Góður völlur Hvaleyrarvöllur mun skarta sínu fegusta næstu daga þegar bestu kylfingar landsins reyna með sér á Íslandsmótinu í höggleik.
Góður völlur Hvaleyrarvöllur mun skarta sínu fegusta næstu daga þegar bestu kylfingar landsins reyna með sér á Íslandsmótinu í höggleik. — Morgunblaðið/Sverrir
HVALEYRARVÖLLUR í Hafnarfirði hefur sjaldan verið í eins góðu ástandi þrátt fyrir að vallarstarfsmenn hafi unnið við erfiðar aðstæður undanfarnar vikur þar sem varla kom dropi úr lofti.

HVALEYRARVÖLLUR í Hafnarfirði hefur sjaldan verið í eins góðu ástandi þrátt fyrir að vallarstarfsmenn hafi unnið við erfiðar aðstæður undanfarnar vikur þar sem varla kom dropi úr lofti. Ólafur Þór Ágústsson, vallarstjóri á Hvaleyrarvelli, segir að undirbúningurinn hafi staðið í um tvö ár og daginn fyrir "frumsýningu" er vallarstjórinn ánægður með hvernig til hefur tekist.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

"Ég held að fáir gerir sér grein fyrir því hve mikil vinna það hefur verið að halda vellinum í eins góðu ástandi og hægt er. Þegar þurrkarnir voru sem mestir fengum við útbúnað frá slökkviliði Hafnarfjarðar sem við notuðum til þess að vökva brautir 1-9 sem eru í hrauninu. Það voru komnar sprungur í þær allar og við vorum með menn á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn í heila viku á meðan vökvað var. Þeir sprautuðu um 500 rúmmetrum af vatni á sólarhring á völlinn á meðan þessu stóð," segir vallarstjórinn en hann verður í tvöföldu hlutverki á meðan Íslandsmótið í höggleik fer fram. "Ég er á meðal keppenda en í sjálfu sér kem ég ekkert nálægt því sem fram fer úti á vellinum hjá vallarstarfsmönnum á meðan mótið fer fram. Ég skipulegg hlutina með starfsmönnum vallarins og þeir framkvæma allt sem gera þarf. Það er frábært starfsfólk sem sér um völlinn."

Í tvöföldu hlutverki

Íslandsmótið í höggleik fór síðast fram á Hvaleyrarvelli árið 1999 og var Ólafur einnig í tvöföldu hlutverki á því móti. "Ég er ekki í vafa um að völlurinn er betri í dag en árið 1999. Það hafa kannski ekki verið gerðar miklar breytingar á vellinum sjálfum en það eru ýmsir smáhlutir sem hafa verið lagaðir og það er heilsteyptara yfirbragð á vellinum."

Það var markmið mótsstjórnar Íslandsmótsins að bjóða bestu kylfingum landsins upp á golf við bestu aðstæður án þess að fara út í einhverjar öfgar. "Þurrkarnir að undanförnu hafa gert það að verkum að karginn utan brautar er ekki mikill. En í raun ætluðum við ekki að setja völlinn upp með þeim hætti að hann væri "óþekkjanlegur" frá því sem menn eiga að venjast. Við teljum að það sé betra að kylfingar fái tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr. Skorið á mótinu á eftir að vera lágt, 3-4 högg undir pari á hverjum hring er ekki ólíklegt skor hjá þeim besta í karlaflokknum. Ég held að flestir kylfingar séu sammála því að hafa völlinn með þeim hætti að það sé hægt að skora vel. Það eru margir á þeirri skoðun að "röffið" eigi að vera hátt og þeir sem hitti ekki brautirnar eftir upphafshöggin eigi lenda í vandræðum. Við teljum hinsvegar að þetta sé ekki besta leiðin fyrir þetta mót. Kylfingarnir eiga að fá að glíma við Hvaleyrarvöll eins og hann er flesta daga. Flatirnar verða mun hraðari á Íslandsmótinu en á venjulegum degi á Hvaleyrinni."

Flatirnar slegnar þrisvar á dag

"Þær verða slegnar í 3,8 mm hæð þrisvar sinnum á dag og að auki verða flatirnar valtaðar tvívegis á hverjum degi," segir Ólafur.

Mælieiningin "stimp" er notuð til þess að mæla hraða á flötum á golfvöllum. Vallarstjórinn vonast til þess að hraðinn verði um 10 á keppnisdögunum fjórum en að öllu jöfnu er hraðinn á bilinu 7-8 stimp á Hvaleyrinni.

Að mati Ólafs eru fimm brautir á vellinum sem gætu verið "örlagavaldar" á keppnisdögunum fjórum. Hann nefnir 2. braut í hrauninu og einnig 5. og 9. braut. "Það er búið að lengja 9. brautina um 30 metra og það eru því hindranir komnar í leik sem voru ekki í leik áður. Sömu sögu er að segja af 15. brautinni. Þar er búið að setja teiginn aftar og vallarmörk eru á vinstri hlið brautarinnar. Það var staðreynd að kylfingar "dúndruðu" í upphafshöggunum upp á 14. braut og gátu með þeim hætti forðast flestar hættur á brautinni. Þetta er allt annað í dag, vallarmörk eru beggja vegna brautarinnar, djúpar brautarglompur í um 200 metra fjarlægð frá teig og það þarf því að huga að mörgu áður en upphafshöggið er slegið á þessari braut."

"Með glampa í augum"

Kylfingar úr Keili eru að mati Ólafs sigurstranglegir á Íslandsmótinu í karlaflokki. Hann spáir því að Björgvin Sigurbergsson, þrefaldur Íslandsmeistari, eigi eftir að láta að sér kveða á mótinu.

"Bjöggi er með glampa í augunum þessa dagana. Hann hefur leikið gríðarlega vel og hefur virkilega gaman af því að spila golf. Ég á von á því að hann verði í baráttunni um sigurinn en það eru einnig margir aðrir kylfingar úr Keili sem eiga ágæta möguleika."

Í hnotskurn
» Mælieiningin "stimp" er notuð til þess að mæla hraða á flötum á golfvöllum. Ólafur vonast til þess að hraðinn verði um 10 á keppnisdögunum fjórum en að öllu jöfnu er hraðinn á bilinu 7-8 stimp á Hvaleyrinni.
» Til samanburðar má nefna að hraðinn á flötum á stórmótum erlendis getur farið upp í allt að 12-13 stimp.