Iðnaður Stofnar bakarí í Bandaríkjunum TÆPLEGA þrítugur íslenskur bakari, Ágúst Felix Gunnarsson, hefur flutt búferlum til Cambridge í nágrenni Boston þar sem hann hefur stofnað bakarí ásamt tveimur Bandaríkjamönnum.

Iðnaður Stofnar bakarí í Bandaríkjunum

TÆPLEGA þrítugur íslenskur bakari, Ágúst Felix Gunnarsson, hefur flutt búferlum til Cambridge í nágrenni Boston þar sem hann hefur stofnað bakarí ásamt tveimur Bandaríkjamönnum. Ráðgert er að hið nýja bakarí taki til starfa um miðjan desember og er ætlunin að brydda upp á ýmsum nýjungum frá Íslandi. Stefnt er að því að hafa á boðstólum breiða línu af heilsubrauðum, vínarbrauðum og öðru bakkelsi svipað því sem þekkist hér á landi. Bandaríkjamenn eru í æ ríkara mæli að snúa sér að hvers kyns heilsufæði án óæskilegra aukaefna t.d. rotvarnarefna en framboð af hollu brauðmeti hefur verið af skornum skammti hingað til, að sögn Ágústs. Hann hyggst jafnframt annast ráðgjöf hjá bakaríi í Washington.

Ágúst lærði bakaraiðn hjá Bakarameistaranum í Suðurveri og starfaði þar um sjö ára skeið. Árið 1990 stofnaði hann ásamt öðrum bakaríið Þrjá fálka í Kópavogi og rak það í eitt og hálft ár eða þar til í byrjun árs 1992. Ágúst segir að upphafið að tengslum sínum við aðila í Bandaríkjunum megi rekja til ársins 1990. Þá hafi hann komist í samband við íslenska konu sem er gift fyrrum eiganda heildsölubakarís í Washington. "Hún bauð mér út til Bandaríkjanna árið 1990 til að skoða fyrirtækið en mér leist ekki á aðstæður á þeim tíma. Eftir að ég seldi Þrjá Fálka árið 1992 ákvað ég að fara aftur til Bandaríkjanna og hef síðan aðstoðað við uppsetningu á nýjum bakarísbúðum hjá þessu fyrirtæki, aðallega varðandi vöruþróun. Einn af framkvæmdastjórum þess og jafnaldri minn hafði áhuga á að stofna sitt eigið bakarí og úr varð að við fengum þriðja aðila til að vera með okkur í því að opna bakarí í Boston. Meðeigendur mínir hafa verið þar í nokkra mánuði til að undirbúa opnun fyrirtækisins."

Íslendingar framarlega í bakstri

Ágúst telur að Bandaríkjamenn séu langt á eftir Evrópumönnum í bakstri. "Íslendingar eru mjög framarlega á þessu sviði því við höfum sótt þekkingu til margra landa þ.á.m. Þýskalands, Danmerkur, Ítalíu og Frakklands."

Hann segir að bakaríið í Bandaríkjunum verði svipað að stærð og þekkist hér á landi en hins vegar sé unnið á opnu svæði þannig að viðskiptavinir geti fylgst með bakstrinum. Þá séu ofnar frábrugðnir þeim sem notaðir eru hér á landi. Hins vegar sé erfitt að fá vana bakara til starfa því bakstur er ekki kenndur í skólum í Bandaríkjunu. Ráða verði óvant fólk og þjálfa það frá grunni."

Allur tækjabúnaður bakarísins er keyptur frá Evrópu, að sögn Ágústs. Þeir félagar leggja til helming stofnkostnaðar sjálfir en hafa jafnframt fengið fyrirgreiðslu banka.

Morgunblaðið/Júlíus

BAKARINN - Ágúst Felix Gunnarsson, bakari, ætlar að hafa heilsubrauð og vínarbrauð á boðstólum í bakarí sínu í Cambridge í nágrenni Boston.