Knattspyrnan heillar Eggert Magnússon, eigandi West Ham, er nefndur ásamt Roman Abramovich og fleiri auðugum félagseigendum í Englandi.
Knattspyrnan heillar Eggert Magnússon, eigandi West Ham, er nefndur ásamt Roman Abramovich og fleiri auðugum félagseigendum í Englandi.
EGGERTI Magnússyni, stjórnarformanni enska úrvalsdeildarliðsins West Ham er í sunnudagsumfjöllun breska blaðsins Herald Tribune skipað á bekk með eigendum annarra félaga í ensku knattspyrnunni sem eiga það sameiginlegt að fjárfesta í félögum til að hafa...

EGGERTI Magnússyni, stjórnarformanni enska úrvalsdeildarliðsins West Ham er í sunnudagsumfjöllun breska blaðsins Herald Tribune skipað á bekk með eigendum annarra félaga í ensku knattspyrnunni sem eiga það sameiginlegt að fjárfesta í félögum til að hafa eitthvað upp úr krafsinu.

Þeir félagar Eggert og Björgólfur Guðmundsson eru nefndir til sögunnar í umfjöllun blaðsins um sístækkandi hóp fjársýslumanna sem sækjast eftir fjárfestingum í ensku úrvalsdeildinni, en engin deild í heiminum kemst með tærnar þar sem hún hefur hælana hvað varðar árstekjur. Þær námu 2 milljörðum punda í fyrra, eða sem samsvarar 180 milljörðum króna.

Hin nýja kynslóð eigenda knattspyrnufélaga sé nú ekki einvörðungu að leita eftir sætum í forstjórastúkunni á vellinum þegar mikilvægir leikir fara fram, heldur hagnaði af fjárfestingunum.

United á 800 milljónir punda

Kaupverð West Ham var 85 milljónir punda og meðal annarra knattspyrnufélaga sem erlendir fjárfestar hafa keypt fyrir töluverða fjármuni er Aston Villa sem selt var Randy Lerner á 63 milljónir punda, Porstmouth, sem drjúgur hluti var seldur Alexander Gaydamak á 15 milljónir punda og Man. Udt. sem selt var Malcolm Glazer á 800 milljónir punda árið 2005.

Til viðbótar þessum nýju húsbændum má nefna Roman Abramovich sem keypti Chelsea fyrir 140 milljónir punda árið 2003 og Muhammed al-Fayed sem keypti Fulham á 30 milljónir punda fyrir áratug. Þá er ónefndur einn eigandinn, Robert Earl sem keypti nær fjórðungshlut í Everton fyrir ótilgreinda fjárhæð í fyrra. Þá eru söluviðræður vegna Liverpool við fjárfesta í Dubai á lokasprettinum.

Tekið er fram að laun leikmanna hafi hækkað um 20% á ári undanfarinn áratug. Voru laun leikmanna í ensku úrvalsdeildinni alls 785 milljónir punda tímabilið 2004–5. Dregið hafi þó úr því að félög greiði leikmönnum sínum laun yfir markaðsverði til að halda þeim innan sinna raða og það sé nokkuð sem leikmenn felli sig við.

Leiðrétting 25. janúar - The Herald Tribune

RANGLEGA var sagt í frétt Morgunblaðsins í gær að The Herald Tribune væri breskt. Þar átti auðvitað að standa að blaðið væri bandarískt, gefið út í París. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.