Rannsóknir Nýliðun sandsílis hefur brugðizt tvö til þrjú síðustu ár. Kannaðar hafa verið þrjár hugsanlegar ástæður en skýringin blasir ekki við.
Rannsóknir Nýliðun sandsílis hefur brugðizt tvö til þrjú síðustu ár. Kannaðar hafa verið þrjár hugsanlegar ástæður en skýringin blasir ekki við.
Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is LJÓST er að sandsílisstofninn er í mikilli lægð um þessar mundir. Á það einkum við svæðið umhverfis Vestmannaeyjar. Hins vegar fannst mun meira af seiðum nú á Breiðafirði en í fyrra.
Eftir Hjört Gíslason

hjgi@mbl.is

LJÓST er að sandsílisstofninn er í mikilli lægð um þessar mundir. Á það einkum við svæðið umhverfis Vestmannaeyjar. Hins vegar fannst mun meira af seiðum nú á Breiðafirði en í fyrra.

Nýlokið er tveggja vikna rannsóknarleiðangri á Gæfu VE 11. Farið var á 4 svæði, Breiðafjörð, Faxaflóa, Vestmannaeyjar – Vík og Ingólfshöfða. Togað var með flottrolli frá yfirborði og niður á botn. Einnig var notaður plógur til að ná í síli úr botni þegar það fékkst ekki troll. Þetta er annað árið sem farið er í slíkan leiðangur en markmiðið er m.a. að meta breytingar á stofnstærð og afla upplýsinga um árgangastyrk. Valur Bogason, leiðangursstjóri og Kristján Lilliendahl önnuðust rannsóknirnar. Skipstjóri var Ólafur Guðjónsson.

Mest á Breiðafirði og Faxaflóa

Talsvert meira fannst af seiðum frá því í vor en í fyrra. Þau voru stærri og farin að taka botn í meira mæli. Langstærsti hluti þeirra fékkst í Breiðafirði, einnig fékkst meira í Faxaflóa en lítið fékkst við suðurströndina. Ekki er þó hægt að segja til um nýliðun þessa árs með neinni vissu fyrr en sést hvernig hún skilar sér sem 1 árs síli á næsta ári.

Mjög lítið fékkst af 1 og 2 ára síli og má segja að nú vanti nánast 2 árganga í stofninn (2005 og 2006) á rannsóknarsvæðin. Einnig virðist sem 2004 árgangurinn hafi ekki verið sterkur. Af þessum orsökum fékkst talsvert minna af sandsíli í ár en í fyrra. Eins og á síðasta ári er ástandið lakast við Vestmannaeyjar og greinilegt er að stofninn er í mikilli lægð um þessar mundir.

En hver er skýringin á hruni sandsílisstofnsins?

"Við höfum enga einhlíta skýringu á þessu hruni, " segir Valur Bogason leiðangursstjóri. "Við höfum þó verið að horfa á þrjá þætti fyrst og fremst. Fyrst eru það þá breyttar aðstæður í umhverfinu. Hitastig sjávar hefur verið að hækka síðustu árin og þá erum við sérstaklega að skoða hækkun hitastigs að vetri til. Það gæti haft áhrif á tímasetningu klaks og þar með vöxt og viðgang seiða. Þau gætu kannski ekki verið að hitta á fæðutoppana á réttum tíma. Eftir hrygningu liggja egg sandsílisins í eins konar dvala á hafsbotninum en svo eru það hiti og ljós sem koma af stað áframhaldandi þroska. Það gæti því verið viðkvæmur tími.

Afránið ekki einhlít skýring

Við höfum líka skoðað afrán, át annarra fiska á sílinu. Það eitt og sér skýrir ekki þennan nýliðunarbrest, sem orðið hefur tvö ár í röð, en gæti þó haft áhrif á stofnstærðina.

Síðan höfum við skoðað möguleg áhrif snurvoðarinnar á sílið. Það eru margir þeirrar skoðunar að hún sé þar ákveðinn skaðvaldur. Ég tel þó mjög ólíklegt að hún valdi þessum nýliðunarbresti. Þetta er til dæmis að gerast á svæðum þar sem ekki er togað með voðina. Við erum að reyna að kafa dýpra í þessa þrjá þætti en erum ekki komin með neitt endanlegt svar."

Mikilvæg, staðbundin fæðutegund

Hvaða áhrif hefur hrun stofnsins á lífríkið?

"Sílið er mikilvæg fæðutegund á búsvæðum þess, bæði fyrir fiska og fugla. Það er mjög staðbundið eftir að það tekur botn. Sílið dreifist sem seiði uppi í sjó en tekur síðan botn um mitt sumar. Eftir það má segja að það sé meira og minna á sinni torfu. Þess vegna er oft mikil fiskgengd á sílasvæðum. Þetta er orkurík fæða og rannsóknir hafa sýnt að meðalþyngd ýsu er hærri á sandsílasvæðum en utan þeirra. Hrun stofnsins getur því haft staðbundin áhrif á fiskgengd. Sílið er því mjög mikilvæg fæðutegund en ekki eins mikilvæg og til dæmis loðnan fyrir þorskinn. Sílið er þó mjög mikilvægt á ákveðnum svæðum," segir Valur Bogason.

Í hnotskurn
» Eins og á síðasta ári er ástandið lakast við Vestmannaeyjar og greinilegt er að stofninn er í mikilli lægð um þessar mundir.
» Hrun stofnsins getur haft staðbundin áhrif á fiskgengd en fiskurinn snýr sér þá í eitthvað annað og annars staðar.
» Sílið er mjög mikilvæg fæðutegund en ekki eins mikilvæg og til dæmis loðnan fyrir þorskinn.