um land.

Fjárplógsmenn í fararbroddi

Mál leiguliða í landi Dagverðarness í Skorradal hafa verið mest til umfjöllunar að undanförnu, enda skýrt dæmi um hvernig málum er háttað. Þar, eins og víða annars staðar, hafa fjárplógsmenn ýmsir fest kaup á jörðinni. Fyrstu leigusamningar renna út í haust, og eigendur húsa á jörðinni sæta nú þeim afarkostum að greiða sem svarar 10-15 milljónir fyrir hektarann eða hypja sig ella. Svo virðist að mál af þessu tagi hafi einkum komið upp þegar jarðir hafa farið úr eigu bænda í hendur gróðamanna á mölinni. Flestir Íslendingar, ekki síst bændur, skilja merkingu orðsins heilindi, sá skilningur virðist hulinn öðrum.

Ráðherraskipuð nefnd gætir réttar – hverra?

Í nýlegri frétt Morgunblaðsins kemur fram að ráðherraskipuð nefnd starfi nú að lagafrumvarpi um málefni sumarhúsaeigenda. Er það vel, en mátti þó vart seinna vera. Í fréttinni er haft eftir framkvæmdastjóra Landsambands sumarhúsaeigenda að "setja verði málið þannig fram að ekki sé verið að brjóta á eignaréttinum". Þetta er einmitt mergurinn málsins. Vissulega verður að virða eignarétt landeigenda, en sá réttur má ekki fótumtroða eignarétt þess sem á fasteign á landinu.

Farsæl lausn einföld

Því geta mál þessi ekki fengið farsælan endi, eða lyktir sem Alþingi er sómi að, nema sett verði lagaákvæði er tryggi núverandi leiguliðum tvennt: Annars vegar þarf að tryggja þeim forleigurétt þegar leigusamningur rennur út til sama tíma og fyrri samningur sagði til um. Hins vegar þarf leiguliði að eiga tryggðan forkaupsrétt, vilji landeigandi selja lóðina. Náist ekki samkomulag um upphæð áframhaldandi leigu eða kaupverðs, verður að tryggja aðkomu gerðardóms eða mats, er skeri úr um ágreininginn, enda taki slíkur úrskurður að sjálfsögu mið af gildandi markaðsverði á hverjum tíma. Flóknara er það nú ekki. Nú sprengja fáeinir nýríkir kaupendur lóðaverð upp fyrir allt velsæmi. Erfitt er fyrir Jón og Gunnu að standast þeim snúning. Nauðsynlegt er því að Alþingi komi hér til og skakki leikinn. Við sem skrifum þennan pistil eigum lítið sumarhús í Skorradal, og eigum því hagsmuna að gæta.

Eignaréttur hinna snauðu virtur

Við störfum um stundarsakir í Afríku sunnan Sahara, í einu fátækasta landi veraldar. Þar eiga menn lítið, og þorri þjóðarinnar býr í leirkofum með þaki úr stráum við aðstæður sem hvorki Jón og Gunna í Kópavoginum né nýríkir fjárfestar og eigendur sumarhúsajarða byðu hrossum sínum. Þar er eignaréttur á kofunum hins vegar virtur, jafnvel þó ekki sé hann skráður í lögformlegar bækur. Handsal gildir. Því verður seint trúað að ein ríkasta þjóð veraldar, afkomendur norrænna víkinga, söguþjóðin, þjóðin sem á Grágás, Jónsbók og elsta löggjafarþing veraldar, ætli sér ekki að fara eins með eignaréttinn og gert er í landinu þar sem við dveljum nú. Eignaréttur verður að vera allra.

Höfundar starfa nú að heilbrigðismálum í Malawi á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.