Fær Stefán Höskuldsson og Elizaveta Kopelman.
Fær Stefán Höskuldsson og Elizaveta Kopelman.
Tónlist eftir C. P .E. Bach, Fauré, Debussy og Prókofíev í flutningi Stefáns Höskuldssonar flautuleikara og Elizavetu Kopelman píanóleikara. Föstudagur 19. janúar.

MAÐUR er nefndur Stefán Höskuldsson. Hann er flautuleikari og ekki bara það: Hann er annar flautuleikari Metropolitan-óperuhljómsveitarinnar í New York. Það eru engir aular sem eru ráðnir í slíkar stöður, og var það auðheyrt strax á fyrstu tónum upphafsatriðis tónleika í Salnum í Kópavogi á föstudagskvöldið. Það var einleikssónatan fræga í a-moll eftir Carl Philip Emanuel Bach og spilaði Stefán hana undurvel. Hver einasti tónn var svo hreinn og vel mótaður að unaður var á að hlýða. Þetta er dramatískt verk sem krefst allskonar litbrigða í túlkun og var flutningur Stefáns göldrum líkastur, fullur af blæbrigðum og skáldskap.

Í næsta atriði dagskrárinnar, sónötu í A-dúr eftir Fauré, kom píanóleikarinn Elizaveta Kopelman til liðs við Stefán. Kopelman sannaði það nýverið að hún er frábær píanóleikari, en þá flutti hún allar prelúdíur og fúgur Sjostakóvitsj í tónleikum í Salnum með glæsibrag. Ekki síðri var leikur hennar nú, sem var í senn silkimjúkur og nákvæmur. Sampil hennar og Stefáns var líka fullkomið og var útkoman einstaklega áhrifamikil.

Forleikur að Síðdegi skógarpúkans eftir Debussy var sömuleiðis dásamlega seiðandi í meðförum hljóðfæraleikaranna og sónatan op. 94 eftir Prókofíev var stórfengleg, gædd fítonskrafti, án þess að sjarminn, sem einkennir innhverfari þætti verksins, glataðist.

Stefán hefur ekki verið sérlega áberandi í tónlistarlífinu hérlendis, en vonandi á það eftir að breytast. Íslendingur sem spilar svona vel ber beinlínis skylda til að halda tónleika hér á landi með reglulegu millibili! Jafnvel þótt hann sé í fullu starfi á erlendri grund.

Jónas Sen