Sannkölluð ævintýraveröld Vajdahunyad kastalinn er fallegur ásýndar.
Sannkölluð ævintýraveröld Vajdahunyad kastalinn er fallegur ásýndar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki ofsögum sagt að Búdapest í Ungverjalandi er falleg borg og minnir um margt á fegurð og byggingarstíl Prag. Finnur Orri Thorlacius heimsótti báðar Búdapest og varð ekki fyrir vonbrigðum.

Nú hefur greinarhöfundur heimsótt báðar þessar borgir og ekki orðið fyrir vonbrigðum, þó þær séu báðar austan járntjaldsins gamla sem betur fer féll. Ásamt áskrifendum Morgunblaðsins, sem þáðu sértilboð í ferð til Búdapest, sem blaðið bauð í samstarfi við Heimsferðir, fór ég snemma í maí til hinnar tvískiptu borgar við Dóná. Borgin skiptist í Buda og Pest, sem eru sitt hvoru megin árinnar. Miðbær borgarinnar, sem telst reyndar beggja megin hennar, er aðlaðandi og hver glæsibyggingin blasir við af annarri er gengið er um bæinn. Ekki er ónýtt að horfa yfir borgina frá forsetahöllinni eða Gellert-hæð, sem standa mjög hátt Buda-megin og virkilega á sig leggjandi að komast þangað upp.

Leigðu hjól

Ég mæli eindregið með því að leigja sér hjól, sem við hjónin gerðum en þannig má fyrirhafnarlítið komast yfir stóran hluta borgarinnar og sjá margt af því sem heillar. Í Budapest er hugsað fyrir hjólreiðafólki og sérstakir stígar til þess ætlaðir. Það vekur athygli hve mikið er af opnum og grænum svæðum, allt frá litlum torgum til stærri garða og þar eru ýmis listaverk til að skoða.

Ungverjar eru listrænir og ekki hvað síst þekktir fyrir tónskáld, svo sem Béla Bartok og Frans Liszt. Fyrir þá sem áhuga hafa er ekki vandamál að komast á tónleika. Það vildi svo ágætlega til að við duttum inn á eina slíka í lítilli kirkju í miðbænum og hlustuðum á 15 strengjahljóðfæraleikara fara listilega með verk eftir Bach, Liszt, Schubert og Tchakovsky.

Góður og slæmur matur

Það er bæði hægt að fá góðan mat og slæman í Budapest. Hin þjóðlega matargerð þeirra heillaði okkur ekki og minnir um margt á austurríska og þýska matargerð þar sem nýtni mögru áranna litar matargerðina og talsvert er lagt upp úr notkun fitu sem var svo nauðsynleg er skortur var á mat og fólk vann erfiðisvinnu. Við prófuðum þekktan veitingastað, Karpatia, sem leggur mikið upp úr matargerð heimamanna og heilluðumst mjög af glæsilegu innra útliti staðarins en ekki af matargerðinni.

Betra er að halla sér að veitingastöðum sem ekki gera út á þarlenda matarhefð og er þá um mikið úrval að ræða af afbragsgóðum stöðum. Verð ég þá að geta staðarins Avocado sem bar bragðlauka okkar í hæstu hæðir, fyrir utan frábæra þjónustu og heillandi útlit. Ekki sveik heldur veitingastaðurinn Lampas, ekki langt frá Avocado, Pest-megin. Þá mælum við með því að borða úti á veitingastaðnum Robinson í hádeginu við fallega litla tjörn í Szechenyi-garðinum, við hlið hetjutorgsins. Guðdómlegt umhverfi, frábær matur og heimsklassa þjónusta. Það er einkennandi fyrir ungverska veitingastaði að víða er spiluð lifandi tónlist og fiðlan gjarna í aðalhlutverki. Þarna eru engir klaufar á ferð, enda tónlistarleg þjálfun og hefð greinilega eins og hún gerist best.

Í ungverskt bað

Eitt af því sem Ungverjar eru hvað frægastir fyrir eru almenningsböðin en af þeim er gnótt í höfuðborginni. Líkt og Parísarbúar hittast á kaffihúsum og lyfta huganum, fara heimamenn í böðin, hittast og slaka á. Auk þess þykja þau afar heilnæm þar sem vatnið inniheldur mikið af steinefnum sem hafa lækningarmátt fyrir vöðva, liði og húð. Allir staðirnir bjóða upp á nudd sem kostar mjög lítið en það gildir einnig um aðgangseyrinn. Böð þessi rekja sögu sína allt til Rómverja, en ekki síður Tyrkja sem þarna réðu ríkjum síðar.

Langflestir ferðafélaga okkar gerðu sér ferð á markaðinn sem er Pest-megin. Hann er hýstur í geysistóru stálgrindarhúsi sem byggt var af fyrirtæki frakkans Eiffel. Heimsókn þangað er þess virði og flestir kaupa þar eitthvað. Þar selja heimamenn eigin framleiðslu grænmetis, kjöts, fisks, áfengis, vefnaðar, listar og gjafavöru ýmiss konar.

Verðlag er mjög gott í Búdapest og flest á helmings- eða þriðjungsverði miðað við hér heima. Ódýrt er að borða á veitingastöðum, fá sér drykk eða kaupa annað sem hugurinn girnist. Stórt bjórglas á veitingastað kostar 150-200 krónur, forréttur 300-500 og aðalréttur 800-1.200 kr.

Karakterlausar steinblokkir

Íbúar Búdapest eru vingjarnlegt fólk, þjónustulundað og hjálplegt. Sama hvert komið var, allir jafngreiðasamir og viljugir til að hjálpa eða þjónusta. Þeir búa ekki til vandamálin, heldur leysa úr þeim með bros á vör.

Sagan hefur ekki farið verr með þá en svo en þeir hafa samt mátt ýmislegt þola gegnum aldirnar. Þá er nærtækast að nefna yfirgang Sovétsins frá fyrra stríði til falls járntjaldsins. Grátlegt er þó að sjá áhrif Sovéttímans á byggingar íbúðarhúsnæðis nær jöðrum borgarinnar en á leið frá flugvellinum til miðborgarinnar blasa við dæmigerðar karakterlausar steinblokkir þar sem þeir sem minna mega sín búa væntanlega nú. Þessar blokkir voru byggðar á tímum Sovétsins og í anda þess svo allir mættu hafa þak yfir höfuðið og "allir hafa það jafnslæmt."

Kumbaldar þessir eru í hrópandi ósamræmi við fallega skreyttar byggingar miðbæjarins sem endurspegla gullin uppbyggingarár Búdapest frá 1850 til fyrri heimsstyrjaldar, 1914. Talsverð fátækt er enn í Ungverjalandi en þónokkur hluti íbúa hefur efnast mjög og ber bílaflotinn í miðbænum vitni um það. Því miður eru betlandi sígaunar of algeng sjón sem og heimilislausir í undirgöngum neðanjarðarlestarkerfisins. Öllum Búdapest-förum var sagt að varast vasaþjófa, sérstaklega sígauna, en við tókum ekki eftir neinu slíku.

För okkar til Búdapest var í alla staði mjög ánægjuleg en við kusum okkur þar, sem ávallt, að ráða för sjálf og fara ekki í skipulagðar ferðir ferðaskrifstofunnar. Borgin hefur upp á mikið að bjóða, enda bæði verið nefnd París austursins og líkt við Vín og Prag hvað fegurð varðar. Ekki vorum við hissa á þessum samlíkingum og komum vonandi aftur til Búdapest bráðlega.