27. maí 2007 | Aðsent efni | 808 orð | 1 mynd

Andfeminísmi skaðsamur konum og körlum

Lilja Mósesdóttir skrifar um launamun og svarar Önnu S. Pálsdóttur

Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir skrifar um launamun og svarar Önnu S. Pálsdóttur: "Gagnrýni á málflutning femínista byggist á afneitun. Í 19 nýlegum rannsóknum mældist kynbundinn launamunur á bilinu 2% til 18% á Norðurlöndunum."
Í MORGUNBLAÐINU frá 20. maí sakar Anna S. Pálsdóttir Háskólann á Bifröst um að ganga lengst í að taka [femín]ismann fram yfir fræðin og bendir í því sambandi á könnun sem gerð var á meðal útskrifaðra nemenda skólans, þar sem í ljós kom að karlarnir voru með helmingi hærri laun en konurnar. Það er erfitt að sjá hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að launakannanir séu merki um femínisma, enda margar alþjóðlegar stofnanir sem gera slíkar kannanir. Anna gleymdi auk þess að geta þess að verið var að skoða heildarlaun einstaklinga sem gefa góða mynd af vanmati samfélagsins á hefðbundnum kvennastörfum eins og umönnunarstörfum hvort sem þau eru unnin á vinnumarkaði eða inni á heimilum og birtist m.a. í styttri vinnutíma kvenna. Háskólinn á Bifröst hefur lagt áherslu á að bjóða upp á fjölskylduvænt námsumhverfi og hefur hlutfall einstæðra mæðra verið hátt meðal nemenda.

Vanmat – tvöföld skattlagning

Ein ástæða vanmats á hefðbundnum kvennastörfum er t.d. staðalímyndir um að karlar séu fyrirvinnan og leggi harðar að sér við vinnuna. Raunveruleikinn er hins vegar ekki í samræmi við þessar staðalímyndir. Atvinnuþátttaka kvenna hér á landi er t.d. meiri en annars staðar í Evrópu á sama tíma og íslenskar konur eignast að meðaltali fleiri börn. Auk þess hefur krafan um aukna arðsemi og viðvarandi undirmönnun í mörgum hefðbundnum kvennastéttum leitt til þess að vinnuálagið er í engu samræmi við lág laun þeirra. Vanmatið þýðir í raun að starfsfólk í hefðbundnum kvennastörfum leggur almennt meira til samfélagsins í formi lágra launa en þeir sem uppskera laun í samræmi við markaðsaðstæður. Lág laun í umönnunarstéttum draga nefnilega úr nauðsyn aukinnar skattheimtu.

Kjör viðskiptafræðinga

Niðurstaða könnunar Háskólans á Bifröst er vísbending um að konur og karlar með viðskiptafræðipróf búi ekki við sömu tækifæri á vinnumarkaði. Hins vegar þyrfti að kanna betur en hægt er með einni launakönnun ástæður þessa. Það eru hagsmunir bæði karla og kvenna að gegnsæi ríki í samfélaginu hvað varðar stöðuveitingar og ákvarðanir um starfsframa og laun. Slíkar upplýsingar gefa okkur mynd af þeim þáttum sem koma í veg fyrir að einstaklingur uppskeri í samræmi við hæfni og getu. Stjórnunarstöður í einkageiranum eru t.d. sjaldan auglýstar og atvinnurekendur hafa frjálsar hendur þegar kemur að því að setja kröfur sem hæfasti einstaklingurinn þarf að uppfylla. Það er því oft óljóst hvort hæfasti einstaklingurinn hafi í raun verið ráðinn. Launaleynd er jafnframt algeng meðal stjórnenda og hún þýðir að viðsemjendur hafa ekki sömu upplýsingar um þau laun sem verið er að greiða fyrir viðkomandi starf eða sambærileg störf. Það eru því miklar líkur á því að einstaklingur sem tilheyrir hópi sem fær almennt greidd lægri laun í samfélaginu eins og t.d. konur vanmeti launin sem í boði eru og krefjist of lágra launa. Stjórnandi þarf að gæta aðhalds í rekstrinum og því er mjög freistandi að samþykkja eða bjóða of lág laun, sérstaklega þegar launaleynd tryggir að ekki komist upp um samningana.

Launamunur mestur hér

Anna sakar femínista eins og mig um að afneita raunveruleikanum, þar sem við höfum haldið á lofti tölum og rannsóknum sem sýna að launamunur hér á landi er meiri en í nokkru aðildarlandi ESB og að viðvarandi óútskýrður kynbundinn launamunur sé til staðar hér á landi. Hún gerir hins vegar enga tilraun til að rökstyðja með tölum og rannsóknum að hennar skilningur á raunveruleikanum sé réttari. Þetta er miður, þar sem við femínistar höfum tekið gagnrýni á málflutning okkar alvarlega og tölum ekki lengur um laun karla og kvenna án þess að skilgreina hvað við eigum við. Við gerum því þá körfu til þeirra sem gagnrýna málflutning okkar að þau haldi sig við staðreyndir eins og t.d. þá að í 19 rannsóknum á tímabilinu 2000-2005 var óútskýrður kynbundinn launamunur á bilinu 2% til 18% á Norðurlöndunum. Bilið skýrist m.a. af því að fræðifólk er ekki sammála um hvernig eigi að leiðrétta launamun kynjanna.

Hagfræði og launamyndun

Anna fullyrðir jafnframt að við femínistar höfum hagsmuni af því að halda á lofti óréttlæti sem konur eru beittar. Mér finnst þessi fullyrðing ósanngjörn, þar sem flestir femínistar starfa við annað en jafnréttismál. Ég er t.d. menntaður viðskipta- og hagfræðingur og hef aldrei haft aðalstarf af jafnréttismálum. Hins vegar hef ég haft brennandi áhuga á efnahagslegri stöðu karla og kvenna frá því ég kom fyrst út á vinnumarkaðinn og eytt stórum hluta frítíma míns sl. 18 ár í að fjalla um þetta viðfangsefni í ræðu og riti – oftast vegna áskorana frá öðrum konum og körlum sem vilja breytingar. Ég hef leitast við að samþætta menntun mína í viðskipta- og hagfræði við kynjafræðina í starfi mínu sem kennari við viðskiptadeild HA, HR og á Bifröst, þar sem mér hefur fundist skorta á þekkingu þessara framtíðarviðskiptaleiðtoga okkar þegar kemur að launamyndun. Umræða nemenda minna um mismunandi launakröfur þeirra eftir kyni varð m.a. til þess að enginn munur var á launavæntingum þeirra við útskrift.

Höfundur er prófessor við Háskólann á Bifröst.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.