Sumar konur fá af ókunnum ástæðum legslímuflakk en aðrar ekki.
Sumar konur fá af ókunnum ástæðum legslímuflakk en aðrar ekki. — Reuters
Þær konur sem þjást af hinum sársaukafulla sjúkdómi legslímuflakki, eru þrefalt líklegri en aðrar til að fá krabbamein í eggjastokka, nýru eða skjaldkirtil. Frá þessu er sagt á vefmiðli BBC og vitnað í niðurstöður rannsókna því til staðfestingar.
Þær konur sem þjást af hinum sársaukafulla sjúkdómi legslímuflakki, eru þrefalt líklegri en aðrar til að fá krabbamein í eggjastokka, nýru eða skjaldkirtil.

Frá þessu er sagt á vefmiðli BBC og vitnað í niðurstöður rannsókna því til staðfestingar.

Legslímuflakk felst í því að slímhúð legsins "fer á flakk" og festir rætur utan legsins sjálfs og örvefsmyndun verður af þeim orsökum inni í kviðarholi. Samvextir myndast milli líffæra og aumir, langvinnir bólguhnútar standa eftir. Þetta getur valdið miklum verkjum, sérstaklega við blæðingar sem og truflunum á egglosi og frjóvgun.

Ný meðferðarúrræði?

Í fyrrgreindum rannsóknum voru rúmlega 63.000 konur athugaðar sem þjást af legslímuflakki. Í þeim hópi reyndust tæplega 4.000 konur vera með krabbamein, sem er ekki óeðlilegt hlutfall en aftur á móti voru vissar tegundir krabbameina hjá þessum konum óeðlilega algengar. Má þar helst nefna krabbamein í eggjastokkum og heila. Rannsóknin sýndi einnig að ekki var samhengi á milli fjölda fæðinga hjá þessum konum og áhættunnar með að fá krabbamein.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á músum sýna að lyf sem líkja eftir dópamíni heilans og eru samsvarandi þeim lyfjum sem notuð eru til að meðhöndla Parkinsonveiki, stöðvuðu myndun blóðæða sem næra óeðlilegan vöxt vefja. Staðreyndin er sú að slíkar nýjar æðar eru ein forsenda þess að legslímuflakk þróist hjá konu. Jafnvel er talið að þessi lyf geti komið í veg fyrir legslímuflakk sem og krabbamein því tengt. En allt er þetta þó enn á getgátustigi og sumir læknar mæla eindregið gegn því að legslímuflakk sé skilgreint sem eitthvað sem leiði til krabbameins, vegna þess að enn frekari rannsókna sé þörf til að finna endanlega út hver þessi tengsl eru.