— Ljósmynd/Hallur Þór Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hall Þór Halldórsson hallurth@gmail.com ÞAÐ voru fagurlega meitlaðir tónar sem liðu niður ganga Sívalaturns í Kaupmannahöfn síðastliðið föstudagskvöld.

Eftir Hall Þór Halldórsson

hallurth@gmail.com

ÞAÐ voru fagurlega meitlaðir tónar sem liðu niður ganga Sívalaturns í Kaupmannahöfn síðastliðið föstudagskvöld. Fífilbrekkuhópurinn fór þar mikinn í flutningi sínum á nokkrum ljóðum Jónasar Hallgrímssonar, í útsetningum Atla Heimis Sveinssonar. Tónleikarnir voru liður í hátíðardagskrá sem blásið var til í Kaupmannahöfn um liðna helgi, í tilefni þess að hinn 16. nóvember næstkomandi verða tvö hundruð ár liðin frá fæðingu skáldsins. Meðal gesta í salnum var þrjátíu manna hópur frá Íslandi, sem kom gagngert til gamla höfuðstaðarins til þess að taka þátt í þessari dagskrá og koma á slóðir Jónasar.

Fyrr á föstudeginum hafði Svavar Gestsson sendiherra tekið á móti hópnum í sendiráði Íslands á Norður-Atlantshafsbryggju. Þar hleypti hann dagskránni af stokkunum með stuttri tölu, auk þess sem hann minnti á sjötíu ára flugafmæli Íslendinga, og þakkaði sérstaklega fyrir málverk af Jónasi eftir listmálarann Tryggva Ólafsson, sem nú prýðir veggi sendiráðsins.

Fífilbrekkuhópurinn samanstendur af Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara, Sigurði Ingva Snorrasyni klarinettuleikara, Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara og Hávarði Tryggvasyni kontrabassaleikara, auk þeirra Eyjólfs Eyjólfssonar tenórsöngvara og Huldu Bjarkar Garðarsdóttur sópransöngkonu.

Tónleikadagskráin tók yfir tuttugu og tvö lög, auk uppklapps. Voru tónleikagestir ákaflega hrifnir af útsetningum Atla Heimis, þótt einhverjum hafi brugðið við að heyra gömul og klassísk lög eins og Álfareiðina í nýstárlegri útgáfu. Einn gesta sagði Atla Heimi ákaflega hugrakkan að hafa lagt í þetta, en var ánægður með árangurinn.

Á milli laga steig leikarinn Hjalti Rögnvaldsson fram, og kynnti með miklum tilfþrifum það sem koma skyldi; hann setti það þá gjarnan í samhengi við líf Jónasar og æviferil, auk þess sem hann las upp úr glænýjum þýðingum af ljóðum Jónasar Hallgrímssonar, sem munu koma út hinn 16. nóvember næstkomandi, á tvö hundruð ára fæðingarafmæli hans.

Sóreyjarför

Stundvíslega klukkan tíu að morgni laugardagsins lagði hópurinn svo aftur í hann. Að þessu sinni var förinni heitið til bæjarins Sóreyjar (Sorø), en þar dvaldist Jónas um rúmlega hálfs árs skeið árin 1843-44. Rútuferðin til Sóreyjar tók tæpa tvo tíma, og meðan á henni stóð fræddi Böðvar Guðmundsson ferðalangana um ýmislegt tengt Sórey, Jónasi og danskri menningarsögu. Böðvar leiddi hópinn í gegnum vel skipulagða helgi af einstakri prýði.

Þegar komið var á staðinn var fyrst gengið um akademíuna í fylgd leiðsögumanna, og vistarverur nemenda og fræðimanna skoðaðar, en að því loknu var haldið rakleiðis á veitingahúsið Postgaarden, þar sem snæddur var danskur hádegisverður sem hófst að sjálfsögðu með rúgbrauði og síld. Á meðan gestir gæddu sér á því sem hlaðborðið hafði upp á að bjóða hélt dagskráin svo áfram með ýmsum uppákomum sem tengdust Jónasi Hallgrímssyni á einhvern hátt.

Í listasafninu á Norður-Atlantshafsbryggju ráku þau Dagný Kristjánsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson bókmenntafræðingar og Sveinn Jakobsson jarðfræðingur endahnútinn á vel heppnaða dagskrá helgarinnar með fyrirlestrum um skáldið, fræðimanninn og jarð- og náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson.

Ákaflega vel heppnað

Þeir Svavar Gestsson og Halldór Blöndal voru að vonum ánægðir með útkomu helgarinnar. Allt hafi gengið að óskum, allar tímasetningar staðist, og gestir verið lukkulegir með förina. Svavar segir fjölda gesta hafa komið sér á óvart, hann hafi til að mynda þurft að fá málþingið fært í stærri sal þegar á hólminn var komið. Halldór segir að mikill áhugi sé fyrir því að minnast Jónasar, hvort heldur er á Íslandi, í Danmörku eða Kanada.

Þrátt fyrir að þessari dagskrá hafi hér verið lokið eru áfram skipulagðir ýmsir viðburðir tengdir Jónasi í Danmörku. Sýning sem fjallar um ævi skáldsins stendur nú yfir á Norður-Atlantshafsbryggju, auk þess sem dagana 10.-13. september fer fram önnur dagskrá á Jótlandi.

"Nu ånder saligt sydens blide vinder"

SØREN Sørensen skáld og hinn nýi þýðandi Jónasar er hæglátur maður á sjötugasta aldursári. Ég rekst á hann í neðanjarðarlestinni á Nørreport á sunnudeginum. Leið okkar liggur niður á Norður-Atlantshafsbryggju, þar sem fyrirhugað er málþing um Jónas.

Um aðkomu sína að verkefninu segir hann að Böðvar Guðmundsson hafi leitað til sín og það hafi verið ómögulegt annað en að taka vel í þetta. Áður hefur Søren meðal annars þýtt ljóðabók Önnu S. Björnsdóttur, Þegar sól er enn á lofti (d. Mens solen stadig er fremme ). Hann vandar sig mikið þegar hann ber fram nafn skáldkonunnar Önnu Svanhildar á skýrri íslensku, sem hann þó segist í raun ekki geta talað, einungis lesið.

Hann er Böðvari líka ákaflega þakklátur, segir hann hafa lesið yfir þýðingarnar fyrir sig og gefið sér góð ráð, og spurður um valið á ljóðunum sem birtast munu í bókinni segir Søren það alfarið hafa verið í höndum Böðvars.

Við göngum eftir bökkum Kristjánshafnarskurðanna þegar talið leiðist að nútímaskáldskap. Søren er mjög hrifinn af íslenskum skáldskap og þykir danskar bókmenntir og íslenskar vera mjög svipaðar, líkari en skáldskapur hinna Norðurlandaþjóðanna. Honum þykir það líka ánægjulegt hve íslenskar bókmenntir komast fljótt til danskra lesenda. Til dæmis segir hann einungis hafa liðið um fjóra mánuði frá útkomu bókarinnar Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson, þangað til dönsk þýðing hennar var komin í bókabúðir.