Stöðumynd 1
Stöðumynd 1
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
12.–28. janúar 2007

SPENNAN eykst með hverjum deginum sem nær líður að lokum Corus-ofurmótsins sem fer fram þessa dagana í strandbænum Wijk aan Zee í Hollandi. Azerski stórmeistarinn Teimour Radjabov (2.729) vann hvern sigurinn á fætur öðrum og að loknum fimm umferðum hafði hann fjóra og hálfan vinning á meðan fyrrverandi heimsmeistararnir Veselin Topalov (2.783) og Viswanathan Anand (2.779) komu næstir með 3½ vinning. Í sjöttu umferð gerði Radjabov jafntefli við fyrrverandi FIDE-heimsmeistarann Ruslan Ponomarjov (2.723) á meðan Anand laut í lægra haldi með svörtu gegn heimsmeistaranum Vladimir Kramnik (2.766) og Topalov þurfti að sætta sig við skiptan hlut gegn tékkneska undrabarninu David Navara (2.719).

Búlgarinn Topalov er þekktur fyrir sína frábæru endaspretti á skákmótum og tefldi við Ponomarjov í sjöundu umferð. Keppnisharka Topalovs er mikil enda tekur hann að þessu leyti til skákstíl Fischers til fyrirmyndar. Sá búlgarski hafði svart í skákinni og tefldi djarft til sigurs og þó að einstökum sinnum hafi hallað á hann í hinum miklu flækjum sem upp komu stóð hann uppi sem sigurvegari. Indverjinn Anand hafði með hvítu unnið tafl gegn Radjabov en ónákvæmni hans gerði að verkum að forystusauður mótsins slapp með skrekkinn og jafntefli varð niðurstaðan. Kramnik teflir ákaflega traust og gerði einu sinni sem oftar jafntefli með svörtu í litlausri skák gegn Armenanum Levon Aronjan (2.744). Sá eitilharði Armeni gerði sér lítið fyrir í áttundu umferð og skellti Azeranum Radjabov á meðan eftirfarandi gerðist í skák Veselins Topalovs og Viswanathan Anands:

Hvítt: Veselin Topalov (2.783)

Svart: Viswanathan Anand (2.779)

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 b6 4. g3 Ba6 5. b3 Bb4+ 6. Bd2 Be7 7. Bg2 c6 8. Bc3 d5 9. Re5 Rfd7 10. Rxd7 Rxd7 11. Rd2 0–0 12. 0–0 Rf6 13. e4 dxe4 14. a4

Í stað þess að losa um stöðuna með því að undirbúa eða leika c6-c5 fórnar svartur manni í því skyni.

14....Rd5 15. cxd5 Bxf1 16. d6 Bxg2 17. dxe7 Dxe7 18. Kxg2 f5

Enn sem komið er hefur ekkert nýtt gerst frá áður þekktum skákum þar sem staðan kom upp nýverið í skák milli Indverjans Sasikirans og Rússans Motylevs. Nú er röðin komin að Topalov að galdra fram nýjung sem setur svartan í vanda.

Stöðumynd 1

19. b4!

Snjall leikur sem reynir að halda taflinu lokuðu og þannig koma í veg fyrir svörtu hrókarnir verði virkir. Þó að hrókur og tvö peð fyrir tvo létta menn eigi að jafnaði að vera fullnægjandi til að halda jafnvæginu þá hefur hvítur of sterk tök á miðborðinu til að svartur geti varið stöðu sína auðveldlega.

19....Dd7 20. De2 Dd5 21. f3 exf3+ 22. Rxf3 h6 23. He1 Hfe8 24. Dc2 Had8 25. Bd2 Dd7 26. Kf2 Hc8 27. Bf4 Dd5 28. He5 Dd7 29. h4 Ha8 30. Bd2!

Enn á ný kemur hvítur í veg fyrir að svartur geti opnað línur á borð við peðaframrás a7-a5.

30...Hac8 31. Dc4 Kh7 32. Bc3 Dd6 33. Re1 b5?! 34. Dc5! Dd8 35. Rd3 og hér kaus svartur að gefast upp.

Stöðumynd 2

Satt best að segja var þessi uppgjöf Indverjans furðuleg þó að staða hans sé sennilega töpuð. Enn var hægt að berjast og sagði Topalov eftir skákina að hann sjálfur hefði aldrei gefist upp. Þessi úrslit höfðu í för með sér að Topalov er kominn í efsta sætið með sex vinninga af átta mögulegum og Radjabov er í öðru sæti með 5½ vinning. Aronjan, Karjakin og Kramnik koma næstir með fimm vinninga. Lokaumferðirnar fimm á mótinu verða án efa hörkuspennandi og hægt er að fylgjast með þeim í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins, www.coruschess.com.

Sigurbjörn einn efstur á Skeljungsmótinu – Skákþingi Reykjavíkur

Þegar sjö umferðum af níu er lokið á Skeljungsmótinu – Skákþingi Reykjavíkur hefur Hafnfirðingurinn Sigurbjörn Björnsson (2.297) forystuna á mótinu með sex vinninga. Í sjöundu umferð lagði hann Þorvarð F. Ólafsson (2.151) að velli á meðan alþjóðlegu meistararnir Bragi Þorfinnsson (2.384) og Sævar Bjarnason (2.230) gerðu jafntefli í innbyrðis viðureign. Þessi og önnur úrslit þýddu að Kristján Eðvarðsson (2.240) og stórmeistarinn Henrik Danielsen (2.506) komust í annað sætið með 5½ vinning ásamt tveim áðurnefndum alþjóðlegum meisturum. Lokaumferðir mótsins fara fram næstkomandi miðvikudag og föstudag í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12. Öllum áhorfendum er velkomið að fylgjast með áhugaverðum skákum sem hefjast kl. 19.30 báða dagana.

Helgi Áss Grétarsson (daggi@internet.is)