Boxarinn Hrafnhildur tekur vel á því í herþjálfuninni 3–4 sinnum í viku.
Boxarinn Hrafnhildur tekur vel á því í herþjálfuninni 3–4 sinnum í viku. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tíminn byrjar hálfsjö og það þýðir að ég er komin á staðinn um tuttugu mínútur yfir sex," segir Hrafnhildur Arnardóttir. Tíminn sem hún nefnir er æfingatími í Boot Camp, eða herþjálfun, sem hún fer í þrisvar í viku. Auk þess lyftir hún aðra daga.

Tíminn byrjar hálfsjö og það þýðir að ég er komin á staðinn um tuttugu mínútur yfir sex," segir Hrafnhildur Arnardóttir. Tíminn sem hún nefnir er æfingatími í Boot Camp, eða herþjálfun, sem hún fer í þrisvar í viku. Auk þess lyftir hún aðra daga. "Þetta er mikil áreynsla og vel tekið á því," lýsir hún herþjálfuninni, "og gengur mikið út á að auka þrek, rosalega mikið um armbeygjur," segir hún og hlær við. "Það er líka mikið hlaupið og ýmsar æfingar sem maður er ekki vanur annars staðar frá. Mottóið er eiginlega að setja aldrei klukkuna á hérna ... " nú hikar hún og hlær, "ég man ekki einu sinni hvað það heitir, ég nota það aldrei," segir hún en tekst að lokum að rifja upp að hún er að tala um "snúsið" á klukkunni. Mottóið er sem sagt að fara alltaf á fætur um leið og klukkan hringir, aldrei að kúra aðeins lengur.

Á fjórum fótum með rassinn upp í loft

Annan hvorn laugardag er tveggja tíma útiæfing í herþjálfuninni og þá er eins gott að hafa eitthvað í fataskápnum sem má rifna og óhreinkast án eftirsjár. "Það er farið í öllum veðrum. Við hlaupum t.d. í snjónum, ótroðnum, og gerum armbeygjur. Stundum löbbum við eins og björninn," segir hún og sýnir lauslega taktana í bjarnargöngunni sem eru þannig að skriðið er á fjórum fótum með rassinn upp í loft. "Við skríðum líka á maganum og löbbum á tánum. Þetta eru frábærar æfingar," segir hún með áherslu og að þær taki verulega á.

Viðbúið er að manneskja sem stundar svona æfingar reglulega sé í góðu formi og Hrafnhildur tekur jú undir það. "Ég get hlaupið nokkuð langt," segir hún en viðurkennir að sprettir séu henni ennþá erfiðir. Þó stendur það til bóta því herþjálfunin gengur líka mikið út á að taka spretti.

Hrafnhildur hóf æfingar í Boot Camp í maí síðastliðnum eftir ábendingu frá vini. "Ég fór bara daginn eftir með vinkonu minni og ég ætla sko aldrei að hætta," segir hún hlæjandi. "Þetta er orðinn lífsstíll." Þá daga sem hún lyftir fer hún líka fyrir vinnu á morgnana í World Class. Hún þjálfar þá til skiptis efri og neðri hluta líkamans og telur að reglulegar æfingar séu skrokknum lífsnauðsynlegar.

Hefur þyngst um 23 kíló

Ólíkt kannski flestum var þörf fyrir að léttast ekki hvatinn að því að Hrafnhildur hóf þessar stífu æfingar. Hún þurfti þvert á móti að þyngja sig og hefur náð þeim árangri að þyngjast um 23 kíló á einu ári. Hún segist því spá í mataræðið líka ... "ég passa upp á það af því að ég er að byggja upp vöðva og ég þurfti markvisst að bæta á mig. Ég var hræðilega grönn en er á góðu róli núna og þarf bara að halda þessu svona," segir hún og hlær.

Æfingarnar hafa styrkt Hrafnhildi á fleiri vegu en líkamlega. "Þetta byggir fólk mjög mikið upp, gefur meiri útgeislun, vil ég meina, og gefur á allan hátt mikið." Auk æfinganna sem hér hafa verið raktar stundar hún skíði á vetrum og fjallgöngur á sumrum.

Hrafnhildur er hársnyrtir, rekur hárgreiðslustofuna Greiðuna við Háaleitisbraut. Eins og allir vita snýst starf hársnyrtis að mestu leyti um að standa allan daginn, með örfáum undantekningum þegar sest er á háan koll til að komast betur að hári viðskiptavinanna. Þessi vinnuaðstaða aftrar Hrafnhildi ekki frá því að vera á háum hælum meira og minna í vinnunni langflesta daga. "Mér finnst þetta betri staða, hentar mér í það minnsta betur," segir hún um hælana. "Ég hef líka heyrt að þetta sé betra fyrir hnén," bætir hún við og hlær.

Hress allan tímann

Dagleg dagskrá Hrafnhildar er þétt skipuð. Á fætur klukkan sex og á æfingu. Eftir það fer hún heim og kemur krökkunum í skólann áður en hún heldur til vinnu. Þangað er hún mætt vel fyrir níu og vinnudagurinn er til sex. Þegar hún er búin að gefa krökkunum kvöldmat segir hún að sér finnist notalegt að setjast um stund og gleyma sér við sjónvarpið áður en hún leggst til hvílu, vanalega um ellefuleytið. "Ég er sko alveg hress allan tímann," segir hún aðspurð. "Dett ekkert út af við sjónvarpið," klykkir hún út með og hlær innilega.