7. október 1993 | Minningargreinar | 530 orð

Þórdís S. Friðriksdóttir

Þórdís S. Friðriksdóttir - Minning Fædd 3. mars 1953 Dáin 28. september 1993 Í dag, fimmtudag 7. október, verður borin til moldar mágkona mín, Þórdís S. Friðriksdóttir, fertug að aldri. Það var fyrir rétt rúmum 22 árum að Kalli bróðir minn kynnti Dísu, eins og hún var ætíð kölluð, fyrir fjölskyldu sinni. Í huga barnsins var þessi samkeppni um hylli bróðurins ekki vel þegin og í byrjun var þetta samband litið hornauga, en það átti eftir að breytast þegar mér auðnaðist þroski til að meta þá mannkosti sem hún hafði að geyma.

Dísa var fædd 3. mars 1953 í Reykjavík. Foreldrar hennar eru Friðrik Sófusson sendibílstjóri í Reykjavík og Ingunn Björgvinsdóttir sjúkraliði. Hún var næstelst af fimm systkinum og eru systkini hennar Björgvin, Marinó, Guðný og Friðgerður. Dísa gekk að eiga eftirlifandi maka sinn Karel Kristjánsson setjara hinn 7. febrúar 1974. Þeim varð tveggja barna auðið. Þau eru Friðrik Ingi, fæddur 30. október 1975, nemi í Menntaskólanum við Sund og Þórdís, fædd 9. mars 1982, nemi í Langholtsskóla, sem nú sjá á eftir ástríkri og umhyggjusamri móður.

Það sem stendur upp úr í minningunni um Dísu er hversu gífurlegum krafti og dugnaði hún virtist búa yfir. Ef eitthvað þurfti að gera þá var það gert samstundis og án nokkurra málalenginga. Allt sem hún tók sér fyrir hendur var gert af mikilli ástríðu og alúð. Þau Kalli lögðu stund á dansnám í nokkur ár og var metnaður hennar mikill í að ná leikni á dansgólfinu. Einnig hafði hún mikinn áhuga á að spila brids og hjálpaði það henni í erfiðum veikindum að gleyma sér í spilamennsku. Hún tók þátt í áhugamálum barna sinna af lífi og sál og taldi aldrei eftir sér nein aukaspor í því sambandi. Friðrik sonur hennar lagði fyrir sig dansnám og ég held að engin móðir hefði getað verið hreyknari en hún þegar hann vann til verðlauna í tengslum við það.

Bróðir minn hefur átt við mikil veikindi að stríða. Í hans veikindum stóð hún við hlið hans sterk sem klettur og seinna í sínum eigin veikindum lét hún aldrei neinn bilbug á sér finna og hvarflaði ekki annað að henni en að henni tækist að sigrast á þeim. Sýndi hún mikinn styrk og æðruleysi. Fram á dauðastund voru hennar hugsanir helgaðar velferð barnanna og heimilisins.

Dísa var sjúkraliði og starfaði lengst af í Hafnarbúðum. Í starfi sínu var hún vel liðin og fær í starfi. Henni var mikið kappsmál að aldraðir nytu þeirrar virðingar sem þeim bæri og fengju að halda sinni reisn til síðustu stundar.

Í huga mér og minnar fjölskyldu er eftirsjá að því að hafa aldrei þakkað Dísu allt það sem hún hefur gert fyrir okkur og þá sérstaklega hvað hún reyndist Kalla vel alla tíð. Einhvern veginn er það svo að maður heldur að það sé nægur tími til alls slíks.

Elsku Kalli, Friðrik og Þórdís, guð gefi ykkur styrk í sorg ykkar. Dísa mín, þín verður sárt saknað en við eigum allar góðu minningarnar til að ylja okkur við. "Hinir dánu eru ekki horfnir að fullu. Þeir eru aðeins komnir á undan (Cypríanus)." Blessuð sé minning þín og þakka þér fyrir allt.

Hlédís Þorbjörnsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.