Kandahar. AFP. | Uppreisnarmenn í Afganistan drápu í gær einn af 23 Suður-Kóreumönnum, sem þeir hafa haldið í gíslingu og í gærkvöldi rann út "lokafrestur" sem mannræningjarnir gáfu afgönskum yfirvöldum til að verða við kröfum þeirra.
Kandahar. AFP. | Uppreisnarmenn í Afganistan drápu í gær einn af 23 Suður-Kóreumönnum, sem þeir hafa haldið í gíslingu og í gærkvöldi rann út "lokafrestur" sem mannræningjarnir gáfu afgönskum yfirvöldum til að verða við kröfum þeirra.

"Við drápum einn af Kóreumönnunum í dag vegna þess að stjórnin hefur ekki komið heiðarlega fram í viðræðunum," sagði talsmaður talibana, Yousuf Ahmadi. "Við hvetjum stjórnvöld og íbúa Suður-Kóreu til að knýja afgönsku stjórnina til að verða við kröfum okkar, ella drepum við fleiri gísla eftir að fresturinn rennur út."

Uppreisnarmennirnir krefjast þess að afgönsk yfirvöld sleppi átta föngum úr röðum talibana.

Ahmadi og afgönsk yfirvöld neituðu fréttum um að átta Suður-Kóreumenn hefðu verið látnir lausir.

S-kóreskir og afganskir embættismenn hafa reynt að semja við mannræningjana. Er þetta fjölmennasti hópur útlendinga sem tekinn hefur verið í gíslingu í nær sex ára uppreisn talibana.

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur lýst yfir því að ekki komi til greina að verða aftur við kröfum mannræningja eftir að stjórn hans féllst á að láta fimm talibana lausa úr fangelsi í skiptum fyrir ítalskan fréttamann sem haldið var í gíslingu.

Talibanar slepptu í gær dönskum fréttamanni nokkrum klukkustundum eftir að þeir rændu honum. Fréttamaðurinn var látinn laus þegar hann sagði mannræningjunum að hann væri múslími.