Bagdad. AFP. | UM 600 vígamenn og 16 hátt settir liðsmenn Mehdi-hersins, 60.000 manna hers sjíta klerksins Moqtada al-Sadr, hafa verið teknir höndum að undanförnu af öryggissveitum í Írak, að því er talsmenn Bandaríkjahers skýrðu frá í gær.

Bagdad. AFP. | UM 600 vígamenn og 16 hátt settir liðsmenn Mehdi-hersins, 60.000 manna hers sjíta klerksins Moqtada al-Sadr, hafa verið teknir höndum að undanförnu af öryggissveitum í Írak, að því er talsmenn Bandaríkjahers skýrðu frá í gær. Mennirnir voru teknir höndum í 52 aðgerðum á 45 dögum en öryggissveitirnar hafa jafnframt handtekið tugi öfgamanna úr röðum súnníta. Frekari aðgerða er að vænta í höfuðborginni Bagdad, þar sem þær undirbúa ásamt Bandaríkjaher mikla sókn gegn vígamönnum.

Greint var frá fjöldahandtökunum daginn eftir að á annað hundrað manns létust í árásum í borginni og í gær varaði erindreki Sameinuðu þjóðanna við því, að landið væri að sökkva í "hyldýpi" átaka trúarhópa.

Handtökurnar eru taldar boða frekari aðgerðir en Nuri al-Maliki forsætisráðherra hefur verið sakaður um að beita sér ekki gegn vígamönnum sjíta. Á sunnudag skýrðu hins vegar tveir samstarfsmenn hans frá því að hann hefði ákveðið að herða aðgerðir gegn Mehdi-hernum eftir að hafa sannfærst um réttmæti leyniþjónustuupplýsinga um að dauðasveitir lékju þar lausum hala.