FORTÍÐARÞRÁ Myndlist Bragi Ásgeirsson Það er undarlegur gjörningur, sem um þessar mundir er framkvæmdur í listhúsinu Einn einn á Skólavörðustíg, og sjálfur hugmyndasmiðurinn ber hið sérstæða nafn Alexandra Kostrubala.

FORTÍÐARÞRÁ Myndlist Bragi Ásgeirsson Það er undarlegur gjörningur, sem um þessar mundir er framkvæmdur í listhúsinu Einn einn á Skólavörðustíg, og sjálfur hugmyndasmiðurinn ber hið sérstæða nafn Alexandra Kostrubala. Ekki svo að skilja að slíkar uppákomur hafi ekki sést áður, og þær eru alls ekki óalgengar erlendis.

Er hér um að ræða, að listakonan hefur innréttað húsakynnin sem heimili með tilheyrandi virkt og tilfallandi óreiðu sem fylgir lifnaðarháttum nútímamannsins. Auk þess er hún bersýnlega haldinn nokkurri fortíðarþrá, sem stöðugt sækir á í rótlausum og menguðum heimi, og sér stað í gömlum húsmunum og myndum á veggjunum. T.d. er heill veggur undirlagður ljósmynd af æskuheimili listakonunnar í Bandaríkjunum, en hún hefur víða flakkað og er m.a. menntuð í Noregi, Svíþjóð og Íslandi, þar sem hún giftist sænskum manni og er búsett í heimalandi hans.

Tilfallandi gestur er trakteraður með kaffi og kexkökum ef vill og viðmót húsráðenda vinsamlegt.

Hvar listin svo byrjar í þessu og hvar hún endar er ekki gott að segja, en menn finna fyrir vissri nánd í kraðakinu og svo eru gömlu munirnir gott sýnishorn ameríska draumsins, eða réttara sagt brotabrot hans. Alls kyns smámunir verða á vegi gestsins t.d. sjónvarp af minnstu gerð í einu horninu, en það má einnig horfa á það með aðstoð stækkunarglers sem er tiltækt, og eins konar rauðir plastbarkar eru í innra herberginu og horfi maður inn í þá koma í ljós fleiri myndir úr fortíðinni.

Í innra herberginu fellur sýningin vel inn í rýmið sem vænta má, því að það er sláandi heimilislegt og hefur oftar en ekki yfirgnæft það sem til sýnis hefur verið.

Þá er á sýningunni sitthvað af frumrissum að málverkum, en sú framkvæmd yfirleitt stutt á veg komin.

Heimspeki listakonunnar er nokkuð augljós, en samt saknar maður einhverra upplýsinga á milli handanna og þarna hefði gestabók á gömlu og dúkuðu borði átt heima, sem hluti heildarmyndarinnar.