Aðalsteinn Árni Baldursson
Aðalsteinn Árni Baldursson
Aðalsteinn Á. Baldursson skrifar um álver í landi Bakka við Húsavík: "Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé lífsspursmál fyrir Norðlendinga að álver rísi með tilheyrandi eflingu byggðar og atvinnulífs."

TIL skoðunar er að reisa 250 þúsund tonna álver í landi Bakka við Húsavík. Þar vega þungt þættir eins og orkuvinnsla og orkuflutningur, samstaða heimamanna, áhugi fjárfesta, umhverfismál, hafnaraðstaða og landrými fyrir stóriðju. Ljóst er að allflestir Norðlendingar fylgjast grannt með þróun mála, enda um mikið hagsmunamál að ræða. Öllum athugunum varðandi hagkvæmni þess að reisa álverið miðar vel áfram og enn hefur ekkert komið fram sem dregur úr líkum þess að álverið hefji starfsemi á næsta áratug. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé lífsspursmál fyrir Norðlendinga að álver rísi með tilheyrandi eflingu byggðar og atvinnulífs. Slík framkvæmd er einnig best fallin til að draga úr þeirri neikvæðu búsetuþróun sem verið hefur víða á Norðurlandi.

Höfuðborgarsvæðið styrkist á kostnað landsbyggðar

Á undanförnum árum hefur þenslan á suðvesturhorninu sogað til sín bæði fólk og fyrirtæki með tilheyrandi veikingu byggðar á landsbyggðinni. Framleiðslufyrirtæki fjarri Reykjavík hafa gefist upp vegna hás flutningskostnaðar og í flestum tilvikum hefur starfsemin verið flutt á höfuðborgarsvæðið. Þá er það nöturleg staðreynd að Reykjavík skuli vera orðin kvótahæsta byggðarlag á Íslandi eftir síðustu fréttir um flutning Brims á kvóta frá Akureyri til Reykjavíkur. Sjávarplássin á landsbyggðinni eru í dag aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þegar sjávarfangið var hrygglengjan í atvinnustarfsemi viðkomandi sveitarfélaga. Nú er kvótinn farinn og það til Reykjavíkur! Þökk sé kvótakerfinu sem lagt hefur fjölda byggðarlaga í rúst. Þetta er veruleikinn sem við búum við í dag sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það er sárt að horfa eftir fólki og störfum í tuga ef ekki hundraða vís með tilheyrandi verðfalli á fasteignum. Þess vegna ber að fagna áhuga Alcoa á að byggja álver í landi Bakka því skort hefur verulega á að fyrirtæki væru tilbúin að fjárfesta utan höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur bankakerfið ekki heldur ýtt undir fjárfestingar fyrirtækja á landsbyggðinni, það er utan einstakra svæða. Reyndar má líka velta því fyrir sér hvort byggðastefna stjórnvalda hafi ekki brugðist þegar flestar skýrslur sýna veikingu byggðar á síðasta áratug utan höfuðborgarsvæðisins, það er sérstaklega utan þeirra svæða þar sem álvera nýtur ekki við. Því glögglega má sjá í nýrri skýrslu Byggðastofnunnar um þróun hagvaxtar á Íslandi á tímabilinu 1998–2004 að hagvöxtur utan höfuðborgarsvæðisins hefur aukist mest á Vesturlandi og Austurlandi sem skýrsluhöfundur rekur að mestu til uppbyggingar stóriðju á svæðunum. Utan þessara svæða ríkir ákveðin stöðnun. Því er ljóst að starfsemi álvers við Húsavík myndi gjörbreyta öllu fyrir Norðlendinga með tilheyrandi uppbyggingu atvinnulífs á austanverðu Norðurlandi, það er í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Því er mikilvægt að íbúar þessara héraða taki höndum saman í baráttu fyrir álveri í landi Bakka þar sem sameiginlegir hagsmunir eru augljósir. Þá er vert að hafa í huga að álver er ekki bara álver eins og stundum má ætla af málflutningi þeirra sem eru á móti uppbyggingu álvera og benda látlaust á eitthvað annað sem þeir eiga erfitt með að skilgreina frekar, enda oftast innihaldslaust hjal. Uppbygging álvera kallar á miklar tekjur í formi skatta og aðstöðugjalda auk þess að styrkja atvinnulífið sem fyrir er. Auknar tekjur sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum og fjölgun íbúa gerðu sveitarfélögunum einnig betur kleift að standa undir þjónustu við borgarana og um leið að sækja fram á því sviði. Þá eru tekjur þeirra sem starfa í álverum almennt betri en gerist við sambærileg störf á almenna vinnumarkaðinum. Slík störf eru verðmæt og ryðja láglaunastörfum í burtu.

Kosið til Alþingis

Í vor verða alþingiskosningar og þá velja kjósendur 63 þingmenn til setu á Alþingi næstu fjögur árin. Kjósendur hafa val um hvaða fulltrúar setjast á þing og því skiptir hvert atkvæði miklu máli. Í kosningunum í vor er mikilvægt að kjósendur á Norðurlandi velji þá þingmenn til setu á Alþingi sem styðja uppbyggingu orkufreks iðnaðar, svo sem áliðnaðar, á Norðurlandi. Gefum þeim frí í næstu kosningum sem ekki vilja vinna við hlið okkar að uppbyggingu atvinnulífs á Norðurlandi. Það er nóg komið af yfirlýsingum um "eitthvað annað", slíkur málflutningur er gjaldþrota og innihaldslaus. Látum verkin heldur tala og nýtum krafta þeirra sem vilja byggja upp öflugt atvinnulíf okkur til heilla. Álver á Norðurland!

Höfundur er formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis.