Róbert Bjarnason fæddist 31. október 1917. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ hinn 23. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Bjarni Bernharðsson og Ragnhildur Höskuldsdóttir. Róbert fæddist í Hafnarfirði en ólst upp að Eystri-Hellum í Flóa hjá fósturforeldrum sínum, Guðlaugi Jónssyni og Guðlaugu Jónsdóttur.

Árið 1944 kvæntist Róbert Ingibjörgu Veturliðadóttur, f. á Ísafirði 14. október 1912, d. 24. maí 1997. Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Halldórsdóttir og Veturliði Guðbjartsson. Börn þeirra Róberts og Ingibjargar eru: 1) Ragna myndlistarmaður, f. 3. apríl 1945, gift Pétri Arasyni, synir þeirra, Pétur Ari, f. 1967, andaðist á 1. ári, og Kjartan, f. 1972. 2) Droplaug, f. 17. september, 1946, d. 6. ágúst 1995. Börn hennar, Ingibjörg, f. 1965, María, f. 1968, Berta, f. 1971, Harpa Hrönn, f. 1973, og Gunnlaugur Orri, f. l975. 3) Andvana fæddur drengur l948.

Róbert flutti til Reykjavíkur um tvítugt þar sem hann m.a. stundaði tónlistarnám um skeið, hann lærði hraðskrift og var síðan þingskrifari hjá Alþingi á árunum 1939-1952. Hann stundaði síðan vinnu hjá Eimskipafélaginu og var í byggingarvinnu. Róbert stofnaði ásamt félögum sínum hljómsveitina Félag harmonikkuunnenda og hefur hann samið nokkur harmonikkulög.

Útför Róberts verður gerð frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Afi, þú varst alla tíð afar sérstakur maður og skemmtilegur karakter, spilaðir bæði á harmonikku og píanó og varst afar músíkalskur. Og svo varstu svo ótrúlega æðrulaus maður, það var sama hvert áfallið var, þú einhvern veginn bara tókst á við hlutina á þinn æðrulausa hátt eins og ekkert væri eðlilegra.

Elsku afi, takk fyrir allt, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og takk fyrir allt sem þú varst mér, og okkur öllum. Ég veit að við eigum oft eftir að minnast ykkar ömmu og ég veit að þá verður mikið hlegið, því minningarnar sem við eigum um ykkur eru allar svo góðar og skemmtilegar.

Ég læt æðruleysisbænina fylgja afi minn, mér finnst hún eiga svo vel við þig.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr)

Kær kveðja, þín

Ingibjörg.

Elsku afi minn, þú hefur nú fengið hvíldina þína. Amma og mamma hafa tekið vel á móti þér og sé ég fyrir mér að það hafi verið glatt á hjalla hjá ykkur, þú eflaust tekið upp harmonikkuna og spilað loks aftur.

Það var alltaf jafn gaman að koma til ykkar ömmu í Langagerðið og þar var mikið hlegið og einnig áttum við notalegar stundir, minningarnar þaðan eru ótalmargar og fá mann alltaf til að brosa. Eftir að þú fórst í Skógarbæ komu stelpurnar mínar oft með til þín og þá ljómaðir þú við að sjá þær.

Liljur og rósir

þær skreyta þitt beð

með þeim er barrtré

sem blómstrar þar með.

Allt er svo litríkt

svona rétt eins og þú

því beðið er líf þitt

en því lokið er nú

Nú amma er hjá þér

og þið saman á ný

um litfagra dali

hönd í hönd haldið í.

Ég bið bara að heilsa

því lítið annað get gert

vona að líf þitt á himnum

verði yndislegt.

(Clara Regína)

Elsku afi, takk fyrir allt, þín

Harpa.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku afi lang,

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Kveðja,

Una Rakel, Droplaug María og Matthildur