Þjóðminjasafn Íslands Um 96% þeirra sem svöruðu könnun um safnið lýstu sig ánægða með starfsemi þess.
Þjóðminjasafn Íslands Um 96% þeirra sem svöruðu könnun um safnið lýstu sig ánægða með starfsemi þess. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðminjasafn Íslands hefur átt góðu gengi að fagna síðan það var opnað aftur eftir gagngerar endurbætur. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð um það sem er í deiglunni í starfsemi þess um þessar mundir.
Í Róm er saga og minjar hugstætt viðfangsefni venjulegum ferðamönnum – hvað þá þeim sem gert hefur minjavörslu að ævistarfi. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður sagðist hafa leitt hugann að viðhorfum til minja á Íslandi þegar hún í vikunni gekk um götur Rómaborgar, oftar en ekki í návígi ævafornra bygginga og merkrar sögu.

"Það er áhrifaríkt að komast svona í snertingu við söguna, að skoða hið undurfagra Panþeon og rölta um Forum Romanum með Colosseum í augsýn. Þarna fléttast skemmtilega saman ný mannvirki og ýmsar merkar minjar. Þetta varð mér tilefni ýmissa hugleiðinga um aðstæður okkar, uppbyggingu og minjavörslu.

Okkar saga er ekki síður athygli verð. Ég hef tekið þátt í alþjóðlegu starfi á sviði minjaverndar og safnastarfs. Við Íslendingar eigum okkur merkilega sögu og minjar sem sannarlega eru ekki síður einstakar í alþjóðlegu samhengi," segir Margrét þegar blaðamaður sækir hana heim.

Margrét er nýkomin af fundi þar sem fjallað var um Evrópusamstarf í tengslum við minjavörslu og rannsóknir.

"Við erum alltaf að koma nær evrópsku og alþjóðlegu samhengi í okkar starfi sem er mikilvægt. Við höfum þar mikið að læra en um leið getum við miðlað af reynslu okkar." segir hún.

Nýjar leiðir – nýjar áherslur

Í fyrra fékk Þjóðminjasafn Íslands viðurkenningu frá Evrópuráði safna sem eitt besta safn Evrópu árið 2006 sem var merkur áfangi.

"Þau söfn sem hafa fengið slíka viðurkenningu mynda samráðsvettvang Best in Heritage in Europe og hittast reglulega til samráðs. Í haust er áætlað að hittast í Slóveníu og þá verður Þjóðminjasafn Íslands sérstaklega kynnt af þessu tilefni," segir Margrét. "Til að fá slíka viðurkenningu er mikilvægt að koma með nýjar áherslur, fara nýjar leiðir í safnastarfinu, sem getur verið til fyrirmyndar í evrópsku samhengi. Markmiðið er að hvetja til framfara, sem geta auðgað samfélag hvers safns. Góður árangur íslenskra safna hefur vakið athygli sem er ánægjulegt fyrir menningarstarf og ferðaþjónustu á Íslandi.

Þau söfn sem fengu viðurkenningu núna í ár eru einmitt þau söfn sem farið hafa nýjar leiðir í starfsemi sinni. Sérstaka athygli vakti hollenskt safn, Het Dolhuys í Haarlem, sem fékk í ár sömu viðurkenningu og Þjóðminjasafn Íslands í fyrra en það fjallar um geðveiki á mjög athyglisverðan hátt og er tilgangurinn einmitt að slá á fordóma og taka þátt í og opna umræður um þetta málefni. Söfnin sem þarna er vakin athygli á eru því afar ólík og fjölbreytt.

Að fylgjast með því sem skarar fram úr í Evrópu er sannarlega gagnlegt og hvetjandi."

Íslenskur menningararfur

Eru minjar okkar eins merkilegar og gamlar minjar Evrópu t.d.?

"Íslenskur menningararfur, s.s. mannvirki, safnkostur og íslenski torfbærinn er ekki síður merkilegur en sögufrægar fornar byggingar erlendis þar sem menning á sér eldri rætur í öðru samhengi. Minjagildi er afstætt og verður að meta í samhengi við aðstæður hverju sinni. Það er mikilvægt að Íslendingar komist yfir þá minnimáttarkennd sem stundum hrjáir okkur á þessu sviði sem hefur oft komið niður á varðveislu menningararfs og umgengni um hann. Það á við þegar fjármagn er frekar sett í magn en gæði, stundum með vanhugsuðum hætti er verið að búa til eitthvað í stað þess að hlúa að raunverulegum og sérstæðum minjum sem við eigum sem auðvitað þarf að varðveita af umhyggju og virðingu – svo sem torfbæina okkar gömlu.

Þjóðminjasafnið, sem er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu, ber ábyrgð á yfir 40 húsum víða um land. Í hópi þeirra húsa eru torfbæirnir, torfkirkjur, gamlar timburkirkjur, timburhús og steinhlaðin hús. Að halda þessum húsum við er fjárfrekt og flókið verkefni ef vel á að vera. Það hefur verið í gangi átak í að koma þessum húsum á viðhaldsstig samkvæmt langtímaáætlun. Nýlega var lokið viðgerðum á Reykholtskirkju, Sauðaneshúsinu og verið er að ljúka viðgerðum á Nesstofu og Litlabæ í Skötufirði. Einnig hefur verið unnið að viðgerðum í Laufási, Glaumbæ, Galtastöðum og víðar.

Þróun aðferðafræði

Víða þarf að gera átak, s.s. á Keldum og Bustarfelli í Vopnafirði. Eitt stærsta verkefnið sem unnið er að um þessar mundir er menningarlandslagið á Núpsstað. Við erum sífellt að þróa aðferðafræði við varðveislu torfbæjanna, sem miðar að því að varðveita sem best uppruna og minjagildi. Það hefur að mínu mati stundum verið gert of mikið af að rífa niður og endurbyggja torfhúsin frá grunni.

Þetta er aðferðafræði sem er í stöðugri þróun. Til þess að torfbæirnir missi ekki gildi sitt sem einstæðar minjar í alþjóðlegu samhengi verður að gæta þess að standa vörð um merki sögunnar. Á Núpsstað hefur með þátttöku margra hæfra aðila verið stigið mikilvægt framfaraskref í viðhaldi torfhúsa.

Slíkt verkefni verður að nálgast með þverfaglegum hætti, í samráði við forverði, handverksmenn, ábúendur, arkitekta og minjafræðinga almennt hérlendis sem erlendis. Þetta er afar mikilvægt ef við ætlum að eiga möguleika á því að fá torfbæina okkar viðurkennda sem heimsminjar. Á Núpsstað höfum við einnig getað ráðfært okkur við systkinin frá Núpsstað, Eyjólf Hannesson, sem lést árið 2004, og núlifandi ábúanda, Filippus Hannesson og systur hans Margréti sem muna hátt í öld aftur í tímann og ólust upp í torfbænum.

Á Núpsstað má sjá hvernig náðst hefur að gera við húsin af natni og virðingu fyrir sporum sögunnar, forvörslusjónarmið heiðruð og handverkið vandað og úthugsað. Nýlega var lokið við viðgerð tveggja húsa með þessum hógværa hætti, sem hefur verið ánægjulegt að fylgjast með. Þar eiga þeir sem komið hafa að verkefninu hrós skilið fyrir vandaða vinnu, en verkefninu er stjórnað af sérfræðingum Þjóðminjasafnsins í góðri samvinnu við húsafriðunarnefnd, sem einnig kemur að viðhaldi annarra húsa í eigu safnsins."

Mikilvæg hús í miðbænum

Hvað segir þú um húsin sem brunnu fyrir skömmu í miðbæ Reykjavíkur?

"Þar er um að ræða einhver allra elstu hús sem við Íslendingar eigum og eru frá upphafi þéttbýlismyndunar í Reykjavík. Það er ómetanlegt að halda í slík spor sögunnar. Mér finnst þannig mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir gildi þessara húsa. Þegar þannig hús eru látin víkja getur orðið óbætanlegt tjón sem er svolítið eins og að "missa minnið", eins og einhver orðaði það. Það er þegar búið að rífa of mikið. Við þurfum einnig að staldra við á Laugaveginum og ganga ekki of hart fram í niðurrifi.

Ásýnd húsa og ástand má bæta, en oft hefur húsunum verið illa haldið við og breytt ósmekklega. Ég er ósammála þeim málflutningi að umrædd hús á horninu við Lækjartorg séu ónýt. Það er meira eftir en ætla mætti, þrátt fyrir brunann, og því ber að mínu mati að gera við þau með faglegum hætti – það er ekki að "byggja fornleifar"."

Er þar ekki við ramman reip að draga í þessum efnum?

"Ég held ekki, það er mat margra að halda verði í byggingararf okkar, sem auðgar umhverfið. Ég tel að aðrir hagsmunir hafi of mikið ráðið ferðinni í þessum efnum. Það er þegar búið að rífa gríðarlega mikið af gömlum húsum í Reykjavík á þeim forsendum að nýta þurfi lóðirnar betur. En með því er oft verið að fórna annars konar hagsmunum og oft miklum menningarverðmætum. Núna eru bara örfá hús eftir frá 19. öld og þessi hús eru afar sérstök.

Húsin sem hér um ræðir hafa mjög mikið sögulegt og umhverfislegt gildi. Þau ber að varðveita og halda í þau og styrkja samhengi annarra gamalla húsa í nágrenninu, s.s. Stjórnarráðsins og Bernhöftstorfunnar. Það á einnig við um samhengið við hafnarsvæðið og uppbygginguna þar. Má sjá fyrir sér áhugaverða heildarmynd á miðbænum ef vandað verður til allra þessara þátta. Með nálgun sem byggist á gæðum, manneskjulegu umhverfi og virðingu fyrir sögunni í jafnvægi við vandaða uppbyggingu þar sem hún á við, væri hægt að skapa mjög skemmtilega heildarmynd á þessum viðkvæma og mikilvæga stað í miðborginni.

Ég tel því hiklaust að það eigi að gera við þessi hús og það með viðeigandi hætti. Það þarf að gera við húsin þannig að upprunalegt útlit þeirra, hlutföll og fegurð njóti sín. Á sínum tíma voru flutt hús í Árbæjarsafn sem kannski hefðu betur verið höfð kyrr á sínum stað, svo sem Lækjargata 4. Þau þurftu að víkja, vegna uppbyggingar, þóttu hrörleg og menn sáu ekki gildi þeirra í sínu upprunalega umhverfi, en sáu síðan eftir þeim þegar búið var að gera þau upp með réttum hætti. Þá heyrast oft raddir um að flytja þau til baka. Það á ekki að þurfa eldsvoða og illa heppnaðar breytingar til þess að menn átti sig á þeim verðmætum sem í húfi eru og þá kannski of seint. Fólk þarf auðvitað að taka við sér – og halda í ræturnar í miðbænum, hlúa vel að gömlu húsunum þar og hafa sögu þeirra sýnilega og þannig skapa umhverfi sem fólki líður vel í. Það þýðir ekki að það geti ekki átt sér stað uppbygging, það þarf bara að gæta að jafnvæginu og vanda til verka."

Heldur þú að það geti auðgað mannlíf í miðbænum?

"Það er ekki spurning. Síðan mætti vinna að því að gera Lækjartorg hlýlegra og ganga vel frá umhverfi húsanna, görðum og gönguleiðum á milli húsa. Athyglisverðar eru einnig hugmyndir um að nýta hús héraðsdóms öðruvísi, þannig að þar væri lífleg starfsemi."

Viðey er einstök eins og hún er

Hvað um hugmyndir sem komið hafa fram um að flytja húsin í Árbæjarsafni út í Viðey?

"Margt er skemmtilegt við hugmyndina, en annað langsótt og jafnvel óraunsætt. Viðey er líka einstök eins og hún er, en bæta mætti samgöngur þangað. Einnig mætti sjá fyrir sér betri tengingu milli Árbæjarsafnsins og Elliðaárdalsins. Þetta hefur verið mín skoðun lengi. Gömlu húsin sem hafa verið endurbætt á safnsvæðum og undir eftirliti húsafriðunarnefndar eru góðar fyrirmyndir fyrir þá sem vilja lagfæra gömul hús rétt og fagmannlega."

Eru til teikningar og heimildir um upprunalegt útlit húsanna sem brunnu?

"Já, það eru til heimildir og fagkunnátta til þess að gera vel. Endurbætur á þessum húsum mætti vinna í samræmi við nýja stefnumörkun í mannvirkjagerð, sem nýlega kom út á vegum menntamálaráðneytis, en þar er lögð áhersla á gæði og virðingu fyrir minjum og viðkvæmu umhverfi. Atburðir eins og bruni þessara gömlu húsa í miðbænum hrista upp í viðhorfum fólks og ætti að leiða til vitundarvakningar. Það er heldur ekki sama hvaða starfsemi er í gömlum húsum, hvernig gengið er um þau og hvernig þeim er breytt."

Hvað er framundan?

Hvað líður Þjóðminjasafni og starfinu þar?

"Nýlega var gerð skoðanakönnun um viðhorf almennings til safnsins eftir að það var opnað aftur árið 2004 að loknum viðamiklum viðgerðum og flóknum undirbúningi. Í könnuninni kom fram að 96% svarenda voru mjög ánægð eða ánægð með hvernig til hefði tekist. Við erum afar þakklát fyrir þetta. Fleiri mættu þó leggja leið sína í safnið, aðeins þriðjungur þjóðarinnar hefur komið þangað eftir að það var opnað á ný. En margir koma þó aftur og aftur. Ekki spillir að við erum með besta kaffið í bænum, en Kaffitár rekur kaffihúsið hjá okkur. Einnig er rekin verslun sem laðar að gesti, boðið upp á reglulega viðburði, fyrirlestra og hádegisleiðsögn um sýningar. Þetta er eitt af því sem talið var mikilvægt að mati Evrópuráðs – safn með fjölbreytta þjónustu við safnagesti. Við bjóðum upp á leiðsögn um safnið, það skiptir miklu máli að bjóða upp á slíka þjónustu. Við eigum m.a. gott samstarf við Sagnfræðingafélagið sem heldur áhugaverða fyrirlestra einu sinni í viku, við eigum trygga gesti sem sækja þessa tilbreytingu í hádeginu og fá sér hressingu í leiðinni."

Hvað um nýjar sýningar?

"Grunnsýningin er grunnur sýningarstarfsins en margvíslegar sérsýningar í Bogasal og Myndasal taka á fleiri þáttum. Við höfum staðið fyrir mörgum ljósmyndasýningum í Myndasalnum – þar er hraðasta "tempóið" okkar. Sýndar eru bæði gamlar ljósmyndir og nýjar, íslenskar og erlendar. Einnig erum við með tvær nýjar sýningar í Bogasalnum á ári. Í Myndasalnum má sjá sýninguna Auga gestsins með ljósmyndum frá Íslandsferðum norsks útgerðarmanns og sýninguna Send í sveit og í Bogasalnum var nýlega opnuð sýning – Leiðin á milli, þar sem eru innsetningar sem unnar eru út frá safnkosti Þjóðminjasafnsins. Í haust verður svo opnuð áhugaverð sýning um Bjarnastaðahlíðarfjalirnar, sem er árangur af forvörslu og rannsóknum á hinum elstu listaverkum okkar. Gerð sýninganna og tilheyrandi útgáfa er að stórum hluta styrkt með styrkjum og minningarsjóðum, m.a. Minningarsjóði Ingibjargar G. Johnson og nýstofnuðum minningarsjóði Philips Verall, sem arfleiddi Þjóðminjasafnið að umtalsverðri upphæð. Slíkur stuðningur er ómetanlegur og gerir okkur kleift að bjóða upp á vandaðri sýningar og fjölbreyttari. Síðan er í undirbúningi sýning þar sem kynntar verða helstu niðurstöður fornleifarannsókna, sem styrktar voru með Kristnihátíðarsjóði, en fornleifarfræðingar hafa náð afar góðum árangri í því mikilsverða átaksverkefni. Án efa mun ýmislegt varpa nýju ljósi á söguna, sem áhugavert verður að sjá.

Spennandi verkefni!

Svo er annað spennandi verkefni í deiglunni, en safnstjórar þjóðminjasafna á Norðurlöndum hittast árlega til viðræðna og samstarfs. Þjóðminjasafn Íslands hefur átt í viðræðum við Nordiska museet í Stokkhólmi. Þar eru margvíslegir íslenskir munir sem safnað var hér á 19. öld og fluttir til Svíþjóðar í tilefni af opnun safns í Stokkhólmi sem átti að endurspegla norræna menningu. Þangað fóru hundruð gripa sem skráðir voru um 1930 af þáverandi þjóðminjaverði, Matthíasi Þórðarsyni. Á skráningunni sést að um er að ræða áhugavert efni sem ekki hefur verið mikið rannsakað og geymt hefur verið í geymsluhúsnæði safnsins. Við höfum nýlega skrifað undir samning um að fá þetta efni af hent til frambúðar, 800 gripi, margir þeirra eru mjög merkir, svo sem reiðtygi, útskurður, þjóðbúningar, drykkjarhorn, handrit og skjöl. Nú er unnið að undirbúningi flutninga og hefur ríkisstjórn að tillögu menntamálaráðherra stutt verkefnið. Þegar hingað kemur í haust hefst vinna við að undirbúa sýningu, sem markmiðið er að opna 17. júní 2008."

Hafið þið geymslurými til þess að taka við þessum munum?

"Eins og hér á landi eru söfn á Norðurlöndum oft í vanda hvað varðar geymslurými. Það hafði áhrif á að þetta samkomulag var gert, en fyrst og fremst er þetta í anda alþjóðlegra siðareglna safna sem segja að gera eigi safnkost aðgengilegan þannig að hann leiði til þekkingarsköpunar, rannsókna og miðlunar. M.a. af þessum ástæðum erum við með tímabundnar og fjölbreyttar sýningar til að geta dregið fram fleiri muni úr fórum safnsins og skoðað í margvíslegu ljósi og þannig farið dýpra í sögu og menningu okkar. Á öllum söfnum eru venjulega ekki nema 2 til 5% af gripunum til sýnis á hverjum tíma. En auðvitað er unnið að skráningu allra gripa og að gera þá aðgengilega á Netinu. Í Sarpinum, sem er gagnagrunnur okkar, eru þegar margir gripir aðgengilegir í lesstofu safnsins og geta gestir okkar þar flett upp ýmsum fróðleik."

Kemur fyrir að reimleikar fylgi þeim gripum sem þið fáið til varðveislu?

"Ég hef ekkert slíkt orðið vör við en ég hef heyrt fólk tala um slíkt og haft gaman af enda hluti af þjóðfræðum okkar og þjóðtrú.

Að segja draugasögu er hluti af þjóðarsál okkar sem er athyglivert." Þjóðminjasafn Íslands fékk viðurkenningu frá Sjálfsbjörg í lok síðasta árs – en fyrir hvað?

"Fyrir gott aðgengi fyrir alla að safninu og við erum mjög þakklát fyrir þá viðurkenningu. Við höfum haft góða samvinnu við Öryrkjabandalagið í þessum efnum og fengið þaðan gagnlegar ábendingar um það sem betur hefur mátt fara. Við höfum orðið vör við að fatlaðir koma mikið í safnið og það hefur hvatt okkur í þessum efnum því alltaf má bæta.

Á vegum Morgunblaðsins kom hingað til lands í fyrra Mary Ellen Mark. Hún ljósmyndaði lífið hjá börnum í Öskjuhlíðarskóla og birt var mjög áhugaverð grein í Morgunblaðinu í fyrra um þetta efni sem Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari átti hlut að. Þessi grein og myndirnar sem birtar voru með henni vöktu athygli mína. Mark, sem er heimsþekktur ljósmyndari var áhugasöm um samstarf um gerð samtímasýningar um líf barna sem eiga við fötlun að stríða í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Verkefnið hefur þróast og úr er að verða merk sýning með myndum Mary Ellen Mark sem fengið hefur nafnið Undrabörn. Á sýningunni verða einnig myndir Ívars Brynjólfssonar af umhverfi barnanna. Einnig verða sýnd listaverk eftir börnin og gefin verður út bók með þeim þarsem Einar Falur skrifar grein um efnið.

Samhliða hefur eiginmaður Mark, Martin Bell, gert heimildamyndina Alexander. Bell er þekktur heimildakvikmyndagerðarmaður sem m.a. gerði myndina um götubörn sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna. Hann hreifst af þessu verkefni og börnunum. Í kvikmyndinni fylgir hann eftir einum dreng, Alexander Pálssyni, og gefur innsýn í heim hans, fjölskyldu og vina. Hann hefur gert mjög fallega og áhrifamikla mynd um líf Alexanders. Þessi mynd er framleidd fyrir Þjóðminjasafn Íslands í samstarfi við fleiri aðila. Verkefnið í heild hlaut veglegan fjárstyrk frá Glitni, sem gerði okkur unnt að ráðast í þetta stóra verkefni. Stefnt er að því að sýningin Undrabörn og umrædd heimildakvikmynd fari til annarra landa, en hún verður fyrst opnuð hér í september nk. Vonandi mun sýningin vekja samfélagið til umhugsunar um mikilvægi þess að búið verði vel að fötluðum börnum sem öðrum börnum á Íslandi. Verkefnið er einnig liður í því starfi safnsins að beina sjónum að samtíma okkar, sem í framtíðinni verður fortíð okkar."

Erum við nógu dugleg, nútímafólk, að afhenda söfnum hluti?

"Við erum oft alltof nýjungagjörn hér á landi. Mér fannst athyglisvert að sjá á Norðurlöndum, Ítalíu og á Spáni t.d. hvað sagan og hefðirnar eru stór hluti af daglegu lífi. Við erum stöðugt að endurnýja og eltast við tískuna. Þannig þarf ekki að henda gömlu en sumt á erindi á söfn. En söfn þurfa að vera gagnrýnin á það sem þau taka til varðveislu, geymslurými er takmarkað.

Þjóðminjasafnið á hundruð þúsunda gripa og milljónir ljósmynda, gömul hús, tæki og vélar, jafnvel bíla. Við höfum því þurft, eins og önnur söfn, að marka ábyrga söfnunarstefnu. Lögum samkvæmt má ekki flytja forngripi úr landi eða láta þá fara á flakk.

Stundum sér maður í heimahúsum forna gripi sem mér finnst kannski að ættu frekar heima á safni, s.s. forna listgripi og handverk, en ef farið er vel með hlutina og jafnvel er ætlun eigenda að koma þeim síðar á safn þá dugir það mér, minjaverðir hugsa í öldum en ekki árum. Í höfuðsafni okkar á sviði þjóðminjavörslu er í mörg horn að líta.

Í hnotskurn
» Þjóðminjasafn Íslands fékk viðurkenningu frá Evrópuráði 2006 fyrir áherslur í miðlun, aðgengismál, fjölbreyttar sýningar og viðmót gagnvart gestum.
» Áður hefur Síldarminjasafnið fengið viðurkenningu í flokki tækniminjasafna og nú er Landnámssýningin Minjasafn Reykjavíkur-Árbæjarsafn í Aðalstræti í tilfnefningarferli.
» Mikilvægt er að umgangast minjar af hógværð og skilningi, þetta þarf að passa upp á – líka hér í Reykjavík . Núna eru bara örfá hús eftir frá 19. öld og þessi hús eru afar sérstök.

gudrung@mbl.is