30. september 1993 | Viðskiptablað | 636 orð

Viðskipti Ný lög um neytendalán auka upplýsingaskyldu Árleg hlutfallstala

Viðskipti Ný lög um neytendalán auka upplýsingaskyldu Árleg hlutfallstala kostnaðar vefst fyrir fólki ÁRLEG hlutfallstala kostnaðar er helsta nýjungin í nýjum lögum um neytendalán sem taka gildi á morgun, 1. október.

Viðskipti Ný lög um neytendalán auka upplýsingaskyldu Árleg hlutfallstala kostnaðar vefst fyrir fólki

ÁRLEG hlutfallstala kostnaðar er helsta nýjungin í nýjum lögum um neytendalán sem taka gildi á morgun, 1. október. Lögin miðað að því að neytandi hafi alltaf upplýsingar um samanlagðan kostnað vegna láns og geti á auðveldan hátt gert samanburð á sambærilegum grundvelli milli mismunandi lánstilboða. Á fjölmennum morgunverðarfundi Verslunarráðs Íslands í gær undir yfirskriftinni Lög um neytendalán, auknar kvaðir eða sjálfsögð upplýsingagjöf?, kom fram að útreikningur á hlutfallstölunni vefst fyrir mörgum auk þess sem fæstir virtust hafa gert sér almennilega grein fyrir því að komið væri að gildistöku laganna, enda hefur lítil kynning farið fram á þeim og fylgjandi breytingum. Með árlegri hlutfallstölu kostnaðar er átt við heildarlántökukostnað sem hlutfall af höfuðstól lánsins.

Lögin um neytendalán eru upphaflega fylgifiskur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þegar frumvarpið um lánin var lagt fram var gert ráð fyrir því að gildistaka laganna myndi fylgja gildistöku EES samningsins. Í meðförum Alþingis var þessu breytt þar sem þingmenn töldu rétt að setja þessi lög hvort sem EES samningurinn yrði að veruleika eða ekki. "Þetta hefur kannski valdið þeim misskilningi hjá einhverjum að neytendalögin myndu taka gildi um leið og samningurinn um EES en hér er rétt að taka fram að svo er ekki," sagði Jónas Fr. Jónsson, lögfræðingur Verslunarráðs, í ávarpi sínu á morgunverðarfundinum.

Jónas rakti helstu breytingar sem lögin um neytendalán munu hafa í för með sér. Hann sagði mestu nýjungina án efa vera útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar eftir ákveðinni stærðfræðiformúlu. "Með þessu er ætlunin að gefa lántakendum kost á að meta kostnað sem fylgir viðkomandi láni og bera saman mismunandi lánaform," sagði Jónas. "Lögin fela í sér aukna upplýsingagjöf af hendi lánveitenda. Mikill hluti þessara upplýsinga er þegar veittur, en er ekki lögbundinn."

Jónas sagði ennfremur að með nýju lögunum yrði markaður fyrir neytendamál gegnsærri og samkeppni ykist. Slíkt hefði verið markmið þeirra sem settu lögin.

"Langflest lán falla undir skilgreiningu neytendalána"

Samkvæmt lögunum eru neytendalán skilgreind sem lán á bilinu 15.000 til 1.500.000 til lengri tíma en þriggja mánaða sem bera vexti og kostnað. Pétur Steingrímsson, forstjóri Japis hf. sagði á fundinum að samkvæmt þessari skilgreiningu féllu langflest þeirra lána sem fyrirtæki í verslun og þjónustu veittu undir neytendalánin. "Við þurfum að hafa í huga að tilgreina í auglýsingum og tilboðum hjá okkur á starfsstöð möguleika greiðslufyrirkomulags með útskýringum um vexti, kostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þetta getum við gert með tilbúnum dæmum. Einnig þarf að tilkynna staðgreiðsluverð þannig að lántakandi fari ekki í grafgötur um þann kostnað sem hlýst af láninu. Við þurfum hins vegar ekki að setja allar þessar upplýsingar inn í fjölmiðlaauglýsingar þó það þekkist erlendis," sagði Pétur.

Stærðfræðiformúlan veldur heilabrotum

Sigurjón Heiðarsson, lögfræðingur hjá Samkeppnisstofnun, sagði í ávarpi sínu á fundinum að það væri orðið löngu tímabært að menn gætu á einfaldan hátt séð raunverð hlutar sem keyptur væri með afborgunarskilmálum. Samkeppnisstofnun á samkvæmt reglugerð að hafa eftirlit með því að töflur og reikniforrit sem notuð eru til að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar sýni rétta niðurstöðu. Sigurjón sagði að ekki væri enn ákveðið hvernig því eftirliti yrði við komið, en líklegt væri að stofnunin kæmi fyrst og fremst til með að fara eftir ábendingum.

"Stærðfræðiformúlan sem hlutfallstala kostnaðar er reiknuð eftir hefur valdið miklum heilabrotum," sagði Sigurjón. "Sérfræðingur hjá Seðlabanka Íslands telur að viðskiptafræðingar, tölvufræðingar og verkfræðingar skilji formúluna, en þorri verslunarfólks muni lenda í vandræðum. Hann segir auðvelt að hanna forrit með formúlunni og í þeim verslunum þar sem ekki eru tölvur má notast við töflur." Sigurjón sagði ennfremur að niðurstaðan væri því sú að þó í upphafi væri þetta ekki fýsilegt væri hægt að bjarga málunum á tiltölulega einfaldan hátt. Bankar væru nú að láta hanna fyrir sig forrit og innan Samkeppnisstofnunar væri verið að vinna í sömu málum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.