13. október 2007 | Fastir þættir | 1033 orð | 3 myndir

SKÁK - EM taflfélaga

TR skákar Helli í Tyrklandi

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Góð frammistaða Stefán Kristjánsson að tafli í hátíðarsal MH.
Góð frammistaða Stefán Kristjánsson að tafli í hátíðarsal MH.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
2.-10. október
TAFLFÉLAG Reykjavíkur og Hellir náðu ekki að blanda sér í baráttu efstu liða á Evrópumeistaramóti taflfélaga sem fram fór í Kemer í Tyrklandi á dögunum. Kannski ekki nema von þar sem margir af fremstu skákmönnum heims bera uppi bestu liðin. Sigurvegarinn Linex Magic frá Merida á Spáni hafði innanborðs m.a. Kamsky, Adams, Rublevsky og Sargissian. Sveitin vann sex af sjö viðureignum og gerði eitt jafntefli, hlaut samtals 13 stig.

Við upphaf fimmtu umferðar gekk nýbakaður heimsmeistari í salinn við mikið lófaklapp. Wisvanathan Anand, sem tefldi þrjár skákir fyrir þýsku sveitina Baden Baden, hefur enn ekki snúið heim til Indlands, en á næstu dögum verður mikið um dýrðir þar í landi þegar hann snýr heim.

Í 2. sæti í Kemer varð rússneska sveitin Ural Sverdlovskya með 12 stig, en fyrir sveitina tefldu m.a. Radjabov, Shorov, Grischuk og Akopjan. Í þriðja sæti varð önnur rússnesk sveit, Tomsk, með 11 stig en fremstu menn þar voru Morosevich og Karjakin.

Taflfélag Reykjavíkur varð í 18. sæti af 56 sveitum með 25½ vinning en Hellir varð í 35. sæti með 6 stig og 19½ vinning.

Taflfélag Reykjavíkur hefur fengið Hannes Hlífar Stefánsson til liðs við sig, en hann hefur mörg undanfarin ár teflt á 1. borði fyrir Hellis. Jóhann Hjartarson hefur hinsvegar gengið til liðs við Helli en hann var ekki með í Tyrklandi. Bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnsson héldu uppi merki Hellisbúa en aðrir í sveitinni voru Sigurður Daði Sigfússon, Robert Lagerman, Kristján Eðvarðsson og Rúnar Berg.

Igor Nataf, sem áður tefldi fyrir Taflfélag Vestmannaeyja, hefur einnig gengið til liðs við TR, náði bestum árangri TR-inga en einnig stóð Stefán Kristjánsson sig vel, hlaut 5 vinninga úr 7 skákum. Aðrir í sveit TR voru Þröstur Þórhallsson, Stefán Kristjánsson, Jón Viktor Gunnarsson, Arnar Gunnarsson og Snorri G. Bergsson sem jafnframt var liðsstjóri.

Sigurskák Stefáns yfir Ivan Sokolov vakti mikla athygli en þetta er í annað sitt á stuttum tíma sem Stefán leggur öflugan stórmeistara að velli í ítalska leiknum.

Tíundi leikur Stefáns, Rh4, er athygliverður og honum tekst að fá Ivan til þess að leggja of mikið á stöðu sína og má glíma við veikingu á svörtu reitum. Með 29. Df2 hótar hvítur máti á h4 og ræður í framhaldinu yfir e-línunni. Það eru ekki góð tíðindi fyrir Soklov, hinn snjalli leikur 38. He8 gerir í raun út um taflið því 39. ... gxh3 strandar á 40. d5! og svartur verður að gefa mann fyrir frípeðið. Peðastaða svarts splundrast og eftirleikurinn er auðveldur fyrir Stefán.

EM í Tyrklandi; 2. umferð:

Stefán Kristjánsson

– Ivan Sokolov

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d3 d6 6. Rbd2 0-0 7. Bb3 a6 8.

h3 Ba7 9. Rf1 Re7 10. Rh4 Rd7 11. Rg3 Rc5 12. Bc2 d5 13. 0-0 c6 14. Be3 Re6 15. Bxa7 Hxa7 16. Rf3 f6 17. d4 dxe4 18. Rxe4 f5 19. Rc5 e4 20. Rxe6

Bxe6 21. Rg5 Bc8 22. f3 exf3 23. Rxf3 Rg6 24. Bb3+ Kh8 25. Dd2 b5 26. Hae1 Dd6 27. Re5 c5 28. Rxg6+ hxg6 29. Df2 c4 30. Bd1 g5 31. He5 He7 32. Hfe1 Hxe5 33. Hxe5 Dh6 34. De3 Dg6 35. Df3 Kh7 36. Dh5+ Dxh5 37. Bxh5 g4

38. He8 Hxe8 39. Bxe8 Kg8 40. hxg4 Kf8 41. Bc6 fxg4 42. Kf2 Be6 43. Bb7 a5 44. Bc6 b4 45. d5 Bf5 46. g3

– og svartur gafst upp.

Snorri G. Bergsson tefldi aðeins tvær skákir í Grikklandi og vann þær báðar. Hann hélt úti bloggsíðu sinni á meðan á mótinu stóð og kom þar fram að góður liðsandi hafi verið með TR-ingum og almennt í íslenska hópnum. En auðvitað gat Snorri ekki stillt sig um að stríða Hellismönnum örlítið:

"Annars var lánið misskipt. Ég kom í gær í fyrsta skipti í herbergi þeirra Löngumýrarbræðra, en það var ca. helmingi minna en mitt, og loftræstingin í ólagi. Þar var semsagt nær ólíft. Furðulegt, en hótelstarfsmennirnir hafa greinilega tekið eftir greinilegum yfirburðum okkar TR-inga – skákaðals Íslendinga – yfir Hellisbúana og látið okkur hafa bestu herbergin. Mjög eðlilegt, en vísast sárt fyrir Hellismenn. Sig. Daði og Kristján fengu svipað herbergi og bræðurnir, en gömlu kallarnir, Trölli og Stóritími, fengu herbergi, sem var næstum því eins flott og okkar TR-inga.

Snorri mætti sænska stórmeistaranum Tómasi Ernst í sjöttu umferð og fór Svíinn niður í logum, svo notað sé orðfæri bræðranna. Ernst er þekktur fyrir mikla teóríuþekkingu en menn spyrja hvort þarna hafi skrattinn hitt ömmu sína. Staðan eftir 12 leiki er þekkt en í stað þess að hirða peðið á e5 varð svartur að leika 12. ... b4 með óljósri stöðu. Ernst virðist ekki hafa tekið fórn Snorra í 15. leik með í reikninginn. Þó er hún þekkt í svipuðum stöðum, 16. ... Dc5 strandar á 17. Hxe6+! fxe6 18. Bg6+ og vinnur. Svartur má vitanlega ekki taka á b5 í 18. leik. 19. leikur Snorra, Rc7+ er virkilega snotur en þó 20. Be2 vinni auðveldlega gat hann fært taflmennskuna upp á hærra plan með því að leika 20. Hxe6+!! Kxe6 21. De3+ Kf6 22. De5+ Kg6 23. Bd3+ f5 24. Bxf5+ Kf7 25. Hd7+ Kg8 26. Be6+ og mátar.

EM í Tyrklandi; 6. umferð:

Snorri G. Bergsson

– Thomas Ernst

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 Rc6 6. Bg5 e6 7. Dd2 a6 8. 0-0-0 h6 9. Be3 Bd7 10. f4 b5 11. Bd3 Dc7 12. Hhe1 Ra5 13. e5 dxe5 14. fxe5 Dxe5

15. Rxe6 Bxe6 16. Bf4 Dh5 17. He5 g5 18. Rxb5 Rd5 19. Rc7+ Rxc7 20. Be2 Be7 21. Bxh5

Svartur gafst upp.

Íslandsmót taflfélaga hafið

Íslandsmót taflfélaga hófst í gær í íþróttasal Rimaskóla í Reykjavík. Teflt er í fjórum deildum og er almennt búist við að TR og Hellir muni berjast um Íslandsmeistaratitilinn en Hellir sem er núverandi Íslandsmeistari hefur misst Hannes Hlífar Stefánsson til TR-inga sem hafa einnig bætt sig með Igori Nataf sem áður tefldi fyrir TV. Búist er við að á fjórða hundrað manns tefli í Rimaskóla um helgina.

Þegar dregið var um töfluröð varð niðurstaðan þessi:

1. deild:

1. Hellir, b-sveit.

2. Haukar

3. SA, b-sveit.

4. TR

5. Fjölnir

6. SA, a-sveit.

7. TV

8. Hellir, a-sveit.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.