Vatnajökulsþjóðgarður Þjóðgarðurinn við Vatnajökul verður líklega yfir 13.400 km² að flatarmáli, eða um 13% af yfirborði Íslands.
Vatnajökulsþjóðgarður Þjóðgarðurinn við Vatnajökul verður líklega yfir 13.400 km² að flatarmáli, eða um 13% af yfirborði Íslands. — Morgunblaðið/RAX
JÓNÍNA Bjartmarz umhverfisráðherra flutti í gær frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð þar sem Vatnajökull og helstu áhrifasvæði jökulsins eru friðlýst.

JÓNÍNA Bjartmarz umhverfisráðherra flutti í gær frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð þar sem Vatnajökull og helstu áhrifasvæði jökulsins eru friðlýst. Markmiðið með lögunum er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu.

Vatnajökulsþjóðgarður verður ríkisstofnun, Umhverfisstofnun fer með yfirstjórn mála en stjórn þjóðgarðsins sér hins vegar um málefni hans í samráði við ákveðin svæðaráð. "Þetta er heilmikið byggðamál fyrir þau sveitarfélög sem eiga land að þjóðgarðinum," sagði Jónína.

Mörk þjóðgarðsins ráðast endanlega af samningum við landeigendur en eitthvað af því landi sem gert er ráð fyrir að tilheyri þjóðgarðinum er í einkaeign. Náist það samkomulag verður þjóðgarðurinn 13.400 km², eða um 13% af yfirborði Íslands, og nær til átta sveitarfélaga.

Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi að frumvarpið væri aftengt bæði náttúrulögum og umhverfisstofnun og spurði hvort það væri nauðsynlegt. "Svo virðist líka sem yfirstjórn þjóðgarðsins eigi að koma í stað Umhverfisstofnunar."

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi m.a. að hugsanlega kæmi til fjárstuðningur frá Alcoa og Landsvirkjun sem hafa lýst áhuga á að koma að þjóðgarðinum. Jónína sagði að enn sem komið er væri aðeins gert ráð fyrir fjármagni frá ríkinu þótt ekki væri útilokað að aðrir aðilar kæmu að frekari uppbyggingu garðsins síðar.

Frumvarpið verður í framhaldinu sent til umhverfisnefndar Alþingis.