27. maí 2007 | Viðskiptafréttir | 410 orð | 1 mynd

Réttindi erlendra starfsmanna

Réttindi Nýr samningur um réttindi erlendra verkamanna sem starfa við Héðinsfjarðargöng er mikilvægur áfangi.
Réttindi Nýr samningur um réttindi erlendra verkamanna sem starfa við Héðinsfjarðargöng er mikilvægur áfangi. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Mikið hefur verið rætt um réttindi og skyldur erlends vinnuafls á Íslandi á síðustu árum og mörg mál hafa komið upp þar sem starfsmannaleigur eru taldar hafa brotið gegn ákvæðum íslenskra laga og aðbúnaður erlendra verkamanna hefur verið bágborinn.
Mikið hefur verið rætt um réttindi og skyldur erlends vinnuafls á Íslandi á síðustu árum og mörg mál hafa komið upp þar sem starfsmannaleigur eru taldar hafa brotið gegn ákvæðum íslenskra laga og aðbúnaður erlendra verkamanna hefur verið bágborinn. Nú kann að vera að brotið sé blað í þessum málum með samningi sem undirritaður var rétt fyrir helgi.

Fyrst sinnar tegundar

Verkalýðsfélagið Vaka á Siglufirði og Eining – Iðja á Akureyri undirrituðu á föstudag samkomulag við Metrostav a.s., vegna útsendra starfsmanna Metrostav, sem vinna við gerð Héðinsfjarðarganga. Samkomulagið er hið fyrsta sinnar tegundar, þar sem m.a. er vísað til ákvæða nýrra laga, nr. 45/2007 ,,um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Starfsgreinasambandi Íslands.

Þar segir meðal annars að samkomulagið sé markvert fyrir þær sakir að um sé að ræða útfærslu á lögum sem sett eru til innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins nr. 96/71, ,"um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu", en þessi lög taka mið af ákvæðum íslenskra kjarasamninga og gildi þeirra í því sambandi.

Vinna í lotum

Ákvæðum kjarasamnings SGS er fylgt í meginatriðum, en vaktir og vinnutilhögun starfsmanna er aðlöguð þeirra þörfum og fjölskyldna þeirra heima í Tékklandi, segir í fréttatilkynningunni. Starfmennirnir starfa hér í 12 vikna lotum, þ.e. 8 vinnuvikur í senn, en síðan taka við 4 frívikur í Tékklandi. Starfsmennirnir eru aðilar að sjúkrasjóðum íslensku stéttarfélaganna, þeir eru tryggðir á Íslandi og greiða aðildarfélagsgjöld til stéttarfélaganna, auk þess sem þeir eru aðilar að Lífeyrissjóði félaganna, Stapa.

Vaka og Eining – Iðja, hafa ásamt fulltrúa SGS haldið nokkra fundi með starfsmönnum, bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði, í aðdraganda samkomulagsins og haft við þá fullt samráð. Samkomulagið tekur til um 60 verkamanna.

Íslensk lög til fyrirmyndar

Í fréttatilkynningunni segir að samhliða viðræðum við starfsmenn Metrostav hafi verið haft óformlegt samráð milli íslensku stéttarfélaganna og SGS annars vegar og Stéttarfélags starfsmanna Metrostav í Tékklandi hins vegar, en bæði SGS og Landsamband byggingaverkamanna í Tékklandi eru aðilar að Alþjóðasambandi byggingamanna.

"Mikil umræða hefur átt sér stað og á sér stað meðal hinnar evrópsku verkalýðshreyfingar um framkvæmd tilskipunar ESB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu og félagsleg undirboð milli landa í því sambandi. Íslensku lögin, sem hér eru reynd í fyrsta skipti, eru að mörgu leyti til fyrirmyndar og skapa okkur betri möguleika á að koma í veg fyrir slík undirboð en víða annars staðar," segir að lokum í fréttatilkynningu SGS.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.