Normið í öðru veldi "Þetta þýðir að normið, sem í Garðabæ birtist iðulega í öðru veldi, gjarnan með hundi, hesti, skuldahala á hjólum og álíka frumlegheitum, gerir efnaminna fólki erfiðara fyrir í bænum. Það stendur höllum fæti í samanburðinum og fer kannski að strekkja einum of mikið við að falla í kramið, tekur svimandi há bíla- og húsnæðislán sem vaxtafíknir bankar fara fjálgum höndum um með fyrirsjáanlegum afleiðingum."
Normið í öðru veldi "Þetta þýðir að normið, sem í Garðabæ birtist iðulega í öðru veldi, gjarnan með hundi, hesti, skuldahala á hjólum og álíka frumlegheitum, gerir efnaminna fólki erfiðara fyrir í bænum. Það stendur höllum fæti í samanburðinum og fer kannski að strekkja einum of mikið við að falla í kramið, tekur svimandi há bíla- og húsnæðislán sem vaxtafíknir bankar fara fjálgum höndum um með fyrirsjáanlegum afleiðingum." — Morgunblaðið/Kristinn
Staðir eru aldrei bara staðir. Þeir fela í sér umgjörð um líf og þeir móta líf. Um leið taka þeir sér bólfestu í manni, verða hjartastaðir, og eru því menningarfyrirbæri, jafnvel eins konar texti.

Staðir eru aldrei bara staðir. Þeir fela í sér umgjörð um líf og þeir móta líf. Um leið taka þeir sér bólfestu í manni, verða hjartastaðir, og eru því menningarfyrirbæri, jafnvel eins konar texti. Undanfarið hefur greinarhöfundur rýnt í staðinn sem hefur verið heimabær hans í rúman áratug og reynt að lesa á milli línanna.

Eftir Rúnar Helga Vignisson

rhv@simnet.is

Einhvern veginn er það svo að sá eða sú sem býr í Reykjavík þarf ekki að gera grein fyrir búsetu sinni, vegna þess að þar er miðjan óumdeilda. Sá sem býr í Kópavogi eða Hafnarfirði þarf þess sennilega ekki heldur, en um Garðabæ getur hins vegar gegnt öðru máli. Þar getur sá sem ekki er viðriðinn einhver stórviðskipti og ekki ekur um á dýru farartæki þurft að standa fyrir máli sínu: Hvað ert þú að gera í Garðabæ? – og þá ekki síst ef viðkomandi er tengdur húmanískum greinum, skólamálum eða umönnun, svo ekki sé minnst á listir sem margir, ekki síst listamenn sjálfir, halda iðulega að rúmist hvergi annars staðar en í póstnúmeri 101.

Gildismatið sem liggur að baki gerir ráð fyrir að affarasælast sé að umgangast sér um líka – listamenn eigi að umgangast aðra listamenn, kaupsýslumenn aðra kaupsýslumenn, og þannig er því ótrúlega oft háttað í veröldinni. Ólíkt kaupsýslumönnum getur rithöfundur búið alllengi í Garðabæ án þess að rekast á nokkurn mann sem hefur brennandi áhuga á bókmenntum og listum og enn lengur án þess að rekast á annan rithöfund. Enda er það svo að kollegar mínir, hvort sem er úr listaheiminum eða akademíunni, glenna iðulega upp augun þegar þeir komast að því að ég bý í Garðabæ. Þeir gera kannski ekki beinlínis athugasemd við það, spyrja í mesta lagi hvort ekki sé langt að fara, vegna þess að þeir gera ráð fyrir að allt þurfi að sækja vestur í bæ, en maður skynjar undrunina, enda búa þeir flestir í gömlum húsum í eða við miðbæ Reykjavíkur – og undireins er maður farinn að útskýra, jafnvel verja, hvers vegna maður býr í Garðabæ: Það hafi verið tilviljun að við hjónin lentum þar, við höfðum á sínum tíma einungis fáeina daga til að leita okkur að íbúð á Stór-Reykjavíkursvæðinu og langhentugasta íbúðin, þar að auki með besta útsýninu, hafi að okkar mati verið sú sem við fundum í Garðabæ. Svo hafi eitt leitt af öðru, við höfum stækkað við okkur og í nýju íbúðinni hafi jökulinn líka borið við loft. Auk þess séu synir okkar orðnir rótgrónir Garðbæingar og þá ekki síst Stjörnumenn og vilji hvergi annars staðar búa. KR? Ekki að ræða það!

Og eftir allt þetta hrekkur kannski upp úr viðmælandanum: Já, er ekki bara gott að búa í Garðabæ?

Jú, það er mjög gott, segir maður, sjálfstæðismennirnir hafi gert margt vel, svo sem eins og í skólamálum, og íþróttaaðstaðan sé framúrskarandi. Auk þess sé bærinn orðinn mjög miðsvæðis í seinni tíð og svo sé enn sem komið er miklu minni umferð þar en almennt gerist á götum Reykjavíkur.

Já, er þetta ekki svefnbær? er þá sagt og ósjaldan er smáorðið "bara" haft með.

Svefnbærinn

Stundum segi ég hiklaust já, að Garðabær sé sem betur fer svefnbær. Enda er gott að sofa í Garðabæ, yfirleitt engin truflun og fátt veit ég dýrmætara í lífinu en að búa á stað sem tryggir góðan nætursvefn. Þess vegna getum við sagt að fátt sé dýrmætara einu samfélagi en einmitt góður staður til að sofa á. Það er líka gott fyrir börnin okkar að ekki sé mikill ys og þys á götum bæjarins þó að það tryggi því miður ekki slysalausa umferð. Fólk leggur greinilega talsvert upp úr lífsgæðum af þessu tagi því stöðugt fjölgar í bænum og fasteignaverð hefur verið með því hæsta á landinu, lóðaverð reyndar ávið íbúðaverð í seinni tíð, og hér hafa verið byggðir sumir af stærstu og glæsilegustu svefnskálum landsins, svo stórir að flytja hefur orðið inn vinnuafl til þess að þrífa þá.

Á móti kemur að bærinn verður látlaus og líflítill vegna þess hversu fá fyrirtæki eru rekin í honum. Það er fremur lítið verslað í Garðabæ, öfugt við það sem efni íbúanna gefa tilefni til. Flestar skemmtanir og menningarviðburði þarf líka að sækja út fyrir bæjarmörkin sem er gott til að tryggja frið og ró en laðar ekki að skatttekjur sem bæjarsjóður getur nýtt til að bæta aðstöðu hinna sofandi enn frekar. Þannig verður Garðabær að andstæðu við borgina sem aldrei sefur, þar sem kynósa og rallhálfar yngismeyjar ku draga útlendinga á tálar. Garðabær er laus við augnaráð ferðalangsins, hann lúrir við voginn fagra á sínum sérstöku forsendum, og hefur ef eitthvað er fremur karllegt yfirbragð miðað við áðurnefnda tuggu um 101 Reykjavík.

En fyrir rithöfund er sérlega gott að búa í svefnbæ því rithöfundar þurfa jú sæmilegan frið. Svo má líka spyrja hvort ekki sé kjörefniviður í Garðabæ fyrir rithöfund sem vill skrifa um samtímann; þar eru jú nýríkir útrásarsinnar í flestum görðum.

Auðmannabærinn

Garðabær virðist hafa ákveðna ímynd í hugum Íslendinga. Þótt kosningaúrslit sýni jafnari skiptingu, gerir fólk iðulega ráð fyrir því að þar búi nánast eingöngu heiðbláir og vellauðugir sjálfstæðismenn. Það er eins og myndast hafi samkomulag um að Garðabær sé griðastaður efnafólks, þar fái það að vera í friði með auðæfi sín, þar sé það innan um sér um líka sem taki mikil efnisleg gæði sem sjálfsögðum hlut og séu ekki sýknt og heilagt með eitthvert jafnaðarmannakjaftæði á vörum. Að vissu marki á þessi ímynd við rök að styðjast, í Garðabæ virðist mér vera leyfilegt að sulla í skotsilfri og berast á, búa í miklu stærra húsi en maður hefur þörf fyrir og aka um á bíl með miklu stærri dekkjum en malbikaðar götur Stór-Garðabæjarsvæðisins gera kröfu um. Og það er ekkert ljótt við öll þessi gæði, þau bera ekki vott um að maður sé gráðugur eða eigingjarn, hvað þá siðlaus, þvert á móti bera þau vott um að maður hafi komið ár sinni vel fyrir borð og sé eitthvað til lista lagt. Það að búa í Garðabæ þýðir nefnilega að maður er í borgaralegum skilningi ekki illa heppnaður, svona almennt séð, og í rauninni ívið betur heppnaður en fólk í öðrum sveitarfélögum, þó að það sé ekki sagt upphátt. Auðvitað erum við nokkur sem eigum á brattann að sækja, en þjónum þá þeim tilgangi að minna hina á hvað þeir séu vel gerðir og hafi það ofsalega gott.

Þetta þýðir að normið, sem í Garðabæ birtist iðulega í öðru veldi, gjarnan með hundi, hesti, skuldahala á hjólum og álíka frumlegheitum, gerir efnaminna fólki erfiðara fyrir í bænum. Það stendur höllum fæti í samanburðinum og fer kannski að strekkja einum of mikið við að falla í kramið, tekur svimandi há bíla- og húsnæðislán sem vaxtafíknir bankar fara fjálgum höndum um með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þó væsir ekki um neinn í fátækrahverfum Garðabæjar, enda eru þau lítil raðhús og vel búin fjölbýlishús, sum með heimsklassa útsýni.

Þau sem eru svo heppin að fá að búa í fátækari hverfum Garðabæjar verða hins vegar að hafa sterka sjálfsmynd og búa yfir fjárhagslegum þroska. Það má t.d. ekki gera eins og ég þegar ég sótti son minn til vinar sem var af efnuðu fólki kominn. Á hlaðinu stóðu nokkrar gljáfægðar glæsikerrur og mér varð það á að spyrja heimilisföðurinn: Ertu búinn að opna bílasölu? Svona á maður aldrei að haga sér í Garðabæ. Maður á alltaf að láta sem mikil efnisleg gæði séu sjálfsögð. Enda eiga þau að vera sjálfsögð – ekki bara fyrir viðskiptajöfra.

Stjörnubærinn

Framlög til íþróttamála eru almennt vel liðin í Garðabæ enda eru íþróttir helsta kennimark þessa samfélags þegar efnislegum gæðum sleppir og sjálfsagt hangir þetta tvennt saman. Vel gæti ég trúað að landsmenn heyri helst minnst á Garðabæ í samsetningunni "Stjarnan í Garðabæ" og í seinni tíð fylgir æ oftar með að Stjarnan hafi sigrað þetta eða hitt liðið en sögnin að sigra á auðvitað sérlega vel við í þessu bæjarfélagi. Æ sjaldnar sést nú fyrirsögnin "Stjörnuhrap í Garðabæ" enda er hún ekki til marks um rismikla blaðamennsku.

Það er athyglisvert hversu vel bæjaryfirvöld hafa staðið að uppbyggingu íþróttamannvirkja undanfarin ár og hversu vel þau hafa stutt við bakið á íþróttafélögunum og reyndar íþróttaiðkendum líka með svokölluðum hvatapeningum. Og þetta skilar sér. Nýlega mátti t.d. lesa í Víkurfréttum: "Titlunum rignir inn í Garðabæ þetta árið og bæjarfélagið gerir harða atlögu að Reykjanesbæ og Hafnarfirði sem eitt mesta íþróttabæjarfélag landsins." Að baki þessari miklu áherslu á íþróttalífið hlýtur að búa það gildismat að íþróttir séu góðar fyrir Garðbæinga, sér í lagi unga Garðbæinga.

Mest áhersla hefur verið lögð á hópíþróttir sem kemur kannski sumum á óvart í þessu helsta vígi Sjálfstæðisflokksins og einkaframtaksins. Boltaíþróttir eru sósíalískar í aðra röndina; liðið kemst hvorki lönd né strönd án samhjálpar. En eins og samfélagið sjálft bjóða þær jafnframt upp á mannrækt og eru því smækkuð mynd af lífsbaráttunni sem kann að vera helsta ástæðan fyrir vinsældum þeirra og helsta réttlætingin fyrir ástundun þeirra. Þær hafa jú forvarnagildi, segir fólk. Hitt er svo annað að stundum finnst manni eins og íþróttir eigi að leysa allan vanda í Garðabæ.

Það er auðvitað eitthvað spartanskt við samfélög sem leggja mikla áherslu á íþróttir. Þau vilja fá heilbrigt yfirbragð og kannski blundar einhvers staðar sú hugsun að gott íþróttastarf vegi að einhverju leyti upp mikla fjarveru foreldranna frá börnum sínum (þó skal tekið fram að foreldrastarf er iðulega í miklum blóma í tengslum við íþróttir í Garðabæ). Hins vegar er orðræða íþróttanna ennþá afar hrá og að vissu leyti frumstæð enda eru íþróttir í rauninni tilbrigði við bardagalist. Keppnisíþróttir skapa víglínur og íþróttamenn í baráttuham minna stundum meira á górillur en siðmenntaðar verur. Íþróttakappleikir kalla oft fram afar heiftúðugar tilfinningar í keppendum, þjálfurum, foreldrum og öðrum áhorfendum og þar tíðkast að hlakka yfir óförum mótherjans, jafnvel þegar meiðsl verða. Þarna lendir íþróttahreyfingin í mótsögn við yfirlýst mannræktarmarkmið og þess vegna má spyrja sig hvort ekki mætti leggja jafn mikla rækt við greinar eins og listir, skátastarf og mannúðarmál.

Þó að íþróttir fái vissulega ýmsu góðu áorkað, hvarflar stundum að mér að öll fjárfestingin í íþróttum sé að töluverðu leyti pabbastjórnmál; pabbarnir séu að fá útrás fyrir spennufíkn og löngun til þess að tilheyra sigursælu liði. Og eins og áður sagði hafa Garðbæingar svo sannarlega fengið að upplifa sigurtilfinningu í vetur og það er fullkomlega við hæfi, því allir eru jú stjörnur í Garðabæ. Íþróttaandinn smitast svo út í atvinnulífið þar sem menn knýja útrásina með sigurvegarafasi. Þetta er eins konar íþróttavæðing og hún er í sjálfu sér ágætt svar við sjúkdómsvæðingu.

Annars segir það margt um áherslurnar í Garðabæ að íþróttamiðstöðin Ásgarður er hin eiginlega miðja bæjarins. Enda er Latibær framleiddur í Garðabæ.

Listar(stols)bærinn

Margir líta á listir sem andstæðu íþrótta, en tvíhyggja af því tagi er þó óþörf vegna þess að góður íþróttamaður er listrænn í nálgun sinni. Margir íþróttamenn hafa líka orðið listamenn. En það er jafn eftirtektarvert og öll framlögin til íþróttamála hversu lítið er lagt í listir í Garðabæ. Þær eru ekki áberandi í ásýnd þessa samfélags sem stendur og það birtist m.a. í lítilli umfjöllun um þær í bæjarblöðunum. Sjálfsagt er hérna fullt af listelsku fólki, en listir virðast fremur vera álitnar einkamál hvers og eins og því eru framlög til þeirra ekki áberandi af hálfu bæjaryfirvalda.

Garðabær er samt ekki með öllu afhuga listinni því á nokkrum stöðum í bænum má sjá ágæt útilistaverk og sumar stofnanir bæjarins eru prýddar mjög frambærilegum listaverkum. Bæjarlistamaður hefur líka verið útnefndur árlega og honum fenginn svolítill vasapeningur. Eiginleg lista- og menningarmiðstöð er þó engin í bænum, en hann á hins vegar metnaðarfullan tónlistarskóla og ágætt bókasafn. Bókasafnið er talsvert sótt en þó sýnist mér mun fleiri leggja leið sína í Ríkið sem er við hliðina á því; kannski það sé helsta menningarmiðstöðin.

Garðabær hefur aftur á móti skuldbundið sig til þess að hýsa Hönnunarsafn Íslands og einhvern veginn finnst manni safn af því tagi ríma vel við áherslur þessa samfélags. Hönnunarsafn liggur mun nær praktískum hlutum en aðrar listgreinar þó að ekki sé allt sem sýnist þegar kemur að sambandi listarinnar við efnisheiminn eins og prófessor Ágúst Einarsson hefur komist að raun um í rannsóknum sínum á framlegð listageirans.

Hið fábreytilega lista- og menningarlíf í Garðabæ gerir að verkum að breiddin í mannlífinu mætti vera meiri. Í bænum er vissulega mikið af framsæknu fólki sem hefur náð langt á sínu sviði, en á slæmum dögum læðist sá grunur að manni að þar drottni lífsgæðakapphlaupið í sinni ýktustu mynd og fulllítið rými eða orka verði afgangs til að íhuga það sem best hefur verið hugsað á öðrum sviðum. Auðvitað ættu álnirnar sem margir bæjarbúar hafa komist í að gera þeim kleift að huga betur að mennskunni, og vissulega er það svo í sumum tilvikum, en oft virðist auðurinn vera harður húsbóndi og heimta sína þjónustu. Og þá spyr ég mig stundum: Hvernig væri Ísland ef allir hugsuðu eins og dæmigerður Garðbæingur?

Sigurvegarabærinn

Á þeim árum sem ég hef búið í Garðabæ hefur ríkt klassísk sjálfstæðisstefna í bænum; einkaframtak í bland við hóflegar félagslegar áherslur. Útsvarsprósentan hefur verið lág, þjónustugjöld stundum eitthvað hærri en annars staðar. En það hefur samt ekki verið neinn grundvallarmunur á áherslum í Garðabæ og almennt á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur ekki verið rekin öfgafull frjálshyggja.

Ég hef ekki þurft mikið á yfirvaldinu í Garðabæ að halda og líklega er það af hinu góða. Ég hef ekki heldur orðið var við pólitískan þjösnaskap hér eins og ég varð stundum var við á mínum æskuslóðum vestur á fjörðum. En ef til vill fer þjösnaskapurinn framhjá mér vegna þess að í bænum ríki samkomulag um að opinbera hann ekki. Og satt að segja virðist mér sem samkomulag af því tagi sé við lýði, ég finn mjög sterkt fyrir því – og fyrir því fann ég við samningu þessa greinarkorns – að það telst ekki góður siður í Garðabæ að kvarta. Þar eiga menn að vera yfir það hafnir, sennilega vegna þess að þar á að vera svo gott að búa og þar búa því einungis sigurvegarar sem speglast í því að þar er bara einn flokkur við völd, og hefur alltaf verið, sigurvegaraflokkurinn. Þetta er jú fyrirmyndarríki hans. Að þessu leyti minnir þetta svolítið á andrúmsloftið sem manni finnst ríkja í viðskiptaheiminum: Menn bera sig ætíð vel, eru hressir og jákvæðir. Þessi afstaða endurspeglast mjög vel í bæjarblaðinu þar sem yfirleitt er ekki að finna neina gagnrýni á ráðslag í Garðabæ heldur nánast fréttatilkynningar frá ráðandi meirihluta. Þar er líka fjallað mikið um íþróttir enda eru þær óumdeilt viðfangsefni og bjóða upp á líflegt myndefni.

En svo það fari nú ekki á milli mála, og svo fólk haldi ekki að ég sé að kvarta, þá hef ég átt prýðileg samskipti við bæjaryfirvöld þau 13 ár sem ég hef búið í bænum. Þau hafa t.d. nýverið veitt mér verðlaun. Fulltrúar bæjaryfirvalda eru yfirleitt viðræðugóðir og velviljaðir, litaðir af góðri og gildri íslenskri framfarahyggju.

En það fer þó aldrei svo að maður þurfi ekki einhvern tíma að eiga samskipti við yfirvöld. Í vetur sendi ég t.d. Gunnari Einarssyni bæjarstjóra tölvuskeyti vegna slysahættu í grennd við heimili mitt en sendiferðabílar höfðu þá ítrekað runnið frá Hagkaupum og inn í garð þar sem börn eru iðulega á ferli. Gunnar svaraði um hæl og sagðist mundu láta athuga hvað hægt væri að gera til að koma í veg fyrir að svona atburðir endurtækju sig. Nokkrum vikum síðar las ég í blöðunum að hann hygðist láta rífa Hagkaupshúsið. Það verður að segjast eins og er að þau viðbrögð voru langt umfram væntingar. Til bráðabirgða hafa auk þess verið settir upp steinstöplar og vegrið.

Grasabærinn

Þegar horft er upp í Garðabæ frá Hafnarfjarðarveginum heillast maður ekki beinlínis af ásýnd byggðarinnar; við blasa breiður af látlausum húsum og inni á milli eru meira að segja miður heppnaðar byggingar eins og Hagkaupshúsið og Vídalínskirkja.

Þekktasta hverfi bæjarins, Arnarnesið, er eins konar varða í þroskasögu Íslands eftir stríð. Hverfið var lengi ímynd velsældarinnar á landsvísu, þar þótti sérstaklega fínt að búa. Þegar maður ekur um það núna sér maður að mikið vatn hefur runnið til sjávar. Hverfið er vitnisburður um fyrstu kynslóð Íslendinga sem sóttist eftir mikilleik í kjölfar aldalangrar fátæktar.

Nýju hverfin, eins og Ásahverfið, vekja ef til vill svipaðar hugrenningar með manni eftir 30 ár. Þar er komin miklu meiri tilraunastarfsemi í arkitektúrinn og reynir hver að toppa annan í frumleikanum. Bryggjuhverfið með dönsku götunöfnunum hans Hallgríms Helga setur svolítinn svip á annars sviplítinn bæ. Spurning hvort menn vilja svo í framhaldinu búa til eitthvert líf á Arnarnesvoginum sem er einn fallegasti pollurinn á höfuðborgarsvæðinu. Arnarneshálsinn er að taka á sig mynd en enn sem komið er virðast húsin þar afar einsleit, eins og þau séu sett saman úr steyptum gámum. Fleiri hverfi eru í bígerð og eitt þeirra mun auka umferð við Garðaskóla og Ásgarð, auk þess sem til stendur að bæta við bensínstöð þar rétt hjá. Ákvarðanir af þessu tagi fá mann til að velta fyrir sér hvort ekki væri hollt fyrir bæinn að skipta um meirihluta öðru hvoru.

Langstærsti kosturinn við Garðabæ hefur þó minnst með skipulag einstakra hverfa að gera, heldur felst hann í nálægðinni við Vífilsstaðavatn og Heiðmörk. Það eru ómetanleg lífsgæði að geta á fimm mínútum skotist út í fallega og lítt spjallaða náttúru. Við hjónin höfum átt margar góðar stundir við Vífilsstaðavatn, höfum farið ótal hringi í kringum það, gangandi eða skokkandi. Sumir halda kannski að út úr því komi hringavitleysa en mér er næst að halda að þessar ferðir okkar umhverfis vatnið hafi verið besta hjónabandsráðgjöf sem við gætum fengið; þar eru málin rædd í þaula eða hlaupið af sér þvargið. Krían hefur reyndar stundum sett strik í reikninginn og í fyrra var hún óvenju skæð, beit bæði og skeit, en lóan bætti það upp. Heiðmörk er síðan handan við hæðina og þaðan er stutt að Búrfellsgjá, Helgafelli, Grindaskörðum og fleiri undrum og þar höfum við líka átt mikla dýrðardaga.

Svo ég svari spurningunni í upphafi, þá hefur mér dvalist í Garðbæ eftir margra ára flandur vegna þess að þar hef ég aðgang að mörgu af því besta sem höfuðborgarsvæðið býður upp á: Þar er ég þrátt fyrir allt nálægt menningarmiðjunni, án þess að hún gleypi mig, en um leið við skör þess ómanngerða. Þar er vel hugsað um þarfir barnanna minna, þar hef ég kynnst góðu fólki og á bókasafninu fæ ég fyrirtaksþjónustu.

Og svo er það þetta með efniviðinn sem ég á eftir að gera betri skil...

Höfundur er rithöfundur og var bæjarlistamaður í Garðabæ 2006.