Tekjutenging Sigurður Jóhannesson hagfræðingur útskýrir hvaða áhrif tekjutenging bóta elli- og örorkulífeyrisþega á Íslandi hefur. Hann segir ódýrt fyrir ríkissjóð að afnema tekjutengingu með öllu.
Tekjutenging Sigurður Jóhannesson hagfræðingur útskýrir hvaða áhrif tekjutenging bóta elli- og örorkulífeyrisþega á Íslandi hefur. Hann segir ódýrt fyrir ríkissjóð að afnema tekjutengingu með öllu. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ríkissjóður gæti hagnast af því að afnema tekjutengingu bóta vegna launatekna eldri borgara og öryrkja eftir því sem fleiri stunda launavinnu. Ástæðan er auknar skatttekjur í ríkissjóð.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

Ef tæplega 4 þúsund manns á aldrinum 65 til 71 árs fara út á vinnumarkaðinn og vinna sér inn sem nemur meðallaunum fólks á þessum aldri, verða skattgreiðslur þeirra ríflega fjórir milljarðar króna á ári. Að því gefnu að ellilífeyrir verði ekki lengur skertur vegna atvinnutekna, kemur í ljós að staða ríkissjóðs batnar um 3,4 milljarða króna við að þessi hópur fari út á vinnumarkaðinn. Fjárhæðin gæti því, að þessum forsendum gefnum, verið hærri en það sem ríkið tapar í formi aukinna bótagreiðslna.

Niðurstaðan er því sú að ríkissjóður gæti hagnast af því að afnema tekjutengingu bóta vegna launatekna eldri borgara eftir því sem fleiri stunduðu launavinnu. Ástæðan eru auknar skatttekjur í ríkissjóð. Það sama á við um afnám tekjutengingar bóta öryrkja.

Þetta er niðurstaða viðamikillar rannsóknar Rannsóknaseturs verslunarinnar við Háskólann á Bifröst sem kynnt var í gær. Rannsóknin var unnin í samstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og styrkt af félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, VR og Verkefnastjórn 50+.

Skortur á starfsfólki í verslun

Að sögn Emils B. Karlssonar, verkefnastjóra rannsóknarinnar, er ástæðan fyrir rannsókninni sú að skortur er á starfsfólki í verslun og fleiri atvinnugreinum á Íslandi vegna þensluástands. "Allt bendir til þess að tekjutenging dragi úr vilja til atvinnuþátttöku aldraðra og öryrkja," segir Emil. "Stjórnendur í verslunum og í fleiri atvinnugreinum hafa kallað eftir þessu fólki í vinnu. Þannig að það er bæði fyrir hendi vilji eldri borgara, öryrkja og atvinnuveitenda til að rýmka og afnema tekjutenginguna og þar með hvetja fleiri til að taka þátt í atvinnulífinu."

Höfundar skýrslunnar eru hagfræðingarnir Sveinn Agnarsson og Sigurður Jóhannesson sem báðir starfa hjá Hagfræðistofnun HÍ.

Tvenns konar áhrif

Í skýrslunni segir að verði hætt að tengja bætur við atvinnutekjur muni það hafa tvenns konar áhrif á stöðu ríkissjóðs. Í fyrsta lagi aukast bæturnar og á hinn bóginn vinnur fólk að líkindum meira en það gerir nú þannig að skatttekjur ríkissjóðs aukast. Gera má ráð fyrir að atvinnuþátttakan aukist hægt í fyrstu en samkvæmt viðhorfskönnun um aukna atvinnuþátttöku eldri borgara sem Rannsóknarsetur verslunarinnar gerði í mars sl., hafa um 30% þeirra eftirlaunaþega, sem ekki eru starfandi á aldrinum 65–71 árs, áhuga á atvinnuþátttöku skerði hún ekki ellilífeyri þeirra. Um 13 þúsund Íslendingar á þessum aldri eru á skrá hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Sé miðað við að 5% af þessum hópi færu út á vinnumarkaðinn og fengju 75% af meðallaunum jafnaldra sinna hefði það í för með sér 90 milljóna króna kostnað fyrir ríkissjóð. Yrði hlutfallið 10%, myndi það skila 430 milljónum króna í ríkissjóð. Sé miðað við að um 30% hópsins færu út á vinnumarkaðinn, hefði það 2,4 milljarða króna tekjuaukningu fyrir ríkissjóð í för með sér og hefði sá hópur 100% meðallaun jafnaldra sinna sem þegar eru á vinnumarkaði, þýddi það 3,4 milljarða króna í tekjur fyrir ríkissjóðs eins og fyrr segir (Sjá töflu).

Atvinnuþátttaka öryrkja

Árið 2005 þáðu 12.755 manns örorkulífeyri hér á landi en engar athuganir hafa verið gerðar á hversu stórt hlutfall þeirra öryrkja sem ekki stunda vinnu gæti hugsað sér að hefja launavinnu. Sé gert ráð fyrir að atvinnuþátttaka þeirra verði 10% og þeir hafi meðallaun í tekjur, gæti hagur ríkissjóðs batnað um 1.140 milljónir króna á ári við það að afnema tekjutengingu bóta til örorkulífeyrisþega. "Á móti kemur að yrði hætt að tengja tekjur bótum er líklegt að það yrði eftirsóknarverðara að vera öryrki," segir Sigurður Jóhannesson hagfræðingur. "Það er svo annar handleggur, sem mikið hefur verið rætt um, hvort of auðvelt sé að komast á skrá sem öryrki."

Stór skref um áramótin

Mun ódýrara er að afnema tekjutengingu nú en fyrir áramót en um áramótin var tekinn upp tekjufrádráttur sem að mati skýrsluhöfunda var stórt skref í þá átt að afnema tekjutengingu lífeyrisþega. "Það skref kostaði um milljarð króna á ári fyrr ellilífeyrisþega og tæpan 1½ milljarð fyrir öryrkja," skrifa skýrsluhöfundar. "Það kostar hins vegar 600 milljónir á ári til viðbótar að afnema þá tekjutengingu sem eftir er hjá ellilífeyrisþegum og rúmar 900 milljónir hjá öryrkjum."

Samkvæmt núgildandi reglum skerðast bætur til örorku- og ellilífseyrisþega ef þeir stunda launavinnu mismikið eftir því um hvaða bætur er að ræða.

Ef breyting á tekjutengingum bóta verður til þess að fleira fólk fer út á vinnumarkað en nú munu skatttekjur ríkisins aukast og ekki er líklegt að þjónusta ríkisins við þetta fólk aukist að neinu ráði þegar það fer að vinna, segir í skýrslunni. "Þess vegna virðist rétt að líta á skattgreiðslur lífeyrisþeganna sem tekjuauka fyrir ríkið að mestu leyti."

Sigurður ítrekar að óvíst sé hversu margir færu út á vinnumarkaðinn yrði tekjutenging afnumin, þótt um 30% ellilífeyrisþega á aldrinum 65–71 árs gætu hugsað sér það. Eina leiðin til að komast að því væri hreinlega að prófa það.

"Niðurstaðan er sú að samkvæmt þessum tölum virðist vera mjög ódýrt, þótt við höfum ekki nákvæmar tölur um það, að hætta að tengja lífeyrisbætur við atvinnutekjur," segir Sigurður. "Það virðist mjög ódýrt, gæti kostað ríkið líklega um nokkur hundruð milljónir á ári að hætta þessum tekjutengingum en á móti kæmi að það gæti, ef vel tekst til, flutt 1–2 þúsund manns út á vinnumarkaðinn sem ekki eru þar núna. Í öðru lagi, sem skiptir ekki síður máli, að með þessu myndi skapast leið til að auka bæði tekjur og lífshamingju fólks sem er á þessum bótum."

Starfsfólki í verslun hefur fjölgað hægt

Rannsóknin var tvíþætt. Í fyrri hluta rannsóknarskýrslunnar er fjallað um framleiðnimælingar í verslun og þjónustu sem Sveinn Agnarsson hagfræðingur gerði. Sveinn bendir á að mun minni fjölgun starfsmanna hefur verið í verslun en öðrum þjónustugreinum á árunum 1998–2005 eða um 11%. Á sama tímabili fjölgaði starfsfólki í fjármálaþjónustu um 28%, 22% í hótel- og veitingarekstri og um 51% í fasteignaviðskiptum og annarri sérhæfðri þjónustu.

Á þessu sama tímabili jókst af þessum sökum framleiðni vinnuafls í verslun og þjónustu um 3,8% á ári að jafnaði sem er meiri aukning en átti sér stað í öðrum atvinnugreinum.

Í hnotskurn
» Samkvæmt núgildandi reglum skerðast bætur til elli- og örorkulífseyrisþega ef þeir stunda launavinnu.
» Á síðasta ári skertust bætur til ellilífeyrisþega um 1.663 milljónir kr. og bætur til öryrkja um 2.375 milljónir eða samtals um 4.038 milljónir króna.
» Um síðustu áramót tóku gildi nýjar reglur sem draga verulega úr þessari skerðingu atvinnutekna.
» Áætla má að skerðing bóta til ellilífeyrisþega nemi rúmum 600 milljónum kr. á árinu 2007 og skerðing bóta til örorkulífeyrisþega 915 milljónum kr. eða samtals um 1,5 milljörðum kr.
» Þær breytingar sem gerðar hafa verið á tekjutengingu bóta leiða til þess að kostnaður ríkissjóðs við að afnema tekjutenginguna með öllu er mun minni en áður.
» Í nýlegri könnun kemur fram að tæp 30% eldri borgara á aldrinum 65–71 árs gætu hugsað sér að vinna ef það hefði ekki áhrif á bætur þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins.
» Enda þótt ólíklegt sé að allir sem gætu hugsað sér að vinna myndu í raun láta til sín taka á vinnumarkaði gefur könnunin sterka vísbendingu um að margir myndu hefja launað starf.