27. maí 2007 | Minningargreinar | 383 orð | 1 mynd

Elín Kristjánsdóttir

Elín Kristjánsdóttir frá Fellsseli í Köldukinn í S-Þingeyjasýslu var fædd 25. nóvember 1925 . Hún lést 23. mars sl. á Landspítalanum í Fossvogi.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Ingjaldsson, f. 10. mars 1893, d. 4. október 1973, og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, 19. maí 1895, d. 5. desember 1927. Elín átti eina systur, f. í janúar 1927, d. 29. ágúst 1927. Elín ólst upp hjá móðurömmu sinni, Helgu Sörensdóttur, f. 14. desember 1860, d. 27. júlí 1961, og föður sínum sem síðar kvæntist Önnu Kristinsdóttur. Eftir barnaskólanám hóf hún nám við Menntaskólann á Akureyri. Elín vann um tíma í Stjörnuapóteki. Hún flutti til Reykjavíkur um 1945 þar sem hún bjó til æviloka. Hún vann við afgreiðslustörf alla sína starfsævi.

Útför hennar fór fram 30. mars sl. í kyrrþey.

Ella mín.

Mig langar að kveðja þig með nokkrum orðum. Ég held þú hefðir ekki viljað hafa þau mörg. Þú varst ekki kona margra orða en þau orð stóðu örugglega. Við höfum þekkst frá því ég man eftir mér og það voru góð kynni. Það var gott að leita til þín um ýmislegan fróðleik. Þú last dagblöðin spjaldanna á milli, ég las kannski meira fyrirsagnirnar. Þannig var oft gott að geta hringt og fengið nánari skýringar á ýmsum málefnum. Ekki var komið að tómum kofunum hjá þér þegar um ártöl var að ræða. Kannski varstu ekki alveg viss, þá kannaðir þú málin betur og hringdir með nánari upplýsingar. Þú vildir hafa allt rétt. Með þinni hógværu nærveru studdir þú mig og mína þegar áföll dundu yfir, fyrir það vil ég þakka.

Seint á síðasta ári fór að bera á lasleika hjá þér og tóku þá við ferðir til lækna og síðan innlögn á sjúkrahús. Heim komstu fyrir jólin til kisanna þinna og blómanna. Kisanna þinna sem þér þótti svo vænt um og voru þínir bestu félagar. Þú gast dekrað við kisurnar þínar í dálítinn tíma.

Í byrjun mars fór ýmislegt að angra þig. Um miðjan mars fórum við síðustu ferðina á bráðamóttökuna í Fossvogi. Þaðan varð ekki aftur snúið. Þú kvaddir þetta líf 23. mars. Ég er þakklát fyrir að hafa getað verið með þér í þessum veikindum. Þú kallaðir mig stundum "einkabílstjóra" og það vildi ég svo gjarnan vera.

Ég kveð þig Ella mín með kærri þökk fyrir öll árin. Guð geymi þig.

Þín vinkona

Guðbjörg.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.