sigurdur.aegisson@kirkjan.is: "Upp er runninn afmælisdagur alheimskirkjunnar, en um atburði tengda honum má lesa í 2. kafla Postulasögunnar. Sigurður Ægisson birtir af þessu tilefni ljóð síns gamla læriföður, sr. Jónasar Gíslasonar, fyrrverandi vígslubiskups í Skálholti."
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og aðsteðjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir Heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

Hver er

tilgangur lífsins?

Ætli þetta sé ekki

ein elzta spurning

mannsins?

Heilög ritning

flytur svarið.

Í upphafi

skapaði Guð

himin og jörð!

Og hann skapaði mann

eftir sinni mynd

til samfélags við sig!

Maðurinn einn

gat trúað á Guð!

Hann var frjáls

og gat valið

að lifa Guði,

eða hafna honum!

Ekki varð komizt

hjá áhættu

sköpunarinnar,

nema svipta

manninn frelsinu,

en þá hefði

sköpunin mistekizt!

Guð átti enga

aðra leið

til samfélags

við sköpun sína

byggða á kærleika!

Vér vitum

hvernig fór.

Maðurinn

hafnaði Guði

og settist sjálfur

í sæti hans.

Syndin

kom í mannheim

og maðurinn hvarf

burt frá Guði.

Margir spyrja:

Hví greip Guð

ekki inn?

Vissulega

greip Guð inn,

en kærleikurinn

beitir aldrei valdi.

Guð gaf fyrirheit

um frelsara

er opnaði manninum

nýja leið

til samfélags

við Guð.

Í fylling tímans

fæddist Jesús

meðal vor,

sjálfur kærleikur Guðs!

Það sást glöggt,

er hann gaf líf

sitt á krossi

og reis

upp frá dauðum

oss til lífs.

Þetta laukst upp

fyrir postulunum

á hvítasunnuhátíðinni,

er þeir fylltust

Heilögum anda,

gjörði Jesúm

vegsamlegan!

Þeir fóru þegar

að segja öðrum

frá Drottni sínum

og frelsara!

Þeir fylgdu hinzta

boði hans.

Guð stofnaði

kirkju sína

hér á jörð,

samfélag þeirra,

er trúa á hann.

Hver er

tilgangur lífsins?

Vér eigum að lifa

í samfélagi

við skapara vorn!

Hefur það lokizt

upp fyrir oss?

Hefur andi Guðs

fengið að gjöra

Jesúm Krist

vegsamlegan

fyrir oss?

Megi svo verða

á hátíð Heilags anda!

Þá eignumst vér

gleðilega

hvítasunnuhátíð!

sigurdur.aegisson@kirkjan.is