Viktoría Þorvaldsdóttir fæddist 23. apríl 1937 í Reykjavík.

Útför hennar fór fram í Ríkissal Votta Jehóva í Reykjavík laugardaginn 12. maí og var jarðsett í Stokkseyrarkirkjugarði.

Ég ákvað að rita nokkrar línur til að minnast ömmu minnar sem lést eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Ég man þegar ég var lítil þá var hvergi betra að koma en til ömmu og afa á Stokkseyri og það var margt hægt að bralla þar. Alltaf var amma mín þolinmóð við þessa tvo villinga úr Þorlákshöfn og síðar Reykjavík.

Ég man sérstaklega eftir því þegar við stálumst inn í svefnherbergi hjá ömmu og afa og stálumst til að hoppa á rúminu þeirra.

Þvílík skemmtun það var þangað til að það brotnaði, og ég man að amma reyndi að skamma óþekktarormana en gat það varla fyrir hlátri. Í eldhúsinu hjá ömmu var skúffa þar sem leyndust ótrúlegustu fjársjóðir og gat ég eytt mörgum klukkutímum í að skoða allt sem þar var að finna og aldrei þreyttist amma á að svara spurningum mínum um hvern einn og einasta hlut.

Alltaf þegar ég kom austur til ömmu og afa fann ég ást og hlýju streyma frá ömmu og þeim báðum, þannig að ég hlakkaði alltaf til að koma aftur þó að ég væri nýkomin frá þeim. Ég þakka fyrir það að amma mín skuli hafa getað verið viðstödd giftingu móður minnar í árslok 2006 en þá var hún strax orðin mjög veikburða.

Ég þakka einnig fyrir að hafa getað átt með henni stund þremur vikum áður en hún lést því að ég gerði mér alls enga grein fyrir hversu alvarleg veikindi hennar voru.

Elsku afi, mamma, Valdi, Villi, Gunnar, Bjarni og Signý, ég votta ykkur samúð mína á þessum erfiðu tímum.

Viktoría Júlía Laxdal.