Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is ÍSLENSKA krónan hefur styrkst umtalsvert síðasta hálfa mánuðinn eða frá 11. janúar en þá kostaði dalurinn 72,4 og evran 93,9 en nú kostar dalurinn 68,95 og evran 89,7 krónur.

Eftir Arnór Gísla Ólafsson

arnorg@mbl.is

ÍSLENSKA krónan hefur styrkst umtalsvert síðasta hálfa mánuðinn eða frá 11. janúar en þá kostaði dalurinn 72,4 og evran 93,9 en nú kostar dalurinn 68,95 og evran 89,7 krónur. Krónan hefur styrkst um 4,1% frá áramótum og um 5,8% frá 22. desember en þá lækkaði Standard & Poor's lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að stóran hluta styrkingar krónunnar að undanförnu megi rekja til mikillar útgáfu jöklabréfaútgáfu það sem af er árinu. Þegar hafa verið gefin út jöklabréf fyrir 68,5 milljarða króna á árinu sem er metútgáfa í einum mánuði og er hann þó enn ekki á enda. Mestu munaði vitaskuld um 40 milljarða útgáfu Rabobank en það var langstærsta einstaka útgáfa erlends banka á skuldabréfum í íslenskum krónum. Síðasta jöklabréfaútgáfan var raunar í gær en þá gaf austurríska fjársýslan út krónubréf fyrir tvo milljarða.

Greining Kaupþings banka telur í hálffimmfréttum að vel muni viðra til áframhaldandi útgáfu á krónubréfum á næstu þremur til sex mánuðum og að það muni styðja við gengi krónunnar til skamms tíma. Skýringin liggi einkum í áframhaldandi lágum vöxtum í Japan en trú manna á skjótri hækkun stýrivaxta þar hafi minnkað að undanförnu. Ef það gangi eftir mun það styðja við áframhaldandi útgáfu krónubréfa.

Í hnotskurn
» Í lok árs 2006 stóð gengisvísitala krónunnar í 129,2 stigum en við lokun markaða í gær var vísitalan um 123 stig, Samkvæmt því hefur íslenska krónan styrkst um nálægt 4,1% það sem af er árinu.
» Standard & Poor's lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs 22. desemeber og hefur krónan styrkst um 5,8% frá þeim degi.