4. október 2007 | Minningargreinar | 878 orð | 1 mynd

Sigurður Júlíus Hálfdánarson

Sigurður Júlíus Hálfdánarsson, til heimilis að Sætúni 8 á Suðureyri, fæddist í Reykjavík 8. september 1972. Hann lést laugardaginn 22. september síðastliðinn. Móðir Sigurðar er Hulda Ó. Scoles, f. 14. 2. 1955. Faðir Sigurðar er Hálfdán Guðröðarson, f. 4. 11. 1948, búsettur í Bolungarvík. Hulda giftist Kurt W. Eichman 1974, þau skildu 1982. Hulda giftist á ný Dave M. Scoles 1984 og ól hann Sigurð og systkini þeirra upp. Hulda og Dave eru búsett í Waldorf í Maryland í Bandaríkjunum. Foreldrar Huldu eru Guðlaug Hanna Friðjónsdóttir, f. 12.1. 1937 og Ólafur Ingimundarson, f. 5.1. 1933, d. 27.5. 2003, búsett í Hafnarfirði. Systkini Sigurðar eru: 1) Hannes Ó. Hulduson, f. 8.9. 1972, maki Rugnada Hulduson, f. 18.12. 1981, börn þeirra eru Sara E. Ólafsdóttir og Gunnar, f. Ólafsson. Búsett á Sætúni 8 á Suðureyri. 2) Karlotta L. Eichman, f. 19.8. 1975, maki John Eberwein, f. 30.12. 1970, börn þeirra eru Kurt Eberwein, Elisabeth Eberwein og Hulda Eberwein. Þau eru búsett í St. Mary's County í Maryland í Bandaríkjunum. 3) Guðlaug Hanna Eichman Lytle, f. 30.11. 1980, maki Nathan Lytle, sonur þeirra er Dave Godfrey. Þau búsett í Calvert County í Maryland í Bandaríkjunum. 4) Bonnie Lára Scoles, sonur hennar er K. Anthony Peden. Þau eru búsett í Waldorf í Maryland í Bandaríkjunum. Sigurður á tvö hálfsystkini, Ölver Hálfdánarson, búsettan á Ísafirði og Árnýju Hálfdánardóttur, búsetta í Reykjavík.

Börn Sigurðar eru Sesselja Rán og Júlíus Örn Sigurðarbörn.

Sigurður Júlíus ólst upp í Hafnarfirði, Grindavík og Keflavík. Hann flutti til Bandaríkjanna 1984 með foreldrum sínum og gekk þar í skóla. Hann flutti svo til Íslands 1992. Sigurður var til sjós í nokkur ár, hann vann einnig í Plastós, vann við smíðavinnu hjá Kvistfelli á Selfossi og var við vinnu í Parketslípun stuttu áður en hann lést.

Sigurður verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku Siggi minn, það er svo sárt að kveðja en þú ert kominn á betri stað þar sem þér líður betur. Þú verður alltaf í hjarta mínu.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Guð geymi þig, elsku sonur minn.

Mamma.

Elsku bróðir minn.

Orð fá ekki lýst því hvernig sorgin er núna, ég er ekki bara búinn að missa besta bróður heldur besta vin minn og helminginn af mér. Sársaukinn er óbærilegur og óskiljanlegur, þú varst örfáa mánuði frá því aðflytja til mín og Nínu, við stóðum við hlið þér öllum stundum vegna þess að okkur þótti svo vænt um þig og þú varst svo góður við okkur og börnin.

Ég veit að þú ert núna hjá afa og Gunna og þér líður vel, en þú átt ekki að vera þar en því fær enginn breytt, elsku Siggi minn. Þú verður í hjarta mínu að eilífu og minning þín lifir Siggi minn. Minningin þín mun veita okkur fjölskyldunni styrk í sorg okkar, við munum alltaf hugsa til þín, elsku Siggi minn.

Ólafur bróðir og fjölskylda.

Elsku vinur.

Það er sárt að kveðja þegar vonin er svo góð – að betri tímar væru fram undan. En við ráðum svo litlu. Það sem huggar mig er að þú ert hjá afa og Gunnari og gengur í ljósið. Núna ertu umvafinn gæsku Guðs.

Guð geymi þig, elsku Siggi.

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

(Matt.7:7-8).

Amma.

Elsku Siggi.

Mikið rosalega hefur þetta ár verið átakanlegt. Í janúar misstir þú Gunna frænda sem þér þótti svo ógurlega vænt um og nokkrum mánuðum síðar kvaddi amma langa. Og nú ert þú allt í einu farinn, allt of fljótt. Ég var að hugsa um daginn þegar þú og Gunni redduðuð mér og Davíð einu sinni þegar við vorum bensínlaus á Reykjanesbrautinni. Þú varst í dagsleyfi og þið frændurnir komuð eins og skot að ná í okkur. Ótrúlega skrýtið að hugsa til þess að þið séuð báðir farnir núna.

Þú gafst þér svo oft tíma til að spjalla við mig um heima og geima þegar ég var lítil og í minningunni ertu alltaf brosandi. Fyrir 2-3 árum áttum við svona langt og gott samtal og ég er svo glöð með það.

Ég veit að Gunni, afi, amma langa og allir þeir sem eru farnir frá okkur taka vel á móti þér með opnum örmum. Það er aldeilis orðið þröngt á himnum.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum í trú

á að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Þín "litla" frænka,

Agla.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.