Friðlýsing Bjarni Guðleifsson náttúrufræðingur á Möðruvöllum, Jón Kr. Sólnes stjórnarmaður í Hrauni í Öxnadal ehf., Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri í Hörgárbyggð.
Friðlýsing Bjarni Guðleifsson náttúrufræðingur á Möðruvöllum, Jón Kr. Sólnes stjórnarmaður í Hrauni í Öxnadal ehf., Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri í Hörgárbyggð. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓNÍNA Bjartmarz umhverfisráðherra friðlýsti í gær hluta jarðarinnar Hrauns í Öxnadal sem fólkvang, svo og Arnarnesstrýtur á botni Eyjafjarðar.

JÓNÍNA Bjartmarz umhverfisráðherra friðlýsti í gær hluta jarðarinnar Hrauns í Öxnadal sem fólkvang, svo og Arnarnesstrýtur á botni Eyjafjarðar.

Arnarnesstrýtur, sem fundust fyrir aðeins þremur árum, eru friðlýstar til að vernda megi einstök náttúrufyrirbrigði sem felast í myndun hverastrýtnanna, efnasamsetningu, útliti og lögun ásamt lífríki, þar með talin örveruvistkerfi sem þar þrífast við óvenjulegar aðstæður. Hverastrýturnar eru allt að 10 metra háar og standa á 25 til 45 metra dýpi.

Samkvæmt friðlýsingunni eru togveiðar, netalagnir og línuveiðar bannaðar við náttúruvættið og á jaðarsvæði þess. Umhverfisráðherra undirritaði friðlýsingu strýtnanna á Hjalteyri síðdegis, skömmu eftir að hún skrifaði undir þá fyrri í gamla bænum á Hrauni.

Friðlýst svæði Hrauns í Öxnadal mun ná yfir 2.286 hektara jarðarinnar. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda svæðið til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu. Verndargildi svæðisins byggist auk þess á því að landslag og náttúrufar, sérstaklega jarðmyndanir, eru mjög fjölbreytt og eru þar m.a. mikilvægar minjar um horfna búskaparhætti.

"Um fegurð og jarðfræðilegan fjölbreytileika þessa svæðis efast enginn," sagði Bjarni Guðleifsson, náttúrufræðingur á Möðruvöllum, ötull talsmaður þeirrar verndunar sem í gær varð að veruleika, þegar hann ávarpaði samkomuna á Hrauni. "Berghlaupin sem hálfan dalinn fylla einkenna svæðið og mynda einstaklega vinalegt hólasvæði sem hefur lokað útrennsli Vatnsdals og myndað Hraunsvatn, og í fjallinu stendur eftir þunn fjallsegg prýdd Hraundranga, einum þekktasta og fegursta fjallstindi á Íslandi," sagði Bjarni Guðleifsson.

Hann sagði það auka gildi svæðisins að á Hrauni fæddist árið 1807 þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. "Þótt hann ætti ekki lengi heima á þessum bæ, þá er hann ævinlega og órjúfanlega tengdur staðnum. Það má segja að gildi svæðisins felist aðallega í þrennu; fegurð, jarðfræðilegri fjölbreytni og loks sögu staðarins. Allir þessir þrír þættir tengjast Jónasi Hallgrímssyni; í fyrsta lagi var hann skáld fegurðarinnar og hefur jafnvel verið sagt að hann hafi fundið upp fegurðina á Íslandi. Í öðru lagi var jarðfræðin sú grein náttúrufræðinnar sem hann stundaði mest og var hann fræðilega langt á undan samtíðinni. Í þriðja lagi var hann rómantískur hugsjónamaður sem vildi halda sögu landsins á lofti," sagði Bjarni.

Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf í fólkvanginum, svo dæmi séu tekin. Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til framkvæmda í fólkvanginum þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum. Jarðrask og mannvirkjagerð er einnig háð leyfi umsjónarnefndar fólkvangsins og skal vera í samræmi við uppbyggingu fólkvangsins þar sem gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum. Jafnframt er gert ráð fyrir aðstöðu til náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu. Í verndaráætlun er nánari útfærsla á framkvæmdum innan fólkvangsins í þágu útivistar og fræðslu.

Í hnotskurn
» Hraun í Öxnadal ehf. stefnir að opnun fræðimannaíbúðar í gamla íbúðarhúsinu og opnun fólkvangsins á fífilbrekkuhátíð 16. júní og opnun minningarseturs á Hrauni um Jónas Hallgrímsson 16. nóvember, þegar 200 ár verða frá fæðingu hans.
» Umsjón og rekstur fólkvangsins á Hrauni verða í höndum þriggja manna umsjónarnefndar sem skipuð er einum fulltrúa Hörgárbyggðar, einum fulltrúa Hrauns í Öxnadal ehf. og einum fulltrúa Umhverfisstofnunar.

skapti@mbl.is