27. maí 2007 | Aðsent efni | 633 orð | 1 mynd

Skógrækt á Íslandi kælir loftið

Þorbergur Hjalti Jónsson skrifar um áhrif skógræktar á Íslandi til kolefnisbindingar

Þorbergur Hjalti Jónsson
Þorbergur Hjalti Jónsson
Þorbergur Hjalti Jónsson skrifar um áhrif skógræktar á Íslandi til kolefnisbindingar: "Skógrækt á auðnum Íslands dregur úr hlýnun andrúmsloftsins bæði með auknu endurskini og bindingu koltvísýrings."
ÞVÍ hefur nýlega verið haldið fram að skógrækt á Íslandi og annars staðar á norðurslóðum vinni ekki gegn hlýnun andrúmslofts og jafnvel að hún auki á gróðurhúsaáhrifin. Þessi fullyrðing er studd útreikningum í líkani sem G. Bala og samstarfsmenn hans birtu nýlega í hinu virta vísindatímariti Proceedings of the National Academy USA (G. Bala, K. Caldeira, M. Wickett, T.J. Phillips, D.B. Lobell, C. Delire & A. Mirin (2007). Combined climate and carbon-cycle effects of large-scale deforestation. PNAS 104(16), 6550-6555). Í grein sinni prófuðu þeir hver yrðu áhrifin á hlýnun jarðar fram til ársins 2150 ef núverandi skóglendi væri fjarlægt af yfirborði jarðar samfara áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda. Niðurstaða þeirra var að 1) eyðing skóglendis í hitabeltinu myndi auka verulega á hlýnunina, 2) skógeyðing í tempraða beltinu að 50°N myndi lítil áhrif hafa en 3) ef skógi væri svipt af jörðinni norðan 50°N myndi draga úr hlýnun jarðar.

Skógur endurvarpar 10-20% af þeirri sólgeislun sem á hann fellur en endurskin (albedo) frá snjó er 45-85% af inngeislun. Því tapast meira af sólarorkunni frá opnu landi með snjó en frá skógi áður en sólgeislunin nær að hita landið og lofthjúpinn. Ef skógur er felldur á landi með langvarandi snjóþekju eykst endurskin landsins verulega. Tempraða beltið á norðurhveli jarðar er að mestu leyti á stórum meginlöndum með langvarandi vetrarkulda og snjóþekju á jörðu. Norðan 50°N eru víðáttumikil og vetrarköld skógarsvæði Norður-Kanada, Norður-Rússlands og Síberíu en sunnan 50°N er skóglendið mestmegnis í tiltölulega snjóþungu fjallendi. Bala og samstarfsmönnum hans reiknaðist til að á þessu svæði vægi kæling vegna aukins endurskins frá snjó meira en losun koltvísýrings samfara skógeyðingu. Snjólaust en gróið land hefur svipað endurkast óháð því hvort þar vex skógur eða lágvaxinn gróður. Áhrif skógeyðingar á snjóléttum svæðum á geislunarjöfnuð landsins eru því óveruleg. Á suðurhveli jarðar eru skógar tempraða beltisins á vetrarmildum svæðum með lítilli snjóþekju. Þar og í hitabeltinu hefur skógeyðing lítil áhrif á endurskin landsins. Sunnan miðbaugs er mjög lítið land í tempraða beltinu og því vegur þessi skógur lítið í líkanareikningum þar sem skógi er svipt af heilum gróðurbeltum. Víðáttumiklir vetrarkaldir skógar á meginlöndum norðurhvels með langvarandi snjóþekju á jörðu skýra niðurstöður Bala og samstarfsmanna hans.

Þótt líkanareikningar Bala og samstarfsmanna hans fjölluðu um skógeyðingu þá túlkuðu þeir niðurstöðurnar þannig að nýskógrækt (skóggræðsla) í tempraða beltinu að 50°N væri gagnslítil mótvægisaðgerð og skaðleg norðan 50°N. Sú túlkun stenst ekki. Nýr skógur sem getur bundið koltvísýring úr andrúmslofti verður ekki ræktaður nema á skóglausum svæðum sem geta borið skóg. Norðan 50°N er mestur hluti þess lands sem getur borið skóg skógi vaxinn. Helstu frávikin eru skosku hálöndin, Ísland og nokkur minni svæði, einkum við Norður-Atlantshaf. Sunnan 50°N er verulegur hluti þess lands sem hefur mikla snjóþekju á veturna þegar skógi vaxinn. Skóglaust land er mestmegnis láglendissvæði með lítilli snjóþekju sem fyrir löngu voru rudd undir landbúnað, t.d. England og Vestur Evrópa, austurströnd Bandaríkjanna og láglendi í Kína. Skógrækt á þessum svæðum hefur lítil áhrif á endurskin en getur bundið mikinn koltvísýring.

Á Skotlandi, Íslandi og fleiri hafrænum svæðum norðan 50°N er lítil og stopul snjóþekja. Þar við bætist að sólgeislun á Íslandi er lítil á þeim árstíma sem snjór getur verið á jörðu. Því breytir skógrækt á grónu landi litlu fyrir endurskin landsins. Á Íslandi er gróðursnautt land afar dökkt og með lítið endurskin (5-10%). Á sumrin er mikil inngeislun og dökkar auðnirnar gleypa sólgeislunina. Uppgræðsla og skógrækt á þessu landi eykur endurskinið. Auðnir á láglendi Íslands geta bundið mikinn koltvísýring úr andrúmslofti hvort heldur er miðað við flatareiningu eða umfang. Skógrækt á auðnum Íslands dregur úr hlýnun andrúmsloftsins bæði með auknu endurskini og bindingu koltvísýrings. Hvert tonn af koltvísýringi sem bundið er í láglendisauðnum á Íslandi hefur síst minni áhrif til að hamla hlýnun jarðar en binding í hitabeltinu eða samsvarandi minni losun.

Höfundur er skógfræðingur og sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.