Hringurinn aðal bakhjarlinn Kvenfélagið Hringurinn gaf Barnaspítala Hringsins á síðasta ári m.a. þrjá fullkomna hitakassa fyrir nýbura og fyrirbura. Anna Ólafía Sigurðardóttir, sviðsstjóri á hjúkrunarsviði Barnaspítala Hringsins, Margrét Birna Skúladóttir, Þórður Hilmarsson, ásamt ungum syni sínum, og Brynhildur Erla Pálsdóttir.
Hringurinn aðal bakhjarlinn Kvenfélagið Hringurinn gaf Barnaspítala Hringsins á síðasta ári m.a. þrjá fullkomna hitakassa fyrir nýbura og fyrirbura. Anna Ólafía Sigurðardóttir, sviðsstjóri á hjúkrunarsviði Barnaspítala Hringsins, Margrét Birna Skúladóttir, Þórður Hilmarsson, ásamt ungum syni sínum, og Brynhildur Erla Pálsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is KVENFÉLAGIÐ Hringurinn færði Barnaspítala Hringsins gjafir að verðmæti um 18 milljónir króna á síðasta ári.
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is

KVENFÉLAGIÐ Hringurinn færði Barnaspítala Hringsins gjafir að verðmæti um 18 milljónir króna á síðasta ári. Í gær komu Hringskonur í heimsókn á spítalann og fengu að sjá með eigin augum hvernig fjármunirnir, sem nýttir voru til margvíslegra tækjakaupa, hafa þegar skilað sér til þeirra sem stefnt var að, þ.e. barnanna.

Tækin sem Hringskonur gáfu spítalanum á síðasta ári eru meðal annars þrír fullkomnir hitakassar fyrir nýbura og fyrirbura. Með hitakössum þessum má stilla af nákvæmni hitastig, rakastig og jafnvel súrefnisgjöf til barna sem þess þurfa. Þá hafa Hringskonur einnig gefið Barnaspítalanum tvær svokallaðar síblástursvélar sem auðvelda litlum fyrirburum með óþroskuð lungu að nýta sér súrefni án þess að nota þurfi hefðbundnar öndunarvélar. Hringskonur gáfu Barnaspítalanum einnig fullkomið mælitæki til greininga á blóðgösum. Tæki þetta er nauðsynlegt til að fylgjast með súrefnisflutningi til vefja. Tækið er nauðsynlegt, einkum á nýburagjörgæsludeild, vökudeild þar sem börn þurfa oft öndunarvélaraðstoð. Loks hafa Hringskonur gefið spítalanum nýlega allmargar, nákvæmar vökvadælur til inngjafar á næringarvökvum og lyfjum í æð.

Skemmtilegt og gefandi starf

Hringurinn hefur í áratugi verið einn aðalbakhjarl spítalans og á drjúgan þátt í uppbyggingu hans.

"Barnaspítalinn hefur alveg frá upphafi verið okkar hjartans mál," segir Ragna Eysteinsdóttir, formaður Hringsins, en félagið vinnur einnig að öðrum verkefnum, t.d. styrkir það uppbyggingu barna- og unglingageðdeildar og er bakhjarl Sjónarhóls. "Slagorðið okkar er í raun að við styðjum við veik börn á Íslandi," segir Ragna. Félagskonur eru nú um 320 talsins. Vinna þær allar í sjálfboðavinnu í þágu félagsins en helstu fjáröflunarleiðir þess eru m.a. jólakortasala, margrómaður jólabasar og jólakaffi. "Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi starf og þakklátt," segir Ragna. "Oft ganga mömmur eða ömmur barna sem dvalið hafa á spítalanum í félagið."

Barnaspítali Hringsins og skjólstæðingar hans standa í þakkarskuld við Kvenfélagið Hringinn, segir í frétt frá spítalanum vegna gjafanna. "Þær hafa stutt okkur af mikilli framsýni og dugnaði í fimmtíu ár og eiga drjúgan þátt í þeim árangri sem næst á Barnaspítala Hringsins," segir Ásgeir Haraldsson, sviðsstjóri barnasviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss.