27. maí 2007 | Innlent - greinar | 1138 orð | 2 myndir

Húsráð handa ráðalausum

Þeim sem eru haldnir fullkomnunaráráttu og fyllast vanlíðan, kvíða og samviskubiti við tilhugsunina um heimilisstörf stendur ókeypis húshjálp til boða í netheimum

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur vjon@mbl.is Vinsældirnar aukast jafnt og þétt og nú hafa um fjögur hundruð þúsund manns í 65 löndum gerst áskrifendur að póstlista á vefnum FlyLady.net, sem settur var á laggirnar árið 2001.
Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur

vjon@mbl.is

Vinsældirnar aukast jafnt og þétt og nú hafa um fjögur hundruð þúsund manns í 65 löndum gerst áskrifendur að póstlista á vefnum FlyLady.net, sem settur var á laggirnar árið 2001. Þeir fá því sjálfkrafa allt að 15 tölvupóstskeyti á dag frá flugdömunni, sem hvetur þá áfram með ráðum og dáð. Þó ekki í tengslum við áhugamál á borð við fluguhnýtingar, flug, léttklæddar lafðir eða veiðiskap, eins og nafnið gæti bent til. Raunar sæta vinsældir flugdömunnar nokkurri furðu því umfjöllunarefni hennar er bæði einstaklega hversdagslegt og að flestra mati leiðinlegt. Nefnilega heimilisstörf.

Þótt flestir verði að láta sig hafa það að taka til og þrífa annað slagið hafa sárafáir brennandi áhuga á húsverkum. Margir fyllast vanlíðan, kvíða og samviskubiti við tilhugsunina eina saman.

Leyndarmál konu dómarans

Slíkar tilfinningar gerðu vart við sig hjá forsprakka vefjarins, Marla Cilley, fyrir rúmum áratug þegar hún giftist héraðsdómara í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. "Hvernig gætu þau sameinað tvö heimili yfirfull af allskonar dóti?" hugsaði hún áhyggjufull. En það gerðu þau og bættu um betur. "Við sameinuðum óreiðuna, fórum síðan á uppboð og keyptum meira," sagði hún í viðtali á beliefnet.com. Hús þeirra hjónakorna segir hún hafa orðið svo draslaralegt að þegar fulltrúar sýslumanns komu að hitta eiginmann hennar, eins og oft bar við, bauð hún þeim ekki að ganga í bæinn. " ...svo þeir kæmust ekki að litla, ljóta leyndarmálinu mínu," útskýrir hún.

Árið 1999 var henni þó alveg nóg boðið og ákvað að taka sig taki og koma skikki á eitt í einu á heimilinu. Svo vel fórst henni verkið úr hendi að vinir og kunningjar hófu að leita hjá henni ráða um að leysa ýmis skipulagsvandræði á heimilum sínum. Grunnurinn var lagður og tveimur árum síðar var Cilley orðin ókeypis húshjálp í netheimum.

Fullkomnunarárátta

Flestir áskrifendanna eru konur, sem hrífast af hispurslausri og, að því er virðist, einfaldri nálgun Cilley á viðfangsefninu, en sjálf lýsir hún sér sem klappstýru, álfkonu og liðþjálfa í bland, sem líði ekki vol, væl og víl.

Sumt sem lesa má á vefnum hljómar að vísu eins og afturhvarf til fortíðar eða til þess tíma er konur voru húsmæður að aðalstarfi. Annað er meira í takt við nútímann þegar flestar konur hafa jafnframt annan starfa og glíma við að finna hið gullna jafnvægi á milli starfs og starfsframa annars vegar og heimilis og fjölskyldu hins vegar.

Oftast er málinu beint til kvenna, en Cilley fullyrðir að fullkomnunarárátta hrjái þær margar. Þótt þversagnakennt sé segir hún að galdurinn við að halda heimilinu ætíð hreinu og snyrtilegu með lítilli fyrirhöfn sé að láta af fullkomnunaráráttunni. Í stórum dráttum þróaði Cilley kerfi sem byggðist á daglegri og vikulegri rútínu, eins og henni lét best að vinna eftir um árið.

"Ég fann að ég gat ekki gert allt í einu og varð að koma mér niður á að vinna eitt verk í einu, en reglulega; búa til venju. Fyrsta venjan, sem ég setti mér í janúarmánuði, var að halda eldhúsvaskinum skínandi hreinum," segir Cilley og lýsir síðan hvernig vaskur smitar út frá sér hreinlæti. " ...síðan verður borðið í kring eins og ósjálfrátt hreinna og ofnarnir virðast hrópa "þrífðu mig líka". Áður en þú veist af geislar eldhúsið af hreinlæti og þú hefur ekkert á móti því að fara þangað inn og elda kvöldmatinn."

Eldhúsvaskurinn gegnir þýðingarmiklu hlutverki og er táknrænn fyrir aðferðafræði Cilley, sem segir hvert herbergi hafa sinn "gljáfægða vask" því uppbúið rúm og snyrtilegt skrifborð hafi sömu áhrif. Á FlyLady.net er farið með byrjendum, svonefndum FlyBabies, skref fyrir skref í gegnum daglegan verkefnalista í 31 dag.

Fyrsta regla fyrsta dags

Fyrsta regla fyrsta dags er: Farðu og fægðu vaskinn! "Þegar það er búið þarftu að halda honum skínandi hreinum, þurrka af honum eftir notkun og sjá til þess að hann sé gljáfægður þegar þú ferð í háttinn – til þess að þú getir brosað næsta dag. [...] Gljáfægður vaskurinn endurspeglar að þér þykir vænt um sjálfa þig," segir á síðunni og síðan er útskýrt út á hvað kerfið gengur, þ.e. að koma sér upp venjum, sem smám saman verði að einfaldri rútínu; á morgnana, eftir vinnu og áður en farið er að sofa.

Fyrsta skrefið ætti ekki að vera neinum ofviða, enda eru byrjendur hvattir til að fara sér í engu óðslega við að reyna að gera allt í einu.

Grundvallarreglan samkvæmt kerfi flugdömunnar er að ekki eigi að verja nema korteri í einstaka verk ella verði fólk leitt og gefist upp. Hún mælir eindregið með sérstökum tímamæli, sem áskrifendur geta keypt á vefnum ásamt varningi af ýmsu tagi; afþurrkunarsópum, handbókum um heimilishald, matargerð, næringu og heilsu o.fl.

Ef farið er að ráðum Cilley sjálfrar ætti þó að fara varlega í innkaupin, því hún leggur mikla áherslu á að sanka ekki að sér dóti heldur fleygja því sem hvorki er eigendum sínum til gagns né gleði lengur. Hún segir að þegar "FlyBabies" hafi losað sig við þessa hluti geti þau fyrst farið að taka heimilið almennilega í gegn. Samkvæmt kerfinu á að safna saman 27 óþarfa hlutum á 15 mínútum og fleygja þeim.

Undarleg skref

Hér verður ekki farið ofan í saumana á skrefum byrjendanna í 31 dag, enda hæg heimatökin fyrir áhugasama að kynna sér þau og annað á FlyLady.net. Sumt virðist ákaflega undarlegt, til að mynda fyrsta skrefið á öðrum degi: "Klæddu þig og reimaðu skóna þína!" Þegar nánar er að gáð ber ekki að taka skipunina bókstaflega, heldur er skírskotað til mikilvægis þess fyrir sjálfsvirðinguna að klæða sig og jafnvel farða, í stað þess að slæpast um í náttfötunum allan daginn.

Þriðja dag segir: "Gerðu það sem þú hefur þegar gert" (á 1. og 2. degi). Og svo heldur þetta áfram, síðu eftir síðu, með vaskinn og skóna jafnan til áhersluauka. Að sögn Cilley getur tekið marga mánuði, jafnvel ár, að koma sér upp rútínu, allt eftir því í hvaða ástandi heimilið er þegar hafist er handa. FlyLady.net er orðin heilmikil útgerð og hefur Cilley her manna sér til halds og trausts, enda ærinn starfi að svara fyrirspurnum og senda áskrifendum reglulega tölvupóst.

Markmiðið segir hún fyrst og fremst að gera fjölskyldulífið auðveldara og skemmtilegra og halda heimilinu hreinu og snyrtilegu án þess að húsráðendur slíti sér út við heimilisstörfin. Skipulag að hætti flugdömunnar eigi að forða þeim frá slíku.

Í hnotskurn
Nokkur ráð og hugleiðingar á flylady.net, sem Marla Cilley, áhugamanneskja um veiðar á flugu, stofnaði árið 2001:
» Gerðu það núna. Frestun er einkenni fullkomnunaráráttu, sem þarf að yfirvinna. Gerðu það sem þú getur, þegar þú getur, eins vel og þú getur.
» Stilltu tímastillinn á 15 mínútur. Hættu svo, þótt verkinu sé ekki lokið.
» Lagaðu daglega til í einu draslhorni eða skúffu (hot spot) eða þar sem heimilisfólkið á vanda til að henda hlutunum frá sér.
» Heimili okkar urðu ekki draslaraleg á einum degi og þau verða heldur ekki þrifin hátt og lágt á einum degi.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.