Kristjana Sigurðardóttir Sigurz fæddist í Reykjavík 18. ágúst 1922. Hún lést 10. maí 2007.

Foreldrar Kristjönu voru Guðbjörg J. Skúladóttir, f. 12.2. 1896 á Ytra-Vatni, Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði, d. 1957, og Sigurður F. Sigurz, f. 2.6. 1895, af Borgarabæjarætt í Reykjavík, d. 1967. Börn þeirra í aldursröð eru: Skúli Eggert, d. 1946, Kristjana, Áslaug, Margrét, d. 1994, Sigurður, d. 1992, og Ingólfur, d. 1994.

Kristjana giftist 12.9. 1942 Lárusi Péturssyni, lögfræðingi, f. 1918. Hann lést 1947. Barn þeirra er Guðrún Ólafía, f. 5.9. 1947, gift Christopher Bo Bramsen.

Kristjana giftist Stefáni Íslandi 6.10. 1950 í Kaupmannahöfn, en þau skildu eftir rúmlega 20 ára hjúskap. Þeirra sonur er Richard, f. 11.12. 1951, kona hans er Nanna Islandi.

Kristjana giftist Stefáni Jónssyni, fréttamanni, rithöfundi og alþingismanni, 1983, en Stefán lést 1990.

Kristjana varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1941. Hún vann hjá Sjóvá hér heima, síðar hjá SÍS í Kaupmannahöfn og Eimskipum þar í borg. Hún var aðalgjaldkeri Norræna menningarmálasjóðsins í 15 ár. Er til Íslands var komið sem ritari hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

Barnabörn hennar eru Stefán Lárus, Kristín María, Kristiana Therese, Jón Stefán og Vilhelm Pétur og langömmubörnin eru sex.

Kristjana var kvödd í kyrrþey 16. maí frá Fossvogskapellu að eigin ósk.

Ég kveð með söknuði Kristjönu systur mína. Fyrir nokkrum dögum vorum við tvær eftir af sex systkina hópi. Ég tel að við höfum verið samrýnd og góð systkin. Áttum yndislega og hugulsama foreldra. Elskuleg mamma okkar var alltaf til staðar fyrir okkur. Faðmaði okkur áður en farið var í skólann og aftur vorum við föðmuð er heim kom. Las með okkur ef með þurfti og hlýddi okkur yfir. Það var helst Sjana sem ekki þurfti hjálp. Hún var góður námsmaður.

Sem börn sváfum við tvær í sama rúmi og sofnuðum í faðmi hvor annarrar eftir að hafa þulið allar bænirnar.

Hún sýndi fljótt hvað í henni bjó. Sem barn var hún sívinnandi. Við ólumst upp við gott atlæti, ekki bara heima. Stórfjölskyldan á Bræðraborgarstíg 1, sem kallað var Sveinsbakarí, var okkar annað heimili – bara hlaupið yfir götuna. Þar var Steinunn föðursystir og Sveinn Hjartarson og amma Margrét sem og öll börnin, sem þau ólu upp. Amma kenndi öllum barnabörnunum sínum að lesa.

Sjana giftist ung Lárusi sínum. Varð ekkja 25 ára og var dóttir þeirra Gunna Lóa þá aðeins fimm mánaða. Kristjana stóð ekki ein. Tengdaforeldrarnir, Pétur og Ólafía í Hofi, og Einar mágur hennar dýrkuðu barnið. Ekki var hún síðri hún Huld – eða Hulla í Hofi – sem var bústýra til margra ára á heimilinu. Hún tók þeirri litlu opnum örmum.

Sjana fór til Kaupmannahafnar, eftir lát Lárusar, til náms. Gunna Lóa varð eftir í umsjá áðurnefndra, kom til móður sinnar er hún gekk að eiga Stefán Íslandi – og varð kjördóttir hans.

Þegar hún nálgaðist seinni hluta ævinnar kynntist hún Stefáni Jónssyni fréttamanni. Þau gengu í hjónaband. Stefán lést eftir sjö ára sambúð. Í Kaupmannahöfn vann Sjana hörðum höndum og var virt af samstarfsfólki, sem sendi henni kveðju víða að.

Hún elskaði afkomendur sína. Þau voru hennar kjölfesta. Hún lifði svo sannarlega fyrir þau. Hún var vakin og sofin yfir velferð þeirra. Barnabörnin voru dugleg að skrifa henni. Hægt er að vitna í óteljandi bréfasendingar – sem hún varðveitti í gegnum árin – í stórri skjalamöppu. Þar segja þau frá lífi sínu, námi og starfi.

Hún fékk að sjá tvö langömmubörn sín, tíu mánaða dreng og þriggja mánaða telpu, sem þær Kirstín og Kristjana komu með til Íslands og voru hjá ömmu síðustu daga lífs hennar. Þótt amman væri orðin mikið veik vissi hún af þeim og gladdist er hún fékk þau í fangið. Börn Kristjönu hringdu daglega til hennar frá Kaupmannahöfn. Guðrún vakti yfir henni síðustu sólarhringana.

Tengiliður fjölskyldunnar hér heima er elskulegur bróðursonur, Skúli Eggert Sigurz, og hans góða kona, Ingunn, sem hafa sýnt ómælda hjálpsemi og fórnfýsi. Ekki má gleyma að þakka Kitty Johansen, mágkonu minni, alla elsku í garð Kristjönu. Þessum vinum verður aldrei nógsamlega þakkað.

Að lokum, hugheilar þakkir til hjúkrunarfólks í Skógarbæ sem hlúðu að henni með miklum sóma.

Ég kveð þig með trega, elsku systir mín.

Þín

Áslaug.