Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur sigrunrosa@mbl.is Einkahlutafélagsformið hentar betur fyrir Actavis, að mati Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns félagsins.

Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur

sigrunrosa@mbl.is

Einkahlutafélagsformið hentar betur fyrir Actavis, að mati Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns félagsins. Novator, félag í eigu Björgólfs, mun leggja fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Actavis og eru áform um að taka félagið af markaði í kjölfar þess.

"Ég hef verið stjórnarformaður í félaginu í sjö ár og séð hvernig landslagið hefur breyst á stuttum tíma. Samþjöppun er mjög hröð og yfirtökur eru orðnar harðvítugar. Því er mikilvægt að fyrirtæki sem ætla að halda áfram að stækka geti brugðist hratt við og tekið skjótar ákvarðanir," segir Björgólfur Thor, sem telur heppilegra fyrir félag eins og Actavis að það sé í einkaeigu þar sem ákvarðanataka sé hröð og áhættan aðeins á herðum þeirra sem ákvarðanirnar taka.

Ráðstafi eigin peningum

"Gangi áform okkar eftir verður félagið skuldsettara og áhættan meiri. Mér finnst rétt að þegar menn taka mikla áhættu í viðskiptum, þá séu þeir að ráðstafa eigin peningum, ekki annarra," segir Björgólfur Thor ennfremur.

Eins og áður segir ætlar Novator, fjárfestingafélag í eigu Björgólfs, að leggja fram frjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Actavis Group hf. í A-flokki, að því er fram kemur í tilkynningu frá Novator, og hefur félagið fjórar vikur til þess. Eignarhlutur Novator og tengdra félaga í Actavis er nú um 38,5%. Tilboðið jafngildir um 85,23 krónum á hlut. Bréf í félaginu tóku síðan 12% stökk í gær eftir að tilkynnt var um tilboð Novator og endaði gengi þeirra í 87,5 krónum, sem er 2,9% yfir tilboði Novators.

Í hnotskurn
» Novator býðst til að kaupa öll hlutabréf Actavis í A-flokki á 85,23 krónur á hlut.
» Gangi yfirtakan eftir verður hún sú stærsta í Íslandssögunni eða jafnvirði um 180 milljarða króna.
» Novator hyggst taka Actavis af markaði eftir yfirtökuna.
» Sérfræðingum ber ekki saman um hvort tilboðið sé of lágt eða sanngjarnt.