Haraldur Leó Hálfdánarson fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 2. október 1919. Hann andaðist á heimili sínu 10. janúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Árbæjarkirkju 22. janúar.

Af hverju kemur lífið manni alltaf á óvart? Jafnvel þegar maður veit að einhvern tímann tekur lífið enda. Miðvikudaginn 10. janúar kvaddi afi minn, Haraldur Leó, þennan heim. Þetta var maður með hjarta úr gulli og var alltaf eitthvað að bralla. Síðustu ár fór hann að sækja föndurtíma/smíðatíma í Skógarbæ og var eins og verkfærin lékju í höndunum á honum, það voru rosalega flottir hlutir sem komu frá honum. Afi var frekar rólegur maður. Það var aldrei neinn asi á honum. Síðustu dagana sína var afi mjög hress, þrátt fyrir að síðustu ár hafi hann ekki verið við góða heilsu. Hann var farinn að heyra illa og hafði mjög litla sjón. Þrátt fyrir að afi hafi oft verið alvarlega lasinn reis hann alltaf upp úr veikindum sínum. Miðvikudagurinn byrjaði sem venjulegur dagur. Í hádeginu fór ég að heimsækja mömmu í vinnuna af því ég hafði séð að hún og pabbi voru mikið að reyna ná í mig og fannst það mjög undarlegt. Þegar ég kom í vinnuna til hennar var hún að fara heim og fannst mér það undarlegt. Þá sagði hún mér að afi hefði dáið um morguninn. Það var eins og ég hefði verið slegin með blautri tusku í andlitið. Þrátt fyrir að afi hafi oft verið lasinn og mér sagt að þetta væri sennilega hans síðasta stund og ég undirbúið mig undir það brá mér samt. Við náðum í Helgu systur og fórum heim í Hábæ til ömmu. Það var frekar skrítið að koma þangað og afi sat ekki í stólnum sínum inni í stofu eða stóð upp til að taka utan um mann sínu þétta faðmlagi og það var enginn sem tók hendurnar á manni og rúllaði í þær hita eftir að hafa verið úti í kuldanum. Það var enginn sem sagði: ,,Ertu komin, litla lambið mitt, rosalega er þér kalt á fingrunum!" Þegar sest var við kaffiborðið var skrítið að sjá að afi kom ekki og settist hjá okkur til að spjalla eða fá sér kaffisopa. Já, þetta var skrítin tilfinning. Margar minningar þutu í gegnum huga manns um það þegar maður var í heimsókn hjá ömmu og afa og ég dró dótakassann alveg fram að stólnum hjá afa og var að leika mér í kringum hann og byggði spilaborgir þarna í kring. Eins þegar verið var að horfa á fréttir heima hjá þeim, þá sat maður annaðhvort við hliðina á stólnum hans eða við fætur hans. Stundum náði ég að setjast í stólinn á undan honum, þá sneri hann stólnum í hringi, þegar maður var orðinn ringlaður sneri hann bara hinn hringinn. Sumrin eru mér minnisstæð þegar amma og afi ferðuðust á rúgbrauðinu sínu (húsbílnum), þá man ég hvað ég beið alltaf spennt í sveitinni eftir að hvíta rúgbrauðið beygði niður afleggjarann í Njarðvík og amma og afi lentu í sveitinni. Við afi fengum okkur oft göngutúr í fjörunni og tíndum steina eða gengum inn með ánni og áttum góða stundir.

Síðustu heimsókn minni til afa mun ég seint gleyma. Afi opnaði dyrnar og ég hvíslaði ,,Hæ, afi, þetta er Steinunn" og lagði köldu höndina mína í lófa hans og hann þekkti mig um leið og bros hans breiddist yfir andlitið og ætlaði engan enda að taka. Hann spurði mig spjörunum úr um framtíðaráform mín og hvernig mér liði.

Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: "Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim."

(Opinberunarbókin 14:13.)

Elsku afi, ég veit að þú hefur það gott og hefur fengið hvíld frá erfiði anna lífsins og ég hlakka til að hitta þig á ný þegar við hittumst á himnum. Minningin um þig mun lifa í hjarta mínu.

Kveðja

Steinunn Þuríður.