5. júlí 2007 | Innlendar fréttir | 308 orð | 1 mynd

Sýning um Huldu Jakobsdóttur, fyrsta kvenbæjarstjóra Íslands, opnuð í Kópavogi

"Hún var kvenskörungur mikill og drengur góður"

Opnun Kristín Ólafsdóttir, Una María Óskarsdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Elín Smáradóttir, Hanna Guðrún Styrmisdóttir, Helga Guðrún Jónasdóttir og Kristín Pétursdóttir voru við opnun sýningarinnar í Kópavogi.
Opnun Kristín Ólafsdóttir, Una María Óskarsdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Elín Smáradóttir, Hanna Guðrún Styrmisdóttir, Helga Guðrún Jónasdóttir og Kristín Pétursdóttir voru við opnun sýningarinnar í Kópavogi. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Unu Sighvatsdóttur unas@mbl.is "ÉG get gert allt sem karlmenn geta gert og flest betur," hafði Hulda Dóra Styrmisdóttir eftir ömmu sinni og nöfnu, Huldu Jakobsdóttur, við opnun sýningar um þá síðarnefndu í Bókasafni Kópavogs í gær.
Eftir Unu Sighvatsdóttur

unas@mbl.is

"ÉG get gert allt sem karlmenn geta gert og flest betur," hafði Hulda Dóra Styrmisdóttir eftir ömmu sinni og nöfnu, Huldu Jakobsdóttur, við opnun sýningar um þá síðarnefndu í Bókasafni Kópavogs í gær. Fimmtíu ár eru nú liðin síðan Hulda Jakobsdóttir var kjörin bæjarstjóri í Kópavogi, fyrst íslenskra kvenna til að gegna slíku embætti. Af því tilefni standa jafnréttisnefnd Kópavogs og aðstandendur Huldu fyrir svokallaðri örsýningu um líf og störf þessarar merku konu og frumherja.

Hulda fæddist í Reykjavík árið 1911 en varð síðar meðal frumbyggja í Kópavogi ásamt eiginmanni sínum, Finnboga Rút Valdemarssyni, og fimm börnum. Þau hjónin létu bæði mikið að sér kveða í málefnum sveitarfélagsins, og sagði Hulda Dóra við opnun sýningarinnar að þau hefðu ásamt öðrum þeim sem komu að uppbyggingu Kópavogs unnið þar mikið þrekvirki. "Örugglega hefur það átt sinn þátt í velgengni Kópavogs að hann bar til þess gæfu, í upphafi tilvistar sinnar, að nýta vel krafta íbúa sinna, óháð stjórnmálaskoðunum eða kynferði."

Skriflegar heimildir dýrmætar

Á sýningunni má meðal annars sjá fjölmörg bréf og skjöl frá Héraðsskjalasafni Kópavogs, þar á meðal fjárhagsáætlun bæjarins frá embættisárum Huldu, sem sýnir glögglega að forgangsatriði bæjarstjóra var að tryggja börnum bæjarins skólavist. Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður Kópavogs, talaði af þessu tilefni um mikilvægi þess að slíkar heimildir varðveittust, og benti á að með nýrri upplýsingatækni stæði skjalavörðum framtíðarinnar ógn af því sem kalla mætti "stafræna minnisglapasýki". "Hulda ásamt öðrum lagði grunninn að Kópavogsbæ og minningin um það lifir í skjölum," sagði Hrafn.

Una María Óskarsdóttir, formaður jafnréttisnefndar, sagði frá því að Hulda hefði risið gegn ríkjandi venju á sínum tíma og stundum mætt fordómum í starfi vegna kynferðis síns, og að því miður örlaði enn á sömu viðhorfum gegn konum í stjórnunarstörfum nú 50 árum síðar. Hansína Ásta Björgvinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs, tók undir og sagði tímabært að bæta kynjahlutföll í embættismannakerfinu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.