Segolene Royal
Segolene Royal
París. AFP.

París. AFP. | Segolene Royal, fulltrúi sósíalista í forsetakosningunum í Frakklandi í vor, varð á í messunni að loknum fundi með Andre Boisclair, leiðtoga flokks sjálfsstæðissinna í Quebec, í París á mánudag, þegar hún sagðist styðja "sjálfstæði" og "frelsi" héraðsins.

Íhaldsmaðurinn Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, brást ókvæða við tillögunni. "Reynslan sýnir að það er einkar óviðeigandi fyrir erlendan leiðtoga að blanda sér í innanríkismál annars lands."

Meirihluti íbúa Quebec, þar sem býr vel á áttundu milljón manna, talar frönsku og eru samskipti þeirra við aðra Kanadamenn afar viðkvæmt málefni í stjórnmálum landsins.

Royal baðst afsökunar á ummælunum í gær og sagði skoðanir sínar ekki hafa hvikað frá þeirri gömlu frönsku hefð að sýna hvorki "afskiptaleysi" né "afskiptasemi" gagnvart málefnum landsins.

Áður skömmuð fyrir mismæli

Þetta ekki í fyrsta sinn að Royal vakti reiði á erlendri grund með ummælum um málefni annarra ríkja.

Þannig eru aðeins nokkrar vikur liðnar frá því hún var sökuð um að láta óátalin þau orð þingmanns Hizbollah-samtakanna, að margt væri sameiginlegt með fyrrum hernámi Ísraela í Líbanon og veru nasista í París í síðari heimsstyrjöldinni.

Þá sagði hún Frakka geta lært margt af dómskerfi Kínverja, sem hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir fjöldaaftökur og réttarhöld yfir andstæðingum stjórnarinnar, fyrir utan ofsóknir gegn minnihlutahópum.