Árni Bjarnason
Árni Bjarnason
Árni Bjarnason skrifar um akureyrskan sjávarútveg: "Hversu lengi geta menn haldið því fram án þess að roðna að um hagræðingu í greininni sé að ræða?"

ÞAÐ er þyngra en tárum taki hvernig komið er fyrir akureyrskum sjávarútvegi. Útgerðarfyrirtæki, sem um langan aldur var tryggur vinnuveitandi 150–160 sjómanna sem búsettir voru á Akureyri auk fjölmargra lykilstarfsmanna á skrifstofu sem skiluðu drjúgum tekjum til bæjarfélagsins, er horfið á braut úr bænum. Í einu vetfangi er áratuga uppbyggingu og lífsstarfi margra mætra manna kastað fyrir róða. Starfsumhverfið hjá fyrirtækinu var um árabil öruggt og Útgerðarfélag Akureyringa um langan aldur einn öflugasti hornsteinn bæjarfélagsins. Á þeim skamma tíma sem liðinn er frá þeim örlagadegi, í atvinnusögu bæjarins, er Guðmundur Kristjánsson keypti Brim, hefur hann "afrekað" að reka eða flæma á brott allar þær áhafnir sem voru starfandi hjá fyrirtækinu þegar hann keypti það, að einni áhöfn undanskilinni. Þeirri áhöfn getur vart fundist sérlega fast land undir fótum hvað varðar starfsöryggi sem síðustu fulltrúar þeirra sjómanna sem störfuðu hjá fyrirtækinu þegar "sláturtíðin" hófst. Breytingar á skráningu skipa útgerðarinnar frá Akureyri, skipa, sem borið hafa nöfn sem samofin eru atvinnusögu höfuðstaðar Norðurlands í áratugi og gjörsamlega haldlaus uppgefin ástæða brottflutningsins, eru að mínu mati móðgun við alla sæmilega réttsýna menn og í raun endanleg staðfesting á ömurlegum afleiðingum meingallaðra laga um stjórnkerfi fiskveiða. Fyrir nokkru leit ég inn á heimasíðu Brims HF og þar bar að líta eftirfarandi áherslur stjórnenda fyrirtækisins um velferð, starfsgleði og starfsöryggi starfsmanna en þar stóð meðal annars:

Að starfsfólk njóti virðingar í samskiptum og jafnræðis í hvívetna óháð starfi, kynferði, uppruna eða viðhorfum.

Að starfsfólk búi við hvetjandi, öruggar og eftirsóknarverðar starfsaðstæður. Eins og sjá má eru þetta lofsverð markmið og til fyrirmyndar þótt ég hafi reyndar lúmskan grun um að þau eigi uppruna sinn að rekja til fyrrverandi stjórnenda og eigenda fyrirtækisins. Raunveruleikinn getur í öllu falli ekki verið öllu meira á skjön við yfirlýst markmið hér að ofan. Toppnum var náð þegar forstjóri fyrirtækisins birtist á forsíðum blaðanna í tilefni af því að útdeilt var kaupauka til starfsfólks upp á rúmar 40 milljónir nú um áramótin. Tók hann þar við fallegum blómvendi úr höndum þakklátra verkalýðsforingja. Þessi upphæð gæti í besta falli numið 5–10% af þeim tekjum Brims sem inn komu á síðasta kvótaári vegna útleigu á veiðiheimildum, en fyrirtækið á trúlega Íslandsmet á því sviði þótt fleiri geri hugsanlega tilkall til "titilsins". Stór þáttur í rekstrinum felst í því að leigja frá sér veiðiheimildir upp á hundruð milljóna eða réttara sagt milljarða sé til lengri tíma litið. Stjórnendur Brims hafa flestum öðrum fremur nýtt sér ótæpilega öfugsnúna lagaheimild sem hefur það í för með sér að hafðar eru af starfsfólki fyrirtækisins gífurlegar tekjur með því að svipta sjómennina þeim möguleika að veiða þann fisk sem skip þeirra hafði heimildir til að veiða og fiskvinnslufólkið vinnunni sem skapast hefði ef aflanum hefði verið landað til vinnslunnar í stað þess að leigja hann til annarra aðila sem í sumum tilvikum hafa í raun og veru engar forsendur til að leigja til sín aflaheimildir. "Ó"lög sem fela í sér fyrirkomulag sem inniheldur með beinum hætti þær brotalamir sem við blasa öllum þeim sem til þekkja eru óásættanleg og við slíkt verður ekki við unað öllu lengur að óbreyttu. Hversu lengi geta menn haldið því fram án þess að roðna að um hagræðingu í greininni sé að ræða? Merking þessa margtuggna og misnotaða hugtaks fer að verða miklum vafa undirorpið. Hægt væri að hafa mörg orð um hver beri ábyrgð þessu sorgarferli, sem ég vil kalla svo. Þar má kalla til sögunnar ýmsa aðila að þáverandi forráðamönnum bæjarins undanskildum. Þeir trúðu því miður á sínum tíma sannfærandi fagurgala og lygum upphaflegra kaupenda og töldu sig vera að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á Akureyri. Aðrir aðilar sem að málinu hafa komið í framhaldinu, eiga það flestir sameiginlegt, að þar hefur nakin gróðahyggjan setið í öndvegi án nokkurs tillits til framtíðahagsmuna míns kæra heimabæjar, Akureyrar. Taki þeir til sín sem það eiga og hafið skömm fyrir.

Höfundur er forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags skipstjórnarmanna.