27. maí 2007 | Innlent - greinar | 3900 orð | 2 myndir

Hvorki kreddur til hægri né vinstri

Utanríkisráðherrann Ingibjörg Sólrún segir oft búið að spá fyrir um pólitískt andlát sitt og klykkir út með: "Ég er hér enn."
Utanríkisráðherrann Ingibjörg Sólrún segir oft búið að spá fyrir um pólitískt andlát sitt og klykkir út með: "Ég er hér enn." — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Pétur Blöndal talaði við hana, m.a. um stjórnarsáttmálann og tilvistarkreppu Samfylkingarinnar í vetur.
Það liggur vel á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að morgni fyrsta heila vinnudagsins í utanríkisráðuneytinu. Enda Samfylkingin í ríkisstjórn í fyrsta skipti frá stofnun flokksins fyrir sjö árum.

Ingibjörg Sólrún sest í voldugan hægindastól, hendir gaman að því hversu stór hann er, brosir fyrir ljósmyndarann og meðan á viðtalinu stendur lærir hún hvernig á að opna glugga á skrifstofunni og hvert nýja netfangið er.

Pólitíkina kann hún.

Svo hlýtur fyrsta spurningin að vera hvort hún hafi farið heim með sætasta stráknum á ballinu.

"Ég fór heim með þeim strák af ballinu sem mér fannst vera traustastur," svarar hún og lætur ekki slá sig út af laginu.

– Miklar sögur fara af tengslaneti kvenna á Alþingi og að samræður ykkar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, hafi verið lykill að stjórnarmynduninni.

"Það er rétt að konur á Alþingi hafa lagt sig fram um að búa til tengslanet sín á milli. Við verðum gjarnan varar við það tengslanet sem karlarnir hafa myndað með sér, sem hægt er að nýta þegar þarf að liðka til fyrir hlutum eða ná samkomulagi um mál þvert á flokka. Og við höfum held ég meðvitað og ómeðvitað verið að byggja upp slíkt net okkar á milli. Ég held að það hafi auðvitað skipt máli í þessu sambandi. Ég á gott samband við konur í öllum flokkum og við höfum gott aðgengi hver að annarri, sem eykur skilning á stöðu fólks og flokka. Þannig að þetta er mikilvægt tengslanet. Og okkur Þorgerði Katrínu semur ágætlega; við eigum skap saman."

Ingibjörg Sólrún þagnar, en bætir svo við:

"En það er dálítið merkilegt að körlunum virðist stundum standa stuggur af tengslaneti kvenna og sjá samsæri í því. Þetta skynjuðum við í vetur þegar þetta kom fram í viðtali sem Morgunblaðið átti við mig og var síðan staðfest af Valgerði [Sverrisdóttur] og Þorgerði Katrínu. Ég skynjaði að þeim stóð ekki alveg á sama, þó að þeir hefðu verið með slíkt net áratugum saman. Þeir virðast aldrei hafa áttað sig á því að okkur konunum gæti staðið stuggur af þeirra neti."

– Er þetta ekki tímanna tákn, að konur séu orðnar svo valdamiklar að þær geti myndað slíkt net?

"Jú, við erum einfaldlega orðnar fleiri. Þetta var óvinnandi vegur þegar aðeins var ein og ein kona á stangli. En auðvitað er best að þetta gangi þvert á kyn og það gerir það að einhverju leyti."

Prófsteinn á samstarfið

– Það virðist einmitt hafa myndast mikið traust og trúnaður milli þín og Geirs H. Haarde ef marka má hversu fljótt og örugglega stjórnarmyndunarviðræður gengu fyrir sig.

"Ég tel mig geta fullyrt að við höfum náð mjög vel saman. Og ég held að við séum bæði þeirrar gerðar að við viljum gjarnan fara samninga- og sáttaleiðina ef hún er fær, þó að hvorugt okkar skirrist við að taka pólitískan slag ef á þarf að halda. Og það er bara þannig að stundum virðist fólk eiga auðvelt með að ná saman. Ég held að það hafi gengið ágætlega hjá okkur og við séum bæði í þessu, og höfum sannfæringu fyrir því, af fullum heilindum og trúnaði. Og þetta byggist ekki endilega á rökum heldur einnig tilfinningu fyrir fólki."

– Eftir því var tekið að ekkert lak út um stjórnarmyndunarviðræðurnar?

"Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt og var prófsteinn á þetta samstarf að það gerðist ekki. Við héldum þessu þétt hjá okkur og það var svo sem bara lítill hópur sem hafði allar upplýsingar um ganga mála, en hann reyndist vera vandanum vaxinn."

– Ríkisstjórnin hefur þegar fengið ýmis viðurnefni, svo sem frjálslynd umbótastjórn, Þingvallastjórn, Baugsstjórn, nýfrjálshyggju-hægrikratísk stjórn.

"Þú gleymir einu nafni, – Risessan," segir Ingibjörg Sólrún brosandi. "Sú nafngift varð til í tengslum við atburð á Listahátíð, þar sem ríkisstjórnin hefur stóran þingmeirihluta og svo auðvitað út af essunum tveimur! En ég geri ekkert með uppnefni eins og Baugsstjórnin. Þó að stjórnarformaður Baugs hafi haft þá skoðun að það bæri að mynda ríkisstjórn þessara tveggja flokka, þá var hann ekki einn um það því að það höfðu svo miklu fleiri þá skoðun. Hans afstaða kemur þessari stjórnarmyndun ekkert við.

Og það er algjörlega ótímabært að gefa stjórninni viðurnefni eins og "nýfrjálshyggju-hægrikratísk" þegar hún er ekki enn farin að vinna og sýna fyrir hvaða verkum hún stendur. Ég held að menn ættu aðeins að bíða átekta og sjá hvað setur. Við köllum okkur sjálf frjálslynda umbótastjórn og í því felst að við ætlum okkur að vera víðsýn og umburðarlynd, hvorki með kreddur til hægri eða vinstri, og standa fyrir nauðsynlegum endurbótum á íslensku samfélagi í velferðar-, efnahags- og umhverfismálum. Við teljum þessa nafngift lýsandi fyrir þau verkefni."

– Talað er um að unnið verði að víðtækri sátt í samfélaginu um náttúruvernd og auðlindanýtingu. Er það raunhæft eftir átök undanfarinna ára?

"Það verða auðvitað allir að átta sig á því að það er hvorki hægt að vernda öll náttúrusvæði né heldur gjörnýta þau. Það skiptir máli að ná sátt með því að kortleggja helstu náttúrusvæði landsins og reyna að flokka þau og meta eftir því hvaða svæði hafa mest verndargildi og hvort beri að vernda þau og nýta með öðrum hætti, því verndin er ákveðin tegund nýtingar. Síðan þarf að ákveða hvaða svæði má taka til virkjananota eða annarra nota, sem hafa einnig áhrif á umhverfið, svo sem framkvæmdir í þágu ferðaþjónustu. Það er mikilvægt að hafa þessa heildarmynd undir áður en ráðist er inn á óröskuð svæði. Við eigum að leitast við að taka upplýstar ákvarðanir sem byggjast á rannsóknum, en ekki ákvarðanir sem við sjáum eftir á að voru teknar í fljótræði miðað við þá heildarhagsmuni sem voru í húfi."

– Ég spyr aftur: Er raunhæft að þjóðarsátt náist?

"Það verða aldrei allir á eitt sáttir. Það er borin von. En það er að minnsta kosti hægt að taka þessi mál út úr þeim átakafarvegi sem þau hafa verið í; ég er sannfærð um að það er hægt og ég er líka sannfærð um að tíminn vinnur með náttúruverndarsjónarmiðum. Þau eiga ekki að tilheyra pólitískum jaðri heldur vera hluti af meginstraumum í stjórnmálum. Það er nauðsynlegt ef við eigum að ná árangri. Ég lít þetta mál svipuðum augum og kvennabaráttuna. Við stofnuðum kvennalista á sínum tíma til að setja jafnréttismál á dagskrá, fá flokka til að taka þau upp og gera að sínum, og mér finnst það sama eigi að gilda um umhverfisverndarmálin. Vandinn er hinsvegar sá að stjórnmálaflokkarnir skynja ekki alltaf sinn vitjunartíma og þess vegna gegna öflugar eins máls hreyfingar oft miklu hlutverki."

Biðlistum aldrei alveg útrýmt

– Það er ekki útilokað í stjórnarsáttmálanum að stóriðja rísi á kjörtímabilinu, svo sem álver í Helguvík og á Húsavík.

"Ekki er tekin afstaða til þess í sjálfu sér, en sagt er að það eigi annarsvegar að meta það í ljósi þeirra markmiða sem stjórnin setur sér í efnahagsmálum og hinsvegar rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Á meðan geta menn haldið áfram rannsóknum fyrir norðan til þess að átta sig á hvað jarðhitinn getur gefið af sér, það er ekki eins og framkvæmdir fyrir norðan séu handan við hornið, og í sambandi við Helguvík verða iðnaðar- og umhverfisráðherra að reyna að átta sig á hvar þau verkefni standa. Það liggur ekki í augum uppi."

– Samfylkingin lagði mikla áherslu á að eyða biðlistum í kosningabaráttunni. Heyra biðlistar sögunni til í lok kjörtímabilsins?

"Þeim verður auðvitað aldrei útrýmt að fullu. Það eru ríflega 3 þúsund manns á biðlistum hjá Landspítalanum eftir einhverskonar aðgerðum og þjónustu. Það verða alltaf einhverjir sem bíða og það getur verið fullkomlega eðlilegt. Það liggur ekki alltaf lífið við.

En ákveðnir biðlistar eru algjörlega óviðunandi, ekki síst þeir sem lúta að börnum sem eru með geðraskanir og þroskafrávik og fá ekki einu sinni greiningu á sínum vanda. Ef sú greining liggur ekki fyrir fá þau ekki heldur þá þjónustu sem þau þurfa, hvorki í skólum né heilbrigðiskerfi. Og hvert ár í lífi barns er svo dýrmætt. Það gerist svo mikið í þroska barns á hverju ári að það getur haft afdrifaríkar afleiðingar ef þau þurfa að bíða eftir úrlausn sinna mála.

Svo eru biðlistar aldraðra eftir hjúkrunarrýmum alltof langir, þó að það verði alltaf einhver bið því að rými eiga ekki að standa auð. En það þarf að skilgreina hvað getur talist viðunandi biðtími."

– Á meðan lofað er nýjum hjúkrunarrýmum gengur illa að manna þau umönnunarstörf sem fyrir eru. Þarf ekki að leysa þau mál fyrst?

"Þetta vandamál er orðið viðvarandi í umönnunarstörfum. Við sjáum það á leikskólum, hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum. Það segir okkur einfaldlega það að miðað við þær kröfur sem nútímasamfélag gerir um þjónustu við fjölskyldur, til þess að þær geti verið á vinnumarkaði og skilað sínu, þá þarf að gera betur við þessar stéttir í launum. Það er liður í stjórnarsáttmálanum að taka til endurmats laun þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Ég bind vonir við að það skili árangri, en hvað það gerist hratt er önnur saga. En það gleymist svo oft að atvinnulífið gæti ekki fúnkerað ef þessum störfum væri ekki sinnt og þessi þjónusta væri ekki í boði."

– Af hverju stendur til að færa Íbúðalánasjóð undir fjármálaráðuneytið?

"Það er ekki orðið að veruleika, þó að það sé í umræðunni. Íbúðalánasjóður getur verið mikill áhrifavaldur í þróun efnahagsmála og er með mestu skuldabréfaútgáfuna á vegum ríkisins. Þess vegna kemur það til skoðunar að færa hann undir fjármálaráðuneytið. En hinsvegar þarf að skoða ýmsa félagslega þætti sem lúta að sjóðnum áður en þetta skref er stigið."

– Er þetta skref í áttina að einkavæðingu?

"Nei, þetta felur ekki í sér neina stefnubreytingu varðandi Íbúðalánasjóð eða hlutverk hans."

– Settur verður á laggirnar samráðsvettvangur milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála? Hverskonar fyrirbæri er þetta?

"Þarna eiga að koma saman þeir aðilar sem hafa hvað mest áhrif á þróun efnahagsmála, þ.e. ríkisfjármálin, vinnumarkaðsmálin og auðvitað fjármál og framkvæmdir sveitarfélaga. Þetta eru allt miklir áhrifaþættir í efnahagsmálum. Ég hef lagt áherslu á að menn stilli vel saman strengi, því það er sameiginlegt hagsmunamál að ná niður vöxtum og verðbólgu fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið. Ég hef alltaf litið til þjóðarsáttarinnar árið 1990 sem mikilvægrar fyrirmyndar í því hvernig tekist var á við erfiða stöðu í efnahagsmálum. Við eigum að læra af því og passa upp á að gott samstarf og samstilling sé á milli þessara aðila. Hjá Írum er þetta formbundið samstarf og þær ákvarðanir sem þessir aðilar hafa komið sér saman um eru mörgu leyti galdurinn á bakvið írska efnahagsundrið."

Evrópumálin ekki svæfð

– Annar samstarfsvettvangur á að vera á milli stjórnarflokkanna um Evrópumálin. Er verið að svæfa þann málaflokk með því að vísa honum í nefnd?

"Ekki svæfa heldur búa til vaktstöð, eins og forsætisráðherra hefur lýst því. Við þurfum að standa vaktina og fylgjast með breytingum á vettvangi Evrópusambandsins og einnig endurmeta hagsmuni innanlands, þannig að við séum viðbúin ef við þurfum að stíga frekari skref í Evrópumálum. Það er alls ekki verið að svæfa málið. Auðvitað hefðum við í Samfylkingunni viljað ganga lengra, en við gerum okkur grein fyrir því að ekki verða stigin frekari skref í átt að ESB nema um það skapist nokkuð víðtæk pólitísk sátt og við verðum bara að sjá hvað setur í þeim efnum. Ég held að það sama eigi við um þetta mál og umhverfisverndarmálin, – tíminn vinnur með því."

– Hver er afstaðan til hvalveiða?

"Það er órætt mál á milli flokkanna, enda í eðli sínu ekki stórt mál. Í mínum huga þarf að taka það mál út úr tilfinningafarvegi og leggja á það kalt hagsmunamat."

– Þú hefur talað um að ríkisstjórnin þurfi að hafa hemil á þenslunni og að ná þurfi jafnvægi í efnahagsmálum, en á sama tíma talarðu um aukin ríkisútgjöld, til dæmis fjárfestingarátak í samgöngum um land allt?

"Já, við erum að leggja upp í fjögurra ára leiðangur. Það þarf að tímasetja þær ákvarðanir allar, hvort sem þær lúta að stórframkvæmdum, breytingum á skattkerfi eða öðru út frá stöðu efnahagsmála, þannig að við náum niður vöxtum, hemjum verðbólgu og minnkum viðskiptahalla.

En ég held að fjárfestingarátak í samgöngumálum geti ekki beðið lengur. Sá málaflokkur hefur liðið fyrir miklar stórframkvæmdir í virkjunum og stóriðju og þá þenslu sem hér hefur verið. Stjórnvöld hafa ekki viljað hella olíu á eldinn. En víða um land er þetta orðin spurning um líf og dauða byggðalaga, hvort þau hafi tilverugrundvöll og hvort íbúar þeirra geti búist við því að eiga sambærileg lífskjör á við það sem gerist hér á Suðvesturhorninu. Atvinnufyrirtæki munu ekki setja sig niður í byggðalögum sem ekki eru í vegasambandi."

– Er kominn verðmiði á stjórnarsáttmálann?

"Nei, það er ekki kominn verðmiði á hann. En margt af þessu, ef þú horfir yfir heilt kjörtímabil, eru ekkert óskaplega háar fjárhæðir. Og það er alltaf ofsögum sagt af tilkostnaðinum í velferðarþjónustunni. Ef það er hagvöxtur, þá verða til auknir fjármunir í samfélaginu og spurningin er hvernig menn ætla að forgangsraða þeim fjármunum."

– Og vísast skapar hluti af þessum útgjöldum tekjur, svo sem framlög til menntamála?

"Já, þetta eru ekki bara útgjöld. Ég nota stundum lýsinguna tekjuaukandi útgjöld," segir hún og hlær.

– Af hverju er tekin upp sú nýjung að gera rammafjárlög til fjögurra ára?

"Mér finnst það mjög mikilvægt til þess að fólk átti sig á tekju- og útgjaldarammanum þegar til lengri tíma er litið. Það á sérstaklega við þegar gerðir eru samningar eða ríkið skuldbundið inn í framtíðina í einstökum ráðuneytum. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga þann ramma sem einstök ráðuneyti hafa og allt sem stefnir út fyrir hann þarf þá að skoðast sérstaklega. Auðvitað eru rammafjárlög endurskoðuð árlega því forsendur breytast, en þetta er samt ákveðið stjórntæki."

Ísland ekki of lítið

– Þið viljið einnig efla eftirlitsstofnanir með viðskiptalífinu, bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið.

"Já, það hefur verið mjög ör þróun í viðskiptalífinu og á fjármálamörkuðum. Við þurfum að gæta þess að eftirlitsstofnanir ríkisins þróist í takt við það sem er að gerast á þessum mörkuðum, þannig að fjármálastofnanir okkar njóti trausts innanlands og utan. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir framþróun viðskiptalífsins að það sé tiltrú á að við stöndum vel að verki í þessum efnum."

– Er Ísland of lítið til að hægt sé að gera það með sómasamlegum hætti?

"Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar. Við tökum yfir regluverk frá öðrum löndum og erum ekkert að finna upp hjólið hér. En ég held að við hefðum ekki ráðið við þessi verkefni nema sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, því við höfum svo litla burði til að smíða allt þetta regluverk sjálf. Svo þarf líka að sjá þessum stofnunum fyrir hæfu starfsfólki og þeirri aðstöðu sem þarf til að þær geti rækt sitt hlutverk."

– Vantar mikið þar upp á?

"Ég held að það hafi átt sér stað ágætar breytingar á undanförnum tveim árum, en það er mikilvægt að búa þessum stofnunum þau skilyrði að þær hafi sérhæft starfsfólk sem getur tekist á við þessi mál og það séu engin hagsmunatengsl. Það er alltaf hættan í okkar litla samfélagi, því það þekkja allir alla."

– Þið ætlið einnig að siðvæða stjórnsýsluna með því að setja henni siðareglur.

"Það eru fyrst og fremst reglur um hvað má og hvað má ekki. Það getur tengst bæði upplýsingaskyldu ráðamanna um sín hagsmunatengsl og einnig því hvaða mörk séu sett varðandi gjafir, ferðir og annað slíkt. Við viljum freista þess að minnka þetta gráa svæði sem menn eru oft að hreyfa sig á. Margar starfsstéttir búa við þannig siðareglur og ekki er óeðlilegt að stjórnmálamenn og stjórnsýslan geri það líka."

– Það stendur til að gera athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða. Er það knýjandi mál í ljósi þeirrar stöðu sem komið hefur upp á Flateyri?

"Það er tímabært að meta heildstætt reynsluna af aflamarkskerfinu, bæði hvernig til hefur tekist að byggja upp fiskistofnana, sem hlýtur að vera aðalatriði í stjórn á fiskveiðum, og hinsvegar áhrifum sem það hefur haft á byggðir landsins. Auðvitað er ekki hægt að rekja ástæðuna fyrir fækkun í mörgum byggðalögum einungis til fiskveiðistjórnunarkerfisins heldur líka til margháttaðara breytinga á tækni og atvinnuháttum almennt, en það er eðlilegt að skoða hvaða mótvægisaðgerða er hægt að grípa til þegar svona breytingar verða."

– Er þetta ekki stundum eðlileg þróun?

"Margt af þessu, en nú getum við horft til baka og hugað betur að því hvaða afleiðingar það hafði þegar aflamarkskerfinu var komið á og heimilað frjálst framsal á fiskveiðiheimildum. Stórar framkvæmdir fara jafnan í umhverfismat og þó að þær geti átt rétt á sér, þá er hugað að mótvægisaðgerðum í slíkum tilvikum. Það hefði líka þurft þegar aflamarkskerfið var tekið upp á sínum tíma, en því var ekki sinnt. Aflamarkskerfið fól í sér mikla auðsuppsöfnun hjá ákveðnum aðilum meðan lífsbjörgin var tekin af öðrum. En það er langt um liðið síðan þetta gerðist og kannski of seint að fást um þetta núna. En ég held að það sé mikilvægt að leggja mat á þetta."

– Sumir hafa spáð ríkisstjórninni skömmum líftíma og horfa þá meðal annars til þess að það geti verið freistandi fyrir þig að leiða vinstri stjórn og verða fyrsta konan sem situr sem forsætisráðherra. Það mætti jafnvel líta á það sem skref í jafnréttisbaráttu?

"Það er mikilvægt fyrir kvennabaráttuna og líka fyrir flokk af þessari stærðargráðu að eiga þess kost að leiða ríkisstjórn. Hinsvegar hef ég engan áhuga á því persónulega að setjast í slíkt forsæti ef ég hefði ekki fulla trú á að ég næði árangri með þeim samstarfsaðilum sem um væri að ræða. Þá væri betur heima setið en af stað farið. Það væri ekki gott til afspurnar ef fyrsta skiptið sem kona og Samfylkingin væru í forsæti væri feigðarflan. Það er hætt við að sagan myndi dæma það heldur illa. Þannig að það verður að meta raunsætt þá stöðu sem er uppi hverju sinni.

Og svo er hitt að ég muni rjúka til á miðju kjörtímabili og fara í nýja ríkisstjórn. Forsætisráðherra getur líka myndað aðra ríkisstjórn ef því er að skipta; hann gæti hent okkur út og tekið Vinstri græna inn. En allt er þetta óráðshjal, því ef maður ákveður að efna til samstarfs, þá er það eins og að ganga í hjúskap, maður ætlar að láta það verða farsælt og endast. Það er ekki farsælt að vera með hugann við að hinn ætli sér að halda framhjá. Það gengur aldrei upp að hugsa þannig."

– Þegar maður les stjórnarsáttmálann fær maður ekki varist þeirri hugsun að hann liti öðruvísi út ef VG hefði komið að málum. Hefur miðjan færst í íslenskum stjórnmálum, þannig að Samfylkingin á jafnvel meira sameiginlegt með Sjálfstæðisflokknum en Vinstri grænum?

"Fyrst vil ég segja að hið nýja í íslenskri pólitík er að nú er til orðinn skýrt skilgreindur öflugur jafnaðarflokkur að norrænni hefð og sá flokkur er Samfylkingin. Og auðvitað má skilgreina norrænu jafnaðarflokkana sem miðjuflokka en þeir hafa sterkar hugmyndalegar rætur og mikla festu í grunngildum jafnaðar og frelsis. Á leikvelli íslenskra stjórnmála erum við í þeirri stöðu að við eigum ákveðið sniðmengi með Sjálfstæðisflokknum og líka með Vinstri grænum. En við erum jafnaðarflokkur og hjá okkur eiga allir jafnaðarmenn og konur heima og ég veit að mörgum þeirra finnst hægri og vinstri ekki vera einu ásarnir í pólitík. Margt af því sem við lögðum áherslu á í þessari kosningabaráttu fól í sér samstarfsfleti við Sjálfstæðisflokkinn. Við höfum til dæmis alltaf verið opin fyrir mismunandi rekstrarformum í opinberri þjónustu, en við höfum alltaf lagt ríka áherslu á að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni óháð efnahag. Við erum ekki kreddufull hvað rekstrarform varðar. Það er bara eðlileg þróun að reksturinn sé ekki alltaf í höndum opinberra aðila. Að því leyti stöndum við nær SjálfstæðisflokknumSjálfstæðisflokknum, þó að við getum ekki tekið undir með þeim Sjálfstæðismönnum sem trúa blint á samkeppni og einkarekstur."

– Nú tapaði Samfylkingin tveim þingsætum í kosningunum og lengi var útlit fyrir að tapið yrði meira. Hvernig skýrirðu þá tilvistarkreppu sem Samfylkingin lenti í?

"Ástæðan var að hluta til sú að hin pólitíska umræða fór á tímabili öll fram á forsendum umhverfismála og var okkur að mörgu leyti erfið. Þó að við séum komin með skýra stefnu í umhverfismálum, þá er kjarninn í okkar pólitísku hugmyndum klassísk jafnaðarstefna og hún náði einfaldlega ekki í gegn um tíma. Það má líka segja að við höfum sjálf ekki verið búin að finna taktinn í umræðunni. Við gerðum of mikið af því að taka þátt í umræðunni á forsendum annarra í stað þess að gera það á eigin forsendum.

En við unnum vel í okkar málum í vetur og þess vegna var ég róleg þó að gæfi svona á bátinn. Það fór mikil vinna fram innan flokksins og við komum vel undirbúin á landsfund. Þar fundum við að við vorum komin algjörlega í kjarnann okkar, búin að útfæra hann í öllum málaflokkum og gátum tekið þátt í hvaða umræðu sem var full sjálfstrausts. Ég tel að við höfum náð ákveðnu hugmyndalegu frumkvæði í kosningabaráttunni og ég veit af samtölum við ótal marga hversu traustum fótum mínu fólki finnst það nú standa í útfærðri stefnu flokksins á öllum sviðum sem á reynir. Við verðum hins vegar að hafa í huga að þetta er ungur flokkur sem hefur verið að bræða sig saman og stóð ekki nægilega föstum fótum á heildstæðum hugmyndagrunni, en nú er sameiningarferlinu lokið og flokkurinn er orðinn fullorðinn sem jafnaðarflokkur Íslands. Allt hefur sinn tíma."

Ekki spurning um líf og dauða

Ingibjörg Sólrún bætir við íhugul:

"Það er merkilegt hvernig fylgi er. Flokkar geta allt í einu fengið mikið fylgi út á einstök mál, þó að þeir séu kannski ekki komnir með fastan hugmyndalegan kjarna. Ég held að það sé kannski vandi Vinstri grænna og ástæðan fyrir því að þeim tókst ekki að halda því fylgi sem þeir fengu í könnunum að það var byggt í kringum tilfinningasveiflu í samfélaginu. Þegar hana lægði, þá vantaði grunninn."

– Hvaða áhrif hefði það haft á þína stöðu sem formanns ef flokkurinn hefði ekki komist í ríkisstjórn?

"Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst mikilvægt að flokkur eins og Samfylkingin freisti þess að komast í ríkisstjórn og hafa áhrif á stjórnvaldsákvarðanir. Það er verkefni stórra flokka og auðvitað krafa kjósenda, en mér fannst það aldrei vera spurning um líf og dauða. Við hefðum alltaf orðið kraftmikill flokkur í stjórnarandstöðu og verið ríkisstjórn erfiður ljár í þúfu, hvort sem það hefði verið Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir eða Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn. Það held ég að liggi í augum uppi. Síðan hefði það bara verið flokksmanna að meta það hvernig þeir vildu hafa forystuna í flokknum. Það er svo oft búið að spá fyrir um pólitískt andlát mitt. Ég er hér enn," segir hún og hlær.

– Saknarðu Davíðs?

"Nei, Davíð er auðvitað litríkur karakter og það er alltaf mikið að gerast í kringum hann. En ég held hinsvegar að það hafi þróast of mikil átakastjórnmál í kringum hann."

– Hvað vantar í stjórnarsáttmálann?

"Eflaust ýmislegt. Það má t.d. segja að það hefði mátt fjalla eitthvað um lýðræðismálin almennt og lýðræðisþróunina. Það þarf að þróa stofnanir samfélagsins okkar í takt við nýjar lýðræðishugmyndir og breytta tímaog þá er ég ekki síst að hugsa um samspil ríkisstjórnar og Alþingis, skipan hæstaréttar og fleira. En ég held að það sé eitthvað sem við verðum að vinna með á kjörtímabilinu. Það er alls ekki allt skrifað inn í þennan stjórnarsáttmála, hann lýsir meginmarkmiðum og fjölmörg mál munu koma upp á kjörtímabilinu sem við tökumst á við þegar þar að kemur."

– Hver verður forseti Alþingis eftir tvö ár?

"Það er alveg óákveðið. Það verður einhver góð manneskja með reynslu."

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.